132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[14:23]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Er það tilviljun eða er það einhver táknræn hugsun hjá stjórnarflokkunum að tefla fram í fyrri umræðu þeim ráðherrum sínum sem helst fóru halloka hér í þinglokin, annars vegar iðnaðarráðherranum og hins vegar menntamálaráðherranum, sem urðu undir í átökunum innan ríkisstjórnarinnar og auðvitað í átökunum á þinginu þegar ákveðið var að slíta því nú og skilja eftir ríkisútvarpsmálið frá Sjálfstæðisflokknum og Nýsköpunarmiðstöðina frá Framsóknarflokknum? Er þetta sárabót eða er það svona sem ríkisstjórnin vill kynna sig, með því að tefla fram töpurunum? Er það vegna þess að herrarnir sjálfir, hæstv. ráðherrar Geir H. Haarde og Halldór Ásgrímsson, hafa of mikið að gera í skúmaskotunum til að geta talað við þjóðina úr þessum stóli á hefðbundnum eldhúsdegi?

Svo er auðvitað að fara yfir það sem þessir tveir ráðherrar hafa sagt. Iðnaðarráðherrann, með byggðastefnu sína í þroti, talar um efnahagsmálin og minnist á að hér sé allt í góðu gengi, Alþýðusambandið og Samtök atvinnurekenda séu að tala saman og það sé að koma sendinefnd, það sé bráðum að koma sendinefnd frá útlöndum til að kanna efnahagsmálin hér. Hún talar að vísu ekkert um verðbólgu eða gengismál, sem er þó ofarlega í hugum alþýðu manna sem nú 1. júní og áður 1. maí þurfti að jafnaði að borga hærri afborgun en áður þar sem höfuðstóllinn hækkaði eins og var hér á verðbólgutímanum. Það var ekkert rætt um þetta.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson, sem kom hér trítlandi í kjölfar ráðherra síns, fór að tala