132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[14:01]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Þvílíkt svartnætti og þvílíkt raus, segi ég nú eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna. En vissulega má óska honum til hamingju með það að hafa fengið allgóða útkomu út úr sveitarstjórnarkosningunum og geri ég það hér með. Það er hins vegar athyglisvert að það virðist ekkert vera hægt að nota þetta ágæta fólk sem kosið var inn í sveitarstjórnir af hálfu þjóðarinnar því að það er einungis í einu sveitarfélagi sem vinstri grænir ætla að taka þátt í meirihlutasamstarfi. (Gripið fram í.) Auðvitað hræða sporin því að þannig var það á síðasta kjörtímabili að þar tóku vinstri grænir þátt í einum meiri hluta á landinu, í Skagafirði, og töpuðu helmingi fylgisins núna í kosningunum. Þetta er nú reynslan af vinstri grænum í sveitarstjórnum. (Gripið fram í.)

Góðir Íslendingar. Enn á ný er komið að lokadegi í þingstörfum Alþingis og mörg mikilvæg mál hafa verið afgreidd sem eiga það sameiginlegt að bæta stöðu þjóðarinnar og auka lífsgæði. Ísland skorar hátt þegar borið er saman við aðrar þjóðir og við eigum að sjálfsögðu að vera stolt af því. Mín reynsla er sú að ríkisstjórn þurfi ávallt að vera á varðbergi til þess að Ísland haldist í fremstu röð.

Fyrir þremur árum voru samþykkt lög á Alþingi um Vísinda- og tækniráð. Nú má segja að nokkur reynsla sé komin á þá starfsemi. Í ráðinu eiga sæti auk ráðherra fulltrúar vísindasamfélagsins, tæknirannsókna og atvinnulífs. Þessi nýskipan er að finnskri fyrirmynd og hefur heppnast afar vel. Það er ekki að undra þar sem Finnar hafa náð hvað lengst allra þjóða í nýsköpun atvinnulífs og uppbyggingu þekkingargreina. Með þessari nýskipan er komið á nýrri hugsun, vísindin eru ekki bara til vísindanna vegna heldur á þekking að leiða til sköpunar nýrra og verðmætra starfa.

Samkeppnissjóðir hafa verið efldir í tengslum við þessar breytingar um hundruð milljóna. Samþætting verkefna og starfsemi ráðuneyta hefur aukist þar sem stefnumótun í vísinda- og tæknimálum er samræmd. Einn liður í þeirri breytingu sem ríkisstjórnin stefndi að með stjórnarsáttmála sínum árið 1999 var að færa Byggðastofnun undir iðnaðarráðuneytið. Á þeim árum sem liðin eru síðan hefur mjög margt færst til betri vegar á landsbyggðinni þótt vissulega sé um að ræða þungt atvinnuástand á einstaka stað.

Í áðurnefndum stjórnarsáttmála segir, með leyfi forseta:

„Stuðningur við atvinnuþróun á landsbyggðinni verði felldur að öðru nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfi stjórnvalda.“ — og enn fremur: „Að [unnið verði] að því að framsækin atvinnuþróunarstefna geti byggt á frjóu rannsóknar- og nýsköpunarumhverfi. Til að það nái að dafna verði opinber þjónusta við atvinnulífið samræmd.“

Með framlagningu frumvarps um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, sem sagt Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem hefur verið til umfjöllunar hér á Alþingi í vetur, eru þessi ákvæði færð í lagabúning. Auk þess flutti forsætisráðherra frumvarp um breytingu á lögum um Vísinda- og tækniráð sem felur í sér að þar verði einnig mótuð stefna um nýsköpun og að atvinnulífið fái aukið vægi í ráðinu.

Góðir áheyrendur. Mikil umræða hefur farið fram um stöðu íslensks efnahagslífs og um stöðu bankanna á undanförnum mánuðum. Mikill kraftur og útrás hafa einkennt fjármálafyrirtækin. Þetta er kraftur sem leystist úr læðingi við sölu ríkisbankanna enda heldur enginn því fram lengur að það hafi verið röng ákvörðun af hálfu ríkisstjórnarinnar að selja. Í síðasta mánuði gerði Fjármálaeftirlitið álagspróf hjá viðskiptabönkunum og stærstu sparisjóðum. Þær forsendur sem eftirlitið gaf sér voru þær að samtímis mundi dynja á fjármálafyrirtækjum 20% verðrýrnun vanskilalána, 1,8–2% verðrýrnun lána til einstaklinga, 0,2% rýrnun fasteignatryggðra lána, 25% verðrýrnun erlendra hlutabréfa í eign bankanna, 35% verðrýrnun á innlendum hlutabréfum, 7% verðrýrnun skuldabréfa og 20% gengislækkun krónunnar.

Það er ánægjulegt að geta greint frá því hér á Alþingi að þrátt fyrir að allt þetta mundi dynja yfir samtímis, sem annars er mjög ólíklegt að geti gerst, mundi eiginfjárstaða viðkomandi fjármálafyrirtækja engu að síður vera ofan þeirra marka sem reglur kveða á um, þ.e. 8% mörkin.

Það var einnig uppörvandi að sjá sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komast að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að efnahagshorfur væru áfram öfundsverðar hér á landi. Þó var bent á ýmislegt sem betur mætti fara eins og ávallt er, en það er engin ástæða til að draga dul á að í örsmáu hagkerfi er ástandið hvikult og báturinn óstöðugur í ólgusjó. Það skiptir því miklu máli að í landinu ríki stöðugleiki í stjórnmálum og ábyrg stjórn efnahagsmála. Í því sambandi skiptir miklu að aðilar vinnumarkaðar nái saman og eyði þeirri óvissu sem kjarasamningar eru nú komnir í. Ég hef fulla trú á að aðilar vinnumarkaðarins nái saman og trúi því að þeim takist í samvinnu við ríkisvaldið að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum sem fyrst. Ekkert skiptir fólkið í landinu meira máli.

Ég óska öllum landsmönnum farsæls sumars.