132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

almenn hegningarlög o.fl.

619. mál
[10:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um innleiðingu samnings Evrópuráðsins um tölvubrot. Meðal þess sem sá samningur fjallar um eru viðurlög við barnaklámi og skilgreining barnakláms. Í frumvarpi þessu, 2. grein, er breyting á almennum hegningarlögum og er gert ráð fyrir að skilgreiningin á barnaklámi taki einungis til hluta þess sem samningurinn heimilar. Samningurinn heimilar talsvert víðtækari skilgreiningu á barnaklámi en tekin er upp í frumvarpinu. Í samningnum er heimild fyrir því að undanþiggja ákveðinn hluta skilgreiningarinnar á barnaklámi: Þegar klámfengið efni sýnir einstakling sem lítur út fyrir að vera ólögráða barn í kynferðislegum athöfnum eða ef það sýnir raunsannar myndir sem tákna ólögráða barn í kynferðislegum athöfnum sem eru ekki raunsannar — þessar tvær lýsingar eru eitthvað sem er valkvætt í samningnum og samkvæmt frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að þessi skilgreining verði tekin inn í íslensk lög.

Þessu mótmæli ég, þessu mótmælir Barnaverndarstofa og sömuleiðis Barnaheill. Ég teldi sóma að því að við lögleiddum hina víðu skilgreiningu. Ég boðaði í ræðu minni hér í gær breytingartillögu við málið, sennilega er verið að dreifa henni núna. Ég legg hana fram milli 2. og 3. umr., hún kemur þá til atkvæðagreiðslu við 3. umr. Þangað til sú atkvæðagreiðsla fer fram munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitja hjá við málið, þ.e. við 2. gr.