132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[11:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Einkavæðingin ríður ekki við einteyming hjá þessari ríkisstjórn einkavæðingarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Við þekkjum þessa sögu. Fyrst er hlutafélagavætt. Hátíðlegar yfirlýsingar eru gefnar um um að ekki standi til að selja eða vista verkefnin út. Eftir nokkur missiri er selt. Hvernig var með Símann? Síminn var hlutafélagavæddur. Hann átti áfram að vera í eigu þjóðarinnar. Ekki var blekið fyrr þornað en söluferlið var sett í gang og nú er hann seldur þvert gegn vilja meginþorra þjóðarinnar.

Hér á að fara að einkavæða matvælarannsóknir, matvælaeftirlit. Fyrst á að setja það í hlutafélag og síðan verða þeir bútar seldir burt og kannski svo stofnunin í heilu lagi seinna eins og Síminn fór. Nei, frú forseti. Það er dapurlegt hvernig þessi ríkisstjórn gengur gegn hagsmunum þjóðarinnar í einkavæðingaræði (Forseti hringir.) sínu. Ég segi nei.