132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[14:11]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Mér reiknast svo til að ég sé sjötti ræðumaðurinn hér í röðinni og mig langar því til að nota tækifærið hér í upphafi til að leggja örlítið út af ræðum fyrri ræðumanna. Tveir ræðumenn að minnsta kosti hafa komið aðeins inn á niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna sem haldnar voru fyrir réttri viku síðan. Ég hlýt að minna þar á árangur míns flokks, Frjálslynda flokksins, en ég hygg að það sé öllum ljóst að niðurstöður þessara kosninga hafi sýnt að flokkurinn hafi náð að festa sig verulega í sessi. Við buðum fram í sjö sveitarstjórnum hér á landi og náðum inn fulltrúum í fjórum þeirra. Við náðum tæplega 10% fylgi sé reiknað út frá þessu. Enn eina ferðina sýndum við og sönnuðum að það er lítið að marka skoðanakannanir, bæði skoðanakannanir sem eru gerðar löngu fyrir kosningar en líka skoðanakannanir sem eru gerðar í aðdraganda kosninga. Ég hygg að þessar niðurstöður sýni að málflutningur okkar í Frjálslynda flokknum, rödd okkar í Frjálslynda flokknum, nær til stöðugt fleiri landsmanna.

Ég hef ekki verið lengi í pólitík. Ég hóf afskipti mín af pólitík fyrir rétt rúmum þremur árum. En á þeim tíma hef ég lært þá lexíu að það að byggja upp stjórnmálaflokk, að byggja upp starfsemi stjórnmálaflokks, er þrotlaus vinna. Það er þrotlaus vinna sem tekur mörg ár. Stór partur af þeirri vinnu er að leiða flokkinn í gegnum kosningar því að í kosningum lærir fólkið sem starfar með flokknum, þá lærir það að vinna, þá þjálfast það í pólitískum vinnubrögðum og með kosningum er hægt að efla enn frekar innviði flokksins. Þetta hefur okkur núna tekist í Frjálslynda flokknum. Kosningarnar núna voru á vissan hátt ögurstund fyrir þennan flokk, kosningarnar núna sýna það og sanna að þessi flokkur er kominn til að vera. Um það ætti enginn að efast, ekki andstæðingar okkar sem sitja hér í þessum sal, heldur ekki þeir landsmenn sem nú fylgjast með.

Virðulegi forseti. Mig langar til að nota tækifærið hér til að minnast þess að nú um stundir eru liðin 30 ár frá því að við Íslendingar unnum fullan sigur í landhelgisdeilunni eftir margra, margra ára baráttu. Þá færðum við fiskveiðilögsöguna okkar út í 200 sjómílur. Mér finnst það verðugt að við minnumst þessa núna. Við megum aldrei sofna á verðinum þegar fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar er annars vegar. Við stóðum þá sem einn maður að útfærslu landhelginnar til að tryggja yfirráð okkar yfir fiskveiðiauðlindinni í hafinu umhverfis landið.

Það hryggir okkur í Frjálslynda flokknum að við þessi tímamót skuli þau tíðindi berast úr búðum ríkisstjórnarinnar frá hæstv. forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni sjálfum að hann vilji nú opna fyrir sölu á fiskveiðiauðlindinni til erlendra aðila. Þá hlýtur maður að spyrja: Til hvers var barist? Til hvers var barist þegar við sjáum líka á sama tíma að hér er, frá því að þessir atburðir gerðust fyrir 30 árum, búið að koma á nýrri stétt leiguliða sem þurfa að greiða meira en 2/3 af þeim afla sem þeir strita til að ná í, fyrir það eitt að fá að nýta þessa sameiginlegu auðlind landsmanna? Ég held að engin af þeim hetjum sem tóku þátt í baráttunni fyrir 30 árum og rúmlega það hafi gert sér í hugarlund að þeir væru með baráttu sinni í raun og veru að leggja grunninn að því að örfáir gætu selt auðlind þjóðarinnar og það meira að segja úr landi, og selt það með þeim hætti að sjávarbyggðirnar, sem við héldum að við værum að berjast fyrir og forfeður okkar höfðu byggt upp af elju og dugnaði, mundu tapa réttinum til þess að nýta sína mikilvægustu auðlind.

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Mig langaði til þess að benda á þessa staðreynd hér við þetta tækifæri. Við í Frjálslynda flokknum munum að sjálfsögðu halda áfram að halda á lofti merkinu í þessu máli sem og öðrum, ekki bara sjávarútvegsmálum heldur líka byggðamálum, atvinnumálum, samgöngumálum, heilbrigðismálum, málefnum aldraðra og öryrkja og annarra sem eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu.

Ég vil nota síðustu orð mín til þess að óska landsmönnum öllum gleðilegs sumars.