132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

hlutafélög.

404. mál
[09:35]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Á undanförnum árum hefur ýmsum opinberum fyrirtækjum verið breytt í hlutafélög. Það er staðreynd sem við stöndum andspænis. Ég tel því mikilvægt af þeim sökum að til séu í lögbókinni einhver ákvæði um opinber hlutafélög. Það á við hér á landi eins og í nágrannalöndum okkar að slík ákvæði þurfi að vera til í hlutafélagalögum.

Þess vegna styð ég það, virðulegur forseti, að slíkt frumvarp, þ.e. frumvarp um opinber hlutafélög séu samþykkt hér á Alþingi. Ég tel hins vegar að það frumvarp sem viðskiptaráðherra lagði hér fram sé mjög ófullkomið og það gangi alls ekki nógu langt til að tryggja m.a. að upplýsingalög gildi um hin opinberu hlutafélög eins og fyrirtæki í eigu ríkisins.

Við í minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar leggjum því til tillögur í fjórum liðum til breytinga á frumvarpi viðskiptaráðherra, til að freista þess að gera lögin fyllri og betri þannig að þau nái utan um hin opinberu hlutafélög og tryggi að stjórnvöld séu ekki að breyta fyrirtækjum í opinber hlutafélög til þess eins að komast undan því að veita upplýsingar um starfsemi fyrirtækjanna.

Við treystum því að þær breytingar sem við teljum að þurfi að gera á þessu frumvarpi verði gerðar, en eins og ég sagði, virðulegur forseti, þá styðjum við engu að síður að slíkt frumvarp komi fram og slík lög séu sett og munum því greiða frumvarpinu atkvæði okkar en láta áður á breytingartillögur okkar reyna.

Ég vil hins vegar, virðulegur forseti, kynna að ég mun draga breytingartillögu nr. 2 frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar til baka til 3. umr. og láta reyna á hana við 3. umr. um málið.