132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

útreikningur vaxtabóta.

[09:09]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að ekki væri séð fyrir endann á því hver áhrif þessara óbreyttu viðmiðana yrðu. En ég ætla að vekja athygli á því að þeir sem hafa gert áætlanir um stöðu sína og ekki breytt skuldsetningu sinni sitja uppi með það vegna aðstæðna sem hafa orðið á fasteignamarkaði að þeir verða af gríðarlegum tekjum. Það kom fram í svari hæstv. fjármálaráðherra hér að meðalvaxtabætur á fjölskyldu væru í kringum 145 þús. kr.

Hverjir eru að missa af þessum tekjum? Það eru þeir sem eru tekjulægstir í þjóðfélaginu. Þeir hafa líka farið illa út úr öðrum breytingum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir og það er skattastefna ríkisstjórnarinnar. Við megum ekki heldur gleyma því í þessari umræðu að ýmsar álögur, svo sem fasteignagjöld, hafa hækkað vegna þessa þannig að allt leggst þetta á fólkið sem síst skyldi. Ég tel að menn ættu að hugsa þetta betur og taka jákvæðar í þessa tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vegna þess að hér er um að ræða hina tekjulægstu í samfélaginu.