132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[11:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er býsna margt sem tekið er á í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir og mörg atriði sem þar eru dregin fram sem áhersluatriði eða málefni sem gætu fært hlutina til betri vegar í almennri þróun byggðar á Íslandi. Mig langar að fara aðeins yfir fáein atriði í þeirri áætlun sem liggur hér fyrir eftir yfirferð hv. iðnaðarnefndar.

Fyrst vil ég almennt segja um þessa áætlun sem og þær sem á undan hafa gengið að kannski er helsti gallinn við þær sá að hér er um að ræða almenna viljayfirlýsingu en ekki ákvarðanir Alþingis, sem gerir það að verkum að óvíst er um efndir eða fullnustu á þeim fyrirheitum sem gefin eru í texta ályktunarinnar. Reynslan af fyrri ályktunum er auðvitað misjöfn. Sumt hefur gengið ágætlega eftir en önnur atriði síður og enn önnur atriði engan veginn og virðast sýna að viljinn til að framkvæma það sem ályktað er um er ákaflega breytilegur og í sumum atriðum er hann hverfandi hjá framkvæmdarvaldinu. Mest er þetta áberandi varðandi fjölgun starfa í opinberri þjónustu á landsbyggðinni sem oft hefur verið ályktað um í byggðaáætlunum án þess að nokkuð hafi gengið í þeim efnum. Segja má að það væri kannski það jákvæðasta sem hægt væri að segja um reynsluna að hvorki hafi gengið né rekið því þá hefði verið kyrrstaða. En því miður virðist það hafa verið lakara en svo því landsbyggðin hefur dregist aftur úr höfuðborgarsvæðinu hvað varðar hlutdeild í þessum störfum.

Þó það sé auðvitað sjálfsagt að álykta um það einn ganginn enn, eins og lagt er til í breytingartillögum iðnaðarnefndar að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni þá efast ég um að viljinn sé til staðar hjá þeim sem eiga að framkvæma þessa ályktun. Það verða að koma fram einhver ný merki þess að hæstv. ráðherra hafi meiri áhuga á því en áður að hrinda í framkvæmd því sem þarna er ályktað um.

Í öðru lagi er galli á svona ályktun hvað hún hefur verið almenn, markmiðin verið óljós og erfitt að meta árangur. Þetta var m.a. gagnrýnt við fyrri umræðu um þessa ályktun. Ég hygg að það sem um það atriði var sagt í umræðunni eigi enn við, því ekki hefur það skýrst mikið í þessum efnum í meðförum iðnaðarnefndar og kannski var það of mikið verkefni til þess að búast mætti við að nefndin gæti breytt málinu þannig að það yrði skýrara hvað þetta varðar. En það er að minnsta kosti nauðsynlegt að leggja áherslu á að fyrir næstu áætlun leitist menn við að breyta henni þannig að markmiðin verði skýr, leiðirnar ljósar og mælitækin þekkt, þannig að menn geti lagt mat á þann árangur sem hefur náðst.

Auðvitað má svo segja að það hafi kannski ekki mikla þýðingu að vera að álykta um hluti eins og að unnið skuli samkvæmt öðrum ályktunum Alþingis, eins og samgönguályktun eða fjarskiptaáætlun. Það bætir engu nýju við. En það skaðar í sjálfu sér ekki og sýnir kannski að þingið vilji að staðið verði við þær áætlanir. Það er vonandi að það verði gert, sérstaklega hvað varðar samgönguáætlun, því við þekkjum af reynslunni að engin áætlun hefur verið eins viðkvæm fyrir skyndilegum breytingum eftir kosningar og samgönguáætlun.

Mér er enn þá í fersku minni hin metnaðarfulla samgönguáætlun sem samþykkt var fyrir kosningarnar 2003, í marsmánuði ef ég man rétt. En tekin, ég segi nú kannski ekki sett í tætlur, en skorin mjög mikið niður í maímánuði eftir kosningar. Það gengur auðvitað ekki að menn umgangist stefnumarkandi þingsályktanir þingsins þannig að þær séu bara viljayfirlýsing sem megi treysta fram að næstu kosningum. Við verðum að geta lagt línurnar í stórum málaflokkum, mótað stefnu sem stendur til nokkurra ára eins og ætlast er til. Ég vil hvetja hv. þingmenn til þess að vinna að því að þessar ályktanir, bæði byggðaáætlun og aðrar verði einmitt það sem til er ætlast.

