132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[10:59]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er á ferðinni frekar lélegt frumvarp sem felur þó í sér þá framför að Landmælingar Íslands verða teknar úr samkeppnisrekstri sem kominn er af stað á því sviði sem þær hafa lengi annast. Á hinn bóginn hefur verið ákveðið að Landmælingar haldi áfram að halda gögnum sínum, sem eru þjóðareiga, með þeim hætti að innheimta gjald af höfundarétti svokölluðum, sem ríkið telur sig eiga á þessum gögnum þvert á það frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra hefur flutt á þinginu, sem verður væntanlega endurflutt af hinum sama hæstv. forsætisráðherra eða öðrum, eftir atvikum, á næsta þingi. Það gerir ráð fyrir að hin almenna regla sé sú að upplýsingar sem ríkið býr yfir séu þjóðareign og útlátalausar af hálfu ríkisins til að efla rannsóknir, viðskipti, þjóðarhag og almenna gleði í landinu. En í þessu tilviki varðar þetta bæði verkfræði, rannsóknir, útiveru og ánægju af náttúrunni.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri óeðlilegt. Hún hefur í áliti sínu hvatt til að þetta ástand standi stutt. Við stjórnarandstæðingar teljum að þetta eigi að ganga í gildi strax. Það er lagt til í breytingartillögu sem ég flyt fyrir hönd okkar í nefndinni. En það mun ríkisstjórnin ekki hafa orðið ásátt um þar sem um 22–25 millj. kr. er að ræða á ári. Því er ákveðið að Landmælingarnar haldi áfram í sértekjuklemmunni sem allir kannast við.

Mér þykir ekki djarflegt og ekki framsýnt af ríkisstjórninni að hafa ekki geta tekið rétta ákvörðun í þessu máli. Þingið getur það núna með því að styðja breytingartillögu mína.