132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

almenn hegningarlög o.fl.

619. mál
[10:21]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði sérstaklega um 2. gr. frumvarpsins. Með þeim breytingum sem gerðar eru á 210. gr. hegningarlaganna með 2. gr. frumvarpsins er verið að tryggja að við Íslendingar uppfyllum samning Evrópuráðsins um tölvubrot. Með því að fella greinina eins og hún liggur fyrir í frumvarpinu er verið að koma í veg fyrir að við getum uppfyllt samninginn. Því má svo sem halda fram að ástæða hefði verið til að ganga lengra, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði í sínu máli, og beita ekki þeim fyrirvara sem íslensk stjórnvöld hyggjast gera varðandi skilgreiningu á barnaklámi, en það breytir því ekki að það er óskynsamlegt að fella 2. gr. vegna þess að með því er komið í veg fyrir að við uppfyllum ákvæði samningsins.

Það er síðan þannig með fyrirvarana að þeim er hægt að aflétta, hægt er að draga þá til baka hvenær sem er. Og eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar er hvatt til þess að fylgst verði með refsiréttarþróun á þessu sviði á næstu árum.