132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

útreikningur vaxtabóta.

[09:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það hefur orðið mikil aukning á verði eigna og þar með á eignum stórs hóps einstaklinga og fjölskyldna í þjóðfélaginu. Það hefur auðvitað í för með sér, í samræmi við reglur sem hafa verið í gildi mörg undanfarin ár, að þeir sem eiga meira fá minna af bótum frá ríkinu. Um þetta hafa hv. þingmenn verið sammála í meginatriðum.

Það sem fylgir hins vegar ekki með í sögunni hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er að samhliða þessari eignaaukningu gæti jafnframt verið skuldaaukning. Niðurstaðan gæti því verið sú vegna nettóeignastöðunnar að það yrði engin breyting á þeim bótum sem um er að ræða. Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir og munu ekki liggja fyrir fyrr en álagningu síðasta árs er lokið í byrjun ágúst væntanlega. Það getur vel verið, og ég hef reyndar sagt það hér áður þegar hv. þm. Atli Gíslason tók þetta mál upp og vakti athygli á því, að það væri ástæða til að fara yfir forsendur vaxtabótanna og meta þær upp á nýtt, en eins og staðan er í dag liggja þessar upplýsingar ekki fyrir þannig að við gætum farið í slíka vinnu.

Það er líka rétt að hafa í huga að í gangi er endurskoðun á því hvernig við skipuleggjum íbúðalánin og niðurstaðan í þeim efnum gæti líka haft áhrif á það hvernig við viljum ráðstafa vaxtabótunum. Ég held að við ættum að hinkra um sinn þar til upplýsingar liggja fyrir, bæði um hver niðurstaða álagningarinnar verður og hver niðurstaðan verður í því hvernig við högum húsnæðislánunum, áður en við gerum breytingar á vaxtabótakerfinu.