132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

almannatryggingar.

792. mál
[10:56]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að gera ýmsar breytingar á almannatryggingalögunum sem við í Samfylkingunni teljum flestar vera til bóta. Þessar lagabreytingar eru hins vegar viðbrögð við reglugerð, sem hæstv. heilbrigðisráðherra setti í kjölfar uppsagna hjartalækna á samningi, sem við teljum að áhöld séu um að standist lagaheimildir. Með þeirri reglugerð er komið á nýju tilvísunarkerfi þar sem við teljum að verið sé að fara inn á mjög varhugaverða braut við að festa í sessi tvöfalt heilbrigðiskerfi, eitt fyrir hina efnameiri og annað fyrir hina efnaminni. Vegna þess hvernig þessar lagabreytingar eru til komnar mun Samfylkingin sitja hjá við allar greinar og breytingartillögur frumvarpsins. Þó að við teljum að víða séu breytingarnar til bóta getum við ekki stutt málið og vísum ábyrgðinni á breytingunum sem felast í reglugerðinni alfarið á ríkisstjórnina af því að við getum ekki greitt atkvæði um reglugerðina hér í þessum sölum.