132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

mælingar, mæligrunnar og vigtarmenn.

620. mál
[11:33]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Nefndarálitið er að finna á þskj. 1416 og í því kemur fram hvaða gestir heimsóttu nefndina og hvaða umsagnir bárust nefndinni. Einnig eru talin þar upp markmið með frumvarpinu.

Umfjöllun nefndarinnar snerist að mestu leyti um IX. kafla frumvarpsins en í þeim kafla er lögð til skattlagning, 250 kr. á hvert mælitæki. Andlag skattlagningarinnar eru mælitæki allt frá sjússamælum sem kosta 3.000 kr. til hafnarvoga sem kosta tugi milljóna. Eftirlitið sem greiða skal með skattinum fer fram mörgum sinnum á ári í sumum tilfellum en á 17 ára fresti í öðrum. Skattlagningin er því ekki í neinum tengslum við þá umsýslu sem hún á að standa straum af. Slík skattlagning með svo lágri upphæð, 250 kr., sem á flest heimili kemur út sem 500 kr. vegna þess að flest heimili hafa tvo mæla, rafmagnsmæli og heitavatnsmæli, og gefur einungis 60 millj. kr. í skatttekjur er í andstöðu við hefðbundna stefnu í skattlagningu. Vegna þessa leggur nefndin til að þetta eftirlitsgjald, þessi skattlagning, verði fellt brott. Upplýst hefur verið að núverandi gjaldtaka fyrir löggildingar nemi um 8,5 millj. kr. árlega og er miðað við að þeirri gjaldtöku verði fram haldið.

Að öðru leyti vísast til nefndarálits á þskj. 1416.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi við afgreiðslu þess og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Jónína Bjartmarz, Guðjón Ólafur Jónsson, Birgir Ármannsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Sigríður Ingvarsdóttir, Ögmundur Jónasson og Lúðvík Bergvinsson.