Það sem fram kemur í ályktuninni er flestallt þess eðlis að hægt er að taka undir það og vonast til að það gangi eftir. Sumt er þó þess eðlis að ástæða er til að staldra við og spyrjast fyrir um hvernig það samrýmist öðru. Ég vil vekja athygli á því sem ég tel nauðsynlegt, þ.e. að fyrir liggi upplýsingar um stöðu byggðarlaga eins og getið er í 7. tölulið. En það er mjög sérstakt að það skuli þurfa að álykta um að hafa þessar upplýsingar tiltækar. Samkvæmt lögum um Byggðastofnun á Alþingi ekki að þurfa að álykta um þetta, þessar upplýsingar eiga auðvitað að vera til og stofnunin á að halda þeim saman. Aðrar opinberar stofnanir, eins og Hagstofa Íslands, eiga að sjálfsögðu að vinna að því að hafa þetta gagnasafn tilbúið fyrir stjórnendur til að hafa til undirbúnings sínum ákvörðunum eða mati á þróun mála. Það sýnir að þessi þáttur hefur ekki verið í góðu lagi að talið er nauðsynlegt að álykta um það á tveimur stöðum að draga fram tölulegar upplýsingar. Það er upp að vissu marki áfellisdómur yfir þeim sem hafa átt að framfylgja gildandi lögum um þetta efni. Er vonandi að menn taki sig nú á og dragi þessar upplýsingar saman.

Í viðbótartillögum nefndarinnar er í fyrsta lagi lagt til að bæta við málsgreinina þar sem ályktað er um að styrkja landshlutakjarnana Akureyri, Ísafjörð og Miðausturland orðunum: „og annarra mikilvægra atvinnuþjónustumiðstöðva á landsbyggðinni.“ Ég held að það sé út af fyrir sig rétt að menn dragi fram einhverja staði eða svæði og kalli þau miðstöð, reyni að gera það að miðstöð þjónustu og annars slíks. Það á ekki síst við hvað varðar hið opinbera og um leið sé reynt að byggja upp fjölbreyttari atvinnutækifæri en unnt er á fámennari stöðum landsins. En það mun aldrei verða nein sátt um stefnu í þessum efnum sem einungis tilgreinir þrjá staði eða þrjú svæði á landinu en hleypur yfir stór landsvæði að öðru leyti án þess að segja neitt um það hvaða stefnu stjórnvöld ætla að hafa þar. Ég skil það því svo að þessi viðbót sé komin inn til að bæta úr því. Stefna um uppbyggingu í atvinnumálum og opinberri þjónustu verður að vera almenn og hún verður að ná til allra svæða landsins. Ég held því að viðbótin sé til bóta og bæti úr þeim annmarka sem er á upphaflegri tillögu.

Í öðru lagi stingur í augu orðalagið í tillögunni um byggðaáætlun þar sem talað er um Akureyri, Ísafjörð og Miðausturland. Nefndir eru tveir staðir en síðan eitt landsvæði. Mér finnst þetta ekki ríma. Ef menn ætla þessum landshlutakjarna, sem kallaður er, að vera staður þá á svo að vera á öllum þremur stöðunum. Ef menn ætla landshlutakjarnanum að vera landsvæði þá á það svo að vera á öllum þremur svæðunum. Við getum ekki haft þá stefnu að Miðausturland, þar sem eru nokkur byggðarlög, sé eitthvert svæði sem við köllum landshlutakjarna en annars staðar á landinu sé eitt byggðarlag landshlutakjarni. Ég held að það verði að vera samræmi í þessu og ég hallast að því að hafa svæðið skilgreininguna til að leggja áherslu á að byggja upp á tilteknu svæði atvinnu og þjónustu sem sé tiltæk öllum þeim sem búa á svæðinu. Ég hefði því kosið að tala um Eyjafjörð og Vestfirði fremur en Akureyri og Ísafjörð.

Varðandi viðbótina, nýju málsgreinina sem nefndin leggur til. Þar er í fyrsta lagi nefnt að stórefla menntun á landsbyggðinni og það er alveg á sínum stað. Ég tel það hárrétta áherslu eins og reyndar kemur fram í ályktuninni sjálfri. Á allnokkrum stöðum er vísað til menntunar. Ég held að það sé allt satt og rétt. Í nefndaráliti iðnaðarnefndar er hins vegar talað um Háskólann á Akureyri einan. Ég dreg ekkert úr gildi Háskólans á Akureyri fyrir sitt svæði eða það sem um hann er sagt í nefndarálitinu. En ég spyr: Af hverju er ekki í þessu áliti talað um aðra háskóla á landsbyggðinni en Háskólann á Akureyri? Af hverju er ekki dregin fram þýðing háskólans á Hólum, háskólans á Bifröst eða háskólans á Hvanneyri? (JBjarn: Eða háskólans á Hólum?) Ég er búinn að nefna hann, hv. þingmaður. Af hverju er það ekki dregið fram? Af hverju er bara einn háskóli nefndur sem háskóli á landsbyggðinni? Felst í þessu af hálfu nefndarinnar að þeir háskólar aðrir sem ég nefndi eigi að víkja og falla undir aðra háskóla eða hvað felst í þessari takmörkuðu áherslu sem miðuð er við einn háskóla á landsbyggðinni?

Ég geri líka athugasemd við það sem segir um uppbyggingu háskólasetra. Ég er ekki hrifinn af uppbyggingu háskólasetra. Ég tel að það sé töf á leið til að byggja upp menntastofnanir. Sú leið kann að vera nauðsynleg og hún getur á einhverju stuttu árabili undirbyggt grundvöll fyrir háskóla þannig að gagn verði að háskólasetursleiðinni. En það gerist því aðeins að skýrt sé að að tilteknum tíma liðnum verði háskóli reistur á þeim stað. Það má ekki vera þannig að háskólasetur sé eitthvert endamark í sjálfu sér. Ef það er meiningin er háskólasetur hindrun á þróuninni fyrir viðkomandi landsvæði. Ég set spurningarmerki við að kalla háskólasetur menntastofnun. Ég spyr um rökstuðning fyrir því að kalla háskólasetur menntastofnun. Það má vera að fyrir því séu rök sem mér hefur ekki tekist að koma auga á. En það háskólasetur sem ég þekki er að mínu viti ekki menntastofnun þó þar sé ágætt starfsfólk og vinni ágætlega að því sem því er falið að gera. En setur þar sem ekki er stunduð kennsla eða starfsemi á háskólastigi finnst mér varla hægt að kalla menntastofnun, þar sem einvörðungu er byggt á framlagi annarra stofnana. Ég geri því athugasemdir við áhersluna á háskólasetur nema í því felist sú stefna að háskólasetur verði skóli innan skamms tíma. Stofnun menntastofnunar eða háskóla gæti ráðið miklu um þróun atvinnu- og byggðamála á landinu, gæti haft meiri áhrif en margt annað sem menn eru að gera. Ég nefni sérstaklega Ísafjörð. Fyrir rúmum tveimur árum lagði ég ásamt þremur öðrum hv. þingmönnum fram tillögur til þingsályktunar um stofnun háskóla á Ísafirði. Ég minni á hana og árétta þá skoðun mína að sem fyrst eigi að koma á fót háskóla á Ísafirði. Ég vona að það sé ekki meining iðnaðarnefndar með þessum kafla í nefndaráliti sínu um háskólasetur að leggja stein í götu þess að sem fyrst verði komið á fót háskóla á Ísafirði.

Ég vil líka spyrjast fyrir um og vekja athygli á stöðu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar á Akureyri sem talað er um í 8. tölulið byggðaáætlunarinnar og vísa til álits eða umsagna frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga þar sem spurst er fyrir um stöðu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar, hvort hún hafi það hlutverk að sinna og fjármagna þá verkefni á öllu landinu og hvert samband er á milli þessarar Nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri annars vegar og Byggðastofnunar hins vegar, hvor stofnunin eigi að gera hvað í þessum efnum. Það rímar ekki alveg saman að miða við uppbyggingu atvinnuþróunarfélaga á einstökum svæðum og sjóða þar, tala síðan um Byggðastofnun og svo loks um Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri. Ég held að menn þurfi að skýra stefnuna sem felst í þessu öllu samanlögðu.

Þá vek ég athygli á því sem fram kemur í breytingartillögu nefndarinnar um Byggðastofnun, að efla hana og gera henni kleift með fjárframlögum að sinna mikilvægum verkefnum á sviði byggðamála. Þetta er auðvitað allt önnur stefna en fram kemur í frumvarpi sem liggur fyrir þinginu um Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar er ólíku saman að jafna frumvarpi annars vegar og þingsályktun hins vegar. Þarna höfum við tvö þingmál sem vísa í tvær ólíkar áttir. Ég hlýt að spyrja: Hvort á að verða ofan á? (Gripið fram í: Ætlar ekki formaður nefndarinnar að svara?) Og við hljótum að kalla eftir skýringum á því hvað ætlast er til. Ja, frumvörp sem ekki eru útrædd eru yfirleitt endurflutt í upphafi næsta þings. Ég lít því svo á að þó ekki hafi unnist tími til að ljúka frumvarpi um Nýsköpunarmiðstöð Íslands þá muni það verða lagt fram aftur og þá er það í beinni mótsögn við það sem hér er lagt til frá iðnaðarnefnd um Byggðastofnun og það sem segir í nefndaráliti hennar um hlutverk Byggðastofnunar. (Gripið fram í: ... á miðstjórnarfundinum ... framsóknarmenn ...) Ég spyr hv. þingmenn um þetta, sérstaklega þá sem standa að þessu nefndaráliti. Menn verða að tala sæmilega skýrt þannig að ljóst sé hvað það er sem á að verða ofan á að lokum. Að öllu óbreyttu mundi ég telja að Nýsköpunarmiðstöðin yrði ofan á því það er frumvarp og stefna í lögum er það sem gildir en ekki ályktun, sem eins og ég gat um hefur verið misjafnlega framfylgt. (Gripið fram í.) Við skulum svo sem ekki ætla það, hv. þingmaður. Það liggur að minnsta kosti fyrir og menn þurfa að gera grein fyrir því. Ef þetta er það sem menn ætla sér þá er það ágætt. Mér líst betur á þessa tillögu en hina sem er í frumvarpinu um Nýsköpunarmiðstöð. Ég held að menn þurfi eftir sem áður að samræma stofnanaverkið og ég hef talað fyrir því að Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins verði keyrð saman og síðan verði byggð upp atvinnuþróunarfélög og einstakir atvinnuþróunarsjóðir á svæðunum. Stefnan þarf að liggja nokkuð klár í gegnum þingskjölin þannig að ljóst sé hvað verið er að samþykkja. Þá eru meiri líkur á því að menn nái árangri í því sem menn setja sér.

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, benda á tvennt: Í fyrsta lagi er talað um að Byggðastofnun verði falið að undirbúa gerð landshlutaáætlana í samvinnu við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög. Mig langar að spyrjast fyrir um það hvað felst í þessu. Ég mundi skilja þetta svo að í þessu fælist meðal annars að menn ræddu um Reykjavíkurflugvöll. Þá tækju menn fyrir mál sem vörðuðu landið allt annars vegar og Reykjavík hins vegar eða höfuðborgina. Dæmi um slíkt mál væri staðsetning á flugvelli þannig að það væri gott að fá nánari skýringar á því hvað á að taka fyrir undir þessum e-staflið.

Að lokum er í nefndarálitinu vísað til þess að miklir erfiðleikar hafi steðjað að ákveðnum landsvæðum og mikilvægt sé að auka opinber framlög til þeirra svæða sem hafa glímt við slíka erfiðleika á borð við hrun rækjuiðnaðarins og þar sem veiðiheimildir hafa horfið snögglega. Ég bendi á það sérstaklega að í áliti iðnaðarnefndar er vakin athygli á vanda sem skapast þegar veiðiheimildir fara snögglega frá einstökum byggðarlögum, að það þurfi að bregðast við því. Ég fagna því að nefndin bendir á þetta vegna þess að mér hefur fundist of mikil þögn ríkja um áhrifin af framsali kvótakerfisins og menn hafi um of ýtt því frá sér að bregðast þurfi við því. Það hefur að minnsta kosti ekki verið mikill þungi í viðbrögðum á norðvestanverðu landinu, skulum við segja, þar sem þetta hefur gerst á Vestfjörðum og við Húnaflóa svo dæmi séu nefnd. En það er fagnaðarefni ef menn sjá að við svo búið megi ekki standa og að bregðast þurfi við með opinberum fjárframlögum. Ég er út af fyrir sig alveg sammála því. Menn ná ekki árangri í atvinnumálum á neinu svæði landsins nema leggja því til fjármagn og mannafla. Það er það sem hefur verið gert eins og t.d. varðandi stóriðjustefnuna og uppbyggingu álvera. Það hefur skilað árangri vegna þess að stjórnvöld hafa lagt mikla peninga í að undirbúa þau mál, ekki endilega gegnum fjárlög heldur oft í gegnum stofnanir ríkisins og sveitarfélaganna, eins og Landsvirkjun, og ekki hvað síst með mannafla sem hefur þekkingu á viðkomandi málaflokki og aðgang að erlendum fyrirtækjum. Þannig hafa menn náð árangri og það segir okkur hvaða leið við eigum að fara annars staðar þó það þurfi ekki að vera á sömu sviðum atvinnumála. Í grundvallaratriðum er það fjármagnið og mannaflinn sem þarf að vera til staðar til að menn nái árangri og ég fagna því sem hv. iðnaðarnefnd bendir á að þetta sé í raun og veru leiðin sem menn eigi að fara til að bregðast við erfiðleikum sem steðja að ákveðnum landsvæðum, m.a. vegna tilflutnings á veiðiheimildum.