132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

hlutafélög.

404. mál
[09:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Um opinbera starfsemi hafa á undanförnum árum og áratugum verið sett lög og reglur til að gera starfsemina opnari og réttlátari. Þar má nefna lagasetningu á borð við upplýsingalögin og stjórnsýslulögin frá 1993 og 1996. Þetta eru einföld og skýr lög sem á hátíðastundum eru mjög rómuð. Þá hefur verið samið við stéttarfélög starfsfólks um ýmis réttindi því til handa og er það allt fest niður í samkomulag og samninga.

Nú er tíska að tala um að þetta sé óskaplega hamlandi og það ríði á að komast undan þessum lögum svo forstjórar fái meira svigrúm eins og það er kallað. Þess vegna er opinber starfsemi, jafnvel sú sem á að vera í eign ríkis eða sveitarfélaga hlutafélagavædd. Þá komast menn undan þessum lögum og undan samningum.

En til að blekkja fólk og lægja óánægjuöldur er þessi lagasetning fram komin sem eins konar réttlæting á réttindaskerðingunni og er hún kynnt sem mikið framfaraspor.

Þetta frumvarp og þær breytingartillögur sem fram eru komnar eru einhver ömurlegast kattarþvottur sem við höfum lengi orðið vitni að. Við skulum ekki gleyma því að þetta er sett fram á sama tíma og við erum að greiða atkvæði um að taka ýmsa opinbera starfsemi og færa hana undan skýrum og einföldum lögum og undan kjarasamningum sem tryggja rétt starfsfólks og gera almenningi kleift að fylgjast með og kynnast athöfnum og starfsemi þeirra stofnana sem reknar eru í almannaþágu.

Við munum ekki taka þátt í þessu sjónarspili. Sá tími er til þegar lagasetning af þessu tagi á rétt á sér, þá í stórbreyttri mynd og í samvinnu og samkomulagi við stéttarfélög þeirra starfsmanna sem verið er að skerða réttindin hjá. Sá tími er ekki núna. Við munum sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.