132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:47]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ekki aðstaða til þess að taka upp langar umræður um byggðamál í dag því það liggur fyrir samkomulag um að ljúka þingi á þessum degi. Það hefði þó ástæða til að ræða margt í samhengi við þessa afgreiðslu. Ég ætla hins vegar að hafa orð mín fá. Ég fagna þeirri niðurstöðu sem náðist í nefndinni. Ég fagna því líka að sá fyrirvari sem við gerðum við greinargerð nefndarinnar er í raun og veru uppfylltur. Það liggur fyrir að Nýsköpunarmiðstöðin verður ekki samþykkt með þeim hætti sem hún lá fyrir til 2. umr. hér á þingi. En hefði hún verið samþykkt á þessu þingi þá tel ég að þau málefni sem hér er um að ræða hefðu verið í uppnámi vegna þess að sá háttur sem þar átti að hafa á var nánast jafngildi þess að leggja Byggðastofnun niður og færa verkefni hennar undir forstjóra þessarar nýju stofnunar.

Það varð sem sagt ekki niðurstaðan og það væri efni í langa ræðu að fara yfir það mál hér. Ég ætla ekki að gera það. Ég ætla fyrst og fremst að fagna því sem hér hefur náðst. Ég tel að þau áhersluatriði sem nefndin var sammála um séu þau sem skipta landsbyggðina mestu máli. Auðvitað hefur það runnið upp fyrir mönnum á undanförnum árum að það skiptir gríðarlega miklu máli að menn hafi aðgang að menntun af fjölbreytilegasta tagi á landsbyggðinni. Og að þar séu skólar og möguleikar til menntunar til jafns við það sem er í þéttbýli og að gengið sé eins langt í því og mögulegt er.

Það hefur margoft verið rætt í vetur og komið fram hér í þinginu að á undanförnum árum hefur opinberum störfum fjölgað hér á höfuðborgarsvæðinu um 3.000, á síðastliðnum tíu árum. Þessi opinberu störf hafa nánast öll verið í þjónustu og í menntakerfinu. Það segir sína sögu um að landsbyggðin hefur setið eftir. Þess vegna vona ég sannarlega að sú byggðaáætlun sem nú verður samþykkt muni hafa áhrif á þetta.

Í þriðja lagi langar mig að nefna þá áherslu sem nefndin leggur á að Byggðastofnun verði gert kleift með framlögum á fjárlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðamála. Með þessari áherslu er í raun og veru verið að vinna gegn þeirri viðleitni sem virtist vera frá hendi framkvæmdarvaldsins að raða byggðamálunum niður á hin einstöku ráðuneyti og undir einstaka ráðherra og setja í ábyrgð þeirra. Þannig var í raun og eru verið að ýta byggðamálunum inn í þann feril að það væru fyrst og fremst tillögur ráðuneytanna og ráðherranna sem skiptu máli þegar kæmi að fjárlögum.

En með þeim hætti sem málið er sett hér fram er ábyrgðin færð meira til fjárlaganefndar. Fjárlaganefndarmenn þurfa að horfa á byggðaáætlun og gera sér grein fyrir hvort verið sé að framkvæma eftir henni eða ekki og bera ábyrgð á að þau framlög komi sem til þarf til að uppfylla hana. Ég tel að þetta sé afar mikilvægt atriði og tel að með þessum hluta tillögunnar sé í raun og veru svolítið brotið í blað.

Síðan vil ég fagna því sérstaklega eða nefna það sérstaklega, því ég tek undir allt sem hér er, að það skuli hafa verið sett þarna inn að Byggðastofnun skuli í samvinnu við Vegagerðina leggja mat á verkefni í samgöngumálum sem miðast við eflingu byggða og atvinnulífs í landinu. Ég held að þetta hefði þurft að gerast fyrir langa löngu, að Byggðastofnun færi í að meta samgöngumöguleika og annað slíkt og setja fram með skýrum hætti hvaða áhrif samgöngubætur geta haft fyrir eflingu og styrkingu einstakra byggða. Þess vegna fagna ég þessu alveg sérstaklega.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Við samfylkingarmenn styðjum þessa byggðaáætlun eins og hún er orðin núna, með þessari breytingartillögu á umfjöllun nefndarinnar og fögnum því að geta gert það og að það skuli hafa fjarað undan Nýsköpunarmiðstöðinni sem sett hafði vinnu nefndarinnar í uppnám. Við vorum löngu fyrr í vetur búin að ná raunverulega því samkomulagi sem hér liggur fyrir í iðnaðarnefnd. En það fór allt í drátt vegna þess að yfir okkur vofði að þessum málum væri skipað með þeim hætti sem gert var ráð fyrir með Nýsköpunarmiðstöðinni. Þar, eins og ég sagði áðan, var bókstaflega gert ráð fyrir að leggja niður Byggðastofnun og nánast að fela einum forstjóra að fara með það vald og þá ábyrgð sem Byggðastofnun hefur.

Ég held að það eigi eftir að koma í ljós að Byggðastofnun mun standa vel undir því hlutverki sem henni er hér lagt í hendur og þar muni menn virkilega fagna því að fá skýrara umboð til þess að framkvæma.

En ég endurtek að ábyrgðin er líka færð með fullum þunga til fjárlaganefndarmanna sem þurfa að sjá til þess að þessi byggðaáætlun geti orðið að því sem að er stefnt.