132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[13:52]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Það er vonandi engin hætta á öðru en að framtíðin komi áfram til með að tilheyra okkur Íslendingum. Spurningin er meira um hvernig hún verður.

Kosningabaráttan í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum var um margt áhugaverð. Hún var m.a. áhugaverð vegna þess að hún var á köflum pólitískari en oft hefur verið í undangengnum kosningum. Félagslegar áherslur komust verulega á dagskrá. Baráttumál eins og gjaldfrjáls leikskóli og málefni aldraðra voru fyrirferðarmikil í umræðunni. Svo mjög bar á þessu að jafnvel helbláir íhaldsflokkar drógu á sig bleika kápu, svo maður tali nú ekki um miðjusinnaðir afturhaldsflokkar, sem ég vil nú biðja formann Samfylkingarinnar þess lengstra orða að að kenna ekki við græna litinn, þ.e. Framsókn. Það er nú þannig í alþjóðlegri stjórnmálaumræðu að græni liturinn tilheyrir umhverfismálunum. Ég vona að formaður Samfylkingarinnar viti að ekkert er nú fjær öllu sem snýr að umhverfisvernd og umhverfismálum í vestrænum stjórnmálum en einmitt Framsóknarflokkurinn íslenski eða leifarnar af honum.

Stjórnarflokkarnir reyndu að breiða yfir nafn og númer eða bregða yfir sig geðþekkari áru til að fjarlægja sig stjórnarstefnunni en kom fyrir ekki. Stjórnarstefnan fékk verulega aðvörun síðastliðinn laugardag. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vann góðan sigur. Við eigum nú nokkra tugi sveitarstjórnarmanna í landinu og þar af 14 í ellefu sveitarfélögum þar sem við buðum fram okkar eigin lista. Við erum þriðja stærsta stjórnmálaaflið á sveitarstjórnarstigi með rétt tæp 13% atkvæða. Við tvöfölduðum víða og upp í rúmlega fjórfölduðum fylgi okkar í síðustu kosningum. Við eigum til að mynda sex borgar- og bæjarstjórnarfulltrúa í fjórum stærstu sveitarfélögum landsins.

Góð útkoma okkar var líka klárlega til marks um pólitíska sveiflu í landinu. Hún er stuðningur við róttæka félagshyggju, velferðarstefnu og umhverfisvernd. Um leið er hún aðvörun fyrir þá flokka sem ganga fram undir öndverðum formerkjum. Útkoma okkar var verðskulduð og ég er stoltur af málflutningi okkar og uppbyggilegri kosningabaráttu. Fátt er dapurlegra eða á ég ekki að segja brjóstumkennanlegra en að sjá á prenti stjórnmálamenn eins og Hjálmar Árnason hella úr skálum vonbrigða sinna og svekkelsis út af slakri útkomu Framsóknarflokksins yfir aðra flokka. Gæti nú ekki verið að þjóðin hafi verið að refsa Framsóknarflokknum, ekki vegna þess að aðrir flokkar séu góðir heldur vegna þess að eitthvað sé að í Framsóknarflokknum, vegna þess að þjóðinni líki ekki stefna og störf Framsóknarflokksins? Hvernig væri nú fyrir þá sem fóru illa út úr þessum kosningum, og það á að hluta til við fleiri en Framsókn, að þeir líti stundarkorn í eigin barm og reyni ekki að finna skýringar með því að skammast og ónotast út í aðra.

Þessar kosningar voru sterk krafa um breyttar áherslur í íslensku samfélagi. Það var t.d. ánægjulegt að sjá að Framsóknarflokknum tókst ekki núna, sem honum hefur stundum tekist áður, að selja sig með dyggri hjálp markaðsmanna og miklum fjáraustri sem eitthvað annað fyrirbæri en hann í raun og veru er í þessum kosningum. Kjósendur í Reykjavík eiga heiður skilinn fyrir að sjá að undir sauðargærunni, sem var merkt exbé, var gamla Framsókn sem er núna minnsti flokkurinn í Reykjavík og marði inn mann á utankjörstaðaatkvæðum sem verður síðan rannsakað hvernig voru fengin.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk líka mjög blendna útkomu. Þar sem hann bjargaði sér þá gerði hann það m.a. með því að þykjast standa fyrir allt aðra hluti í velferðarmálum en hann í raun og veru gerir. Hvar hefur hin nýtilkomna umhyggja Sjálfstæðisflokksins fyrir öldruðum verið síðastliðin 15 ár? Hvar eru breytingar fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins á málefnum aldraðra sem eru í einhverjum takti við þá miklu umhyggju sem þeir núna síðustu vikurnar fyrir sveitarstjórnarkosningar þóttust bera fyrir þeim hópi?

