132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[03:04]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um stofnun Matvælarannsókna hf. frá meiri hluta allsherjarnefndar. Eins og fram kemur í nefndaráliti hefur nefndin fundað með fjölmörgum aðilum um þetta mál og fengið umsagnir jafnframt frá fjölda aðila.

Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði einkahlutafélag í eigu ríkisins um rekstur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og Matvælarannsókna Keldnaholti, sem jafnframt verði lagðar niður. Hlutverk félagsins verði að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis og sinna fræðslu á sviði matvælarannsókna.

Á fundum ræddi nefndin um verksvið núverandi stofnana og tillögur frumvarpsins um stofnun einkahlutafélags um rekstur þeirra. Kom fram að matvælarannsóknir eru afar mikilvægar fyrir íslenskt atvinnulíf og mikilvægt að stórefla þær. Telur meiri hluti nefndarinnar að miklir möguleikar til að efla matvælarannsóknir hér á landi felist í þessu máli og telur það nauðsynlegt.

Nokkuð var rætt í nefndinni um þá stefnu sem menn sjá á alþjóðavísu, m.a. innan ESB, að skilja rannsóknir á matvælum frá eftirliti með slíkri framleiðslu. Samkvæmt frumvarpinu eiga Matvælarannsóknir hf. ekki að sinna neinu opinberu eftirliti heldur verður það hjá Fiskistofu, Umhverfisstofnun, Landbúnaðarstofnun og heilbrigðisnefndum sveitarfélaga.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að lesa í gegnum allt nefndarálitið. Ég vil þó staldra aðeins við hlutverk stjórnar, en eins og fram kemur í nefndarálitinu verður það meðal verkefna nýrrar stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins að skilgreina nánar framtíðarstefnu félagsins, hlutverk þess við prófanir, skilgreina þau verkefni á sviði matvælarannsókna sem brýnt er að félagið sinni, útfæra og efla samstarf við aðra rannsóknaraðila, háskólastofnanir og atvinnulíf, huga að framtíðaruppbyggingu starfseminnar og húsnæðismálum og tryggja fjárhagslegan grundvöll starfseminnar til framtíðar o.s.frv.

Meðal brýnni verkefna nýrrar stjórnar verður að finna rannsóknarstyrkjum nýjan farveg, en þær stofnanir sem hér eru sameinaðar í þetta hlutafélag hafa fengið mótframlag vegna umsókna um styrki á fjárlögum og það þarf að finna þeim mótframlögum einhvern nýjan farveg.

Ég leyfi mér að öðru leyti en ég hef hér rætt að vísa til nefndarálits meiri hluta allsherjarnefndar sem auk þess sem hér stendur Jónína Bjartmarz, Birgir Ármannsson, Kjartan Ólafsson og Sigríður Ingvarsdóttir eru samþykk, en Björgvin G. Sigurðsson og Ágúst Ólafur Ágústsson með fyrirvara.