132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[10:30]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Enn einu sinni, á síðustu klukkutímum þingsins, erum við með smábreytingar á hinu fræga olíugjaldi og kílómetragjaldi. Hér er verið að framlengja fjögurra króna afslátt til að hafa olíuna aðeins ódýrari en bensínið. En það sem ég ætlaði að skýra frá hér er varðandi 1. gr., þar er stigið gott skref með því að leyfa björgunarsveitum í landinu að kaupa litaða olíu á bíla sína en þurfa ekki að greiða þessi háu gjöld vegna þess að auðvitað hafði þessi breyting í för með sér stórhækkun til þeirra.

Hins vegar er í 2. gr., og við það gerði ég athugasemdir strax við 1. umr., ætlað að björgunarsveitarbílar verði settir á sérstakan þungaskatt, þungaskattskerfi sem fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra taldi sig hafa verið að leggja af en er hér verið að styrkja í sessi sem svona annað kerfi til að fá inn tekjur ríkissjóðs af umferð. Ég er því mótfallinn að þetta verði gert á þennan hátt með björgunarsveitarbílana og bendi á að það kostar um 70 þús. kr. að breyta hverjum björgunarsveitarbíl og þeir eru í kringum 200 talsins þannig að þetta eru útgjöld fyrir björgunarsveitir upp á 14 millj. kr. Í umræðu í gær um þetta frumvarp boðaði ég breytingartillögu um að 2. gr. yrði felld út, að björgunarsveitarbílar fengju að vera á litaðri olíu og ekkert meir. Af tæknilegum ástæðum er sú tillaga ekki komin fram og kemur því fram við 3. umr. en ég vil skýra frá því, virðulegi forseti, að við þingmenn Samfylkingar munum greiða atkvæði gegn 2. gr. þessa frumvarps sem breytingartillaga okkar fjallar um við 3. gr.