Nei, það er nefnilega þessi sami Sjálfstæðisflokkur sem hefur skert skattleysismörkin og hefur búið lágtekjuhópum samfélagsins þau kjör sem raun ber vitni. Það er sami Sjálfstæðisflokkurinn sem ber ábyrgð á skerðingarmörkunum í almannatryggingakerfinu, á tekjutengingunum og öllu því kvabbi sem markar öldruðum og öryrkjum og fleiri hópum í samfélaginu þau óviðunandi kjör sem þeir búa við í dag, með dyggri hjálp meðreiðarsveinanna að vísu. Fyrst voru það kratarnir sem voru með þeim í tekjutengingunum í ríkisstjórninni 1991–1995 og síðan Framsóknarflokkurinn eftir það.

Efnahagsmálin voru auðvitað einnig undirliggjandi í þessari baráttu. Það er enginn vafi á að almenningur er uggandi um hag sinn í þeim efnum. Það er alveg sama hvað forsætisráðherra og aðrir talsmenn ríkisstjórnarinnar reyna að guma af góðærinu, kannanir sýna m.a. núna að væntingar þjóðarinnar eru minni um góða tíma fram undan en þær hafa verið um langt árabil. Það er vegna þess að almenningur er fyllilega læs og dómbær í þessum efnum. Menn sjá að verðbólgan er komin á fulla ferð. Menn sjá að gengið hefur hrunið og menn sjá að kaupmátturinn mun skerðast á komandi mánuðum ef ekki tekst að ná tökum á ástandinu. Þess vegna verður ríkisstjórnin að fara að vakna af dvalanum. Allir aðrir hafa áhyggjur af ástandinu. Allir aðrir eru þó a.m.k. að reyna eitthvað eða leggja eitthvað til, Seðlabankinn, aðilar vinnumarkaðarins. Það er aðeins ríkisstjórnin ein sem er áfram á aðgerðarleysis- og afneitunarstiginu og talar um góðæri.

Framsóknarmenn auglýstu meira að segja í sveitarstjórnarkosningunum hvað það væru eftirsóknarverðar horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hvernig ætli slíkar auglýsingar hafi farið í láglaunafólkið á umönnunarstofnunum? Ég heimsótti margar slíkar stofnanir og ég spurði fólk gjarnan að því hvort það hefði rekist á góðærið og bað það að láta mig vita eða tilkynna ríkisstjórninni ef það hefði rekist á góðærið hér vestur á Grund eða á öðrum sambærilegum stofnunum. Menn höfðu bara ekkert orðið varir við það. Það er nefnilega þannig, herrar mínir og frúr í ríkisstjórninni, að góðærið hefur gert stuttan stans víða og farið algerlega hjá garði hjá þúsundum og aftur þúsundum landsmanna. Nú er sagt við þetta fólk að erfiðari tímar séu fram undan og þá er staðan slík að fólk er að flýja úr láglaunastörfunum. Það er ekki hægt að reka umönnunarstofnanirnar og við erum í bullandi erfiðleikum með þessi mál.

Ríkisstjórnin er búin að vera. Hún hefur löngu gefist upp. Hún hefur afneitað vandanum um margra missira skeið sem hefur blasað við hverjum manni. Það af leiðandi er það ábyrgðarleysi af þessari útbrunnu ríkisstjórn að sitja áfram ofan á höndunum á sér og hafast ekki að. Ríkisstjórnin á aðeins tvo kosti. Það er að reyna að vera aftur ríkisstjórn eða segja af sér. Það er hreint ábyrgðarleysi ef menn ætla inn í kosningaveturinn með þetta laskaða fley eins og nú horfir. Kosningar í haust, ef ekki strax, eru það sem þjóðin þarf.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun leggja sitt af mörkum í því að koma þessari ríkisstjórn frá og mynda velferðarstjórn í landinu. Vonandi nýtast okkur mánuðirnir sem fram undan eru til þess að það verði að veruleika ekki síðar en í haust en í allra síðasta lagi í maímánuði næstkomandi.

Ég óska landsmönnum góðs og gleðilegs sumars og vona að menn njóti þess þrátt fyrir áhyggjur og ónýta ríkisstjórn. — Lifið heil.