132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[13:42]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Í sveitarstjórnarkosningunum um síðustu helgi vann Sjálfstæðisflokkurinn marga góða sigra. (Gripið fram í.) Í mörgum sveitarfélögum fékk flokkurinn meira fylgi en hann hefur hlotið um áratuga skeið og í nokkrum tilvikum sjáum við besta árangur okkar nokkurn tímann. Og það er rétt að slakt gengi flokksins í nokkrum sveitarfélögum er í rauninni umhugsunarefni því að það er á við það sem Samfylkingin fékk í stærsta sveitarfélagi landsins, Reykjavík. Það er umhugsunarefni.

Ég vil einnig í þessu samhengi nefna Seltjarnarnes, Kópavog, Garðabæ og einnig Árborg og Reykjanesbæ. Ég get einnig nefnt að á Vesturlandi er Sjálfstæðisflokkurinn alls staðar í meiri hluta. Atlögu að meiri hlutanum á Ísafirði var hnekkt og hér í Reykjavík skín sólin sannarlega skært á ný eftir að tólf ára vinstri stjórn var loks komið frá með afgerandi hætti. Sjálfstæðisflokkurinn stendur því styrkum fótum að loknum þessum kosningum.

Myndun meiri hluta er nú lokið í flestum sveitarfélögum, umsvif sveitarfélaga hafa aukist verulega á síðustu árum með auknum verkefnum og ber þar hvað hæst yfirfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Færa má sterk rök fyrir því að æskilegt sé að flytja fleiri stór verkefni yfir til sveitarfélaga til að tryggja að ákvarðanir um þjónustu séu teknar af þeim sem séu í hvað mestri nánd við íbúana. Samhliða því verður sveitarstjórnarstigið hins vegar að axla aukna ábyrgð á því að opinber útgjöld vaxi ekki úr hófi fram.

Það eru engu að síður stór og mikilvæg verkefni fram undan sem verður að leysa með myndarlegum hætti. Ég tel að þar beri málefni eldri borgara hæst en þau eru sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga. Við verðum því að standa saman að því á næstu mánuðum að taka skref í átt að bættri aðstöðu og bættum kjörum aldraðra, það er eitt helsta forgangsverkefni stjórnmálanna í dag.

Hins vegar var slök kjörsókn um síðustu helgi umhugsunarefni fyrir okkur öll, kjörna fulltrúa á Alþingi og kjörna fulltrúa fólksins á sveitarstjórnarstiginu.

Á undaförnum mánuðum höfum við upplifað nokkurt umrót í efnahagsmálum þjóðarinnar. Margt hefur verið sagt og margt hefur komið fram. Stóra myndin og sú mikilvægasta er hins vegar sú að íslenskt efnahagslíf stendur á traustum grunni. Jú, jú, eitt af merkilegustu málunum var EES-samningurinn. En það er rétt að geta þess að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, greiddi ekki atkvæði með því mikla framfaramáli.

Flest bendir hins vegar til þess að við séum nú stödd í miðri mjúkri lendingu hagkerfisins eftir einstakt hagvaxtartímabil. Að sama skapi virðist ljóst að flugtakið fyrir næsta hagvaxtartímabil er skammt undan. Það eru mörg teikn á lofti um að svo sé. Þær fréttir sem hafa borist um jákvæðan tón í viðræðum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ um framhald kjarasamninga eru að sjálfsögðu fagnaðarefni. Aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt mikla ábyrgð síðastliðin ár og er það ein af forsendum þeirra framfara sem orðið hafa í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu axla þá ábyrgð sem henni ber í þessu samhengi.

Fyrr á þessu ári greindu bandarísk stjórnvöld frá því að þau hygðust kalla herafla sinn á Íslandi heim. Það hefur lengi legið fyrir að Bandaríkjamenn vildu draga verulega úr starfsemi sinni hér á landi. Höfðu íslensk og bandarísk stjórnvöld átt í viðræðum um framtíð varnarsamstarfsins um nokkurt skeið. Í þeim viðræðum hafa Íslendingar lagt á það þunga áherslu að hér verði að vera sýnilegar varnir. Flest bendir til að sú verði ekki lengur raunin.

Varnarsamningurinn frá 1951 ásamt aðildinni að NATO hefur verið hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu í hálfa öld. Við Íslendingar höfum alla tíð litið svo á að við yrðum að uppfylla okkar skyldur í samræmi við varnarsamninginn þó svo að oft og tíðum hafi varnarsamstarfið verið umdeilt og skipt þjóðinni upp í fylkingar.

Auðvitað gerum við okkur grein fyrir að tímarnir breytast og jafnframt að Bandaríkin hafa ekki sömu hagsmuna að gæta varðandi herlið sitt hér á landi og á árum áður. Það breytir hins vegar ekki því að varnarsamningurinn hefur frá upphafi byggt á gagnkvæmni og að tekið sé tillit til hagsmuna jafnt Íslendinga sem Bandaríkjamanna.

Íslensk og bandarísk stjórnvöld eiga nú í viðræðum um hver næstu skref eigi að vera. Þar hljótum við að meta okkar hagsmuni, ekki einungis í dag, heldur um ókomin ár. Það er ekki sjálfgefið að varnarsamstarfið á grundvelli varnarsamningsins haldi áfram eftir brottflutning varnarliðsins. Ef ekki liggja fyrir sannfærandi tryggingar af hálfu Bandaríkjamanna um að þeir muni virða skuldbindingar er vandséð hvaða tilgangi þjóni að halda í varnarsamninginn.

Frú forseti. Alþingi samþykkti í gær fjölmörg lagafrumvörp og mikilvæg. Sameining íslensku stofnananna í stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er merkileg og margvísleg sóknafæri opnast. Ég tel að það séu bjartir tímar fram undan varðandi rannsóknir og miðlun þekkingar á íslenskum fræðum og menningararfi. Íslensk tunga er og verður forsenda tilveru þjóðar okkar.

Með þeim breytingum sem nú hafa verið samþykktar á grunnskólalögunum er mikilvægi einkarekinna eða sjálfstætt rekinna grunnskóla í skólakerfinu loks viðurkennt. Sjálfstæðir skólar á borð við Ísaksskóla, Landakotsskóla og Barnaskóla Hjallastefnunnar eru mikilvægir valkostir fyrir nemendur og foreldra. Þeir fjölga hinum jöfnu tækifærum. En skólarnir hafa á köflum átt undir högg að sækja gagnvart sveitarfélögunum. Ekki síst hefur verið sárt að sjá hversu mikla vanþóknun R-listinn, sællar minningar, sýndi sjálfstæðum skólum í Reykjavík.

Ég tel að lög sem nú hafa verið samþykkt um háskólastigið eigi eftir að gegna mikilvægu hlutverki um þróun þess í framtíðinni. Með lögunum er íslenskum háskólum markaður starfsrammi er tekur mið af þeim breytingum sem orðið hafa á starfsemi háskólanna hér síðustu árin og þróun mála á alþjóðavettvangi. Á nokkrum árum hefur fjöldi þeirra sem stunda háskólanám á Íslandi tvöfaldast og nemendur sem eru að ljúka framhaldsskóla hafa aldrei staðið frammi fyrir jafnmörgum skemmtilegum og spennandi valkostum og nú.

Við verðum sömuleiðis að tryggja að nám við íslenska háskóla sé þannig úr garði gert að það sé ekki eingöngu fjölbreytt, heldur standist ströngustu alþjóðlegar kröfur og alþjóðlegan samanburð. Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins, nú laganna, er að móta ramma utan um það gæðaeftirlit sem nauðsynlegt er til að sú verði raunin. Íslenskir háskólar setja markið hátt og ber þar hæst það yfirlýsta markmið rektors Háskóla Íslands að háskólinn verði einn af fremstu háskólum veraldar. Þessar áherslur og breytingar falla ágætlega að framtíðarsýn Vísinda- og tækniráðs sem fundaði nú í vikunni. Í nýrri stefnu ráðsins er Ísland samfélag í fremstu röð. Byggt á mannauði og menningu í þágu mannlífs er einkennist af lífsgæðum, sterkri siðferðisvitund og öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi.

Lagt er til að fjármunum verði varið til menntunar, vísindarannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar með það fyrir augum að þeir fjármunir skili sér í félagslegum og efnahagslegum ávinningi. Það er sýn sem á að gilda í heild fyrir íslenskt samfélag en ekki bara úrvalsfólk. Það er mikil ögrun fyrir okkur að samræma kröfuna um að skara fram úr, kröfuna um að allir eigi sama rétt og verði með í kapphlaupi á heimsvísu. En við höfum sýnt fram á að við getum þetta. Ef ekki á öllum sviðum, þá á nægilega mörgum til að sýna fram á að allt er mögulegt.

Ef við erum meðal fremstu fimm til tíu landa í framlögum til menntamála, rannsókna og þróunar, því skyldi það ekki skila sér í frammistöðu skólanna, vísindaafrekum og framlagi til tækniþróunar og viðskiptanýjunga sem mælanleg eru á alþjóðlegan mælikvarða?

Lykill að árangri er sýn til framtíðar. Lykill að árangri er dugmikið vel menntað fólks sem metur og hagnýtir möguleikana sem gefast við hraðfara tæknilegar, þjóðfélagslegar og markaðslegar breytingar. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að skapa skilyrði í þjóðfélaginu til að slíkt fólk fái notið sín. Við eigum að skapa svigrúm og möguleikana á að fjölga tækifærum. Við eigum hins vegar ekki að velja tækifærin fyrir fram.

Sú merka kona Eleanor Roosevelt sagði eitt sinn: Framtíðin tilheyrir þeim sem trúir á fegurð drauma sinna. Við Íslendingar erum lánsöm þjóð, því vegna þolinmæði og þrautseigju, baráttu og trúarinnar á bjarta framtíð okkar samfélags hafa margir fagrir draumar ræst. Það er flest sem bendir til þess að framtíðin haldi áfram að tilheyra okkur Íslendingum. — Góðar stundir.