132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[11:14]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við í Frjálslynda flokknum getum ekki stutt þetta frumvarp, einkum vegna þess að það er mjög illa undirbúið. Ég tel fullvíst að þetta mun eingöngu leiða til meiri ríkisútgjalda sökum þess hve illa það er undirbúið. Með því eru engin mælanleg markmið sett og furðulegast af öllu er að Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram frumvarp um hálfgert samkrull ríkisstofnunar og hlutafélags. Enginn skilur í rauninni hvers konar rekstrarform á að vera á þessu. Það mun leiða til að lítið einkafyrirtæki sem er starfandi mun eiga erfiðara um vik að halda uppi starfsemi. Það er með öllu óskiljanlegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli með slíku frumvarpi leggja stein í götu þeirra sem stundað hafa rannsóknir á einkamarkaði.

Ég lýsi yfir furðu minni á þessu frumvarpi. En kannski ætti maður ekki að furða sig á því þegar maður lítur á verk ríkisstjórnarinnar sem hefur hyglað að fyrirtækjum með tengsl við stjórnmálaöflin í landinu á kostnað þeirra sem reka fyrirtæki sín á eigin forsendum. Við í Frjálslynda flokknum munum ekki styðja þetta frumvarp og greiðum atkvæði gegn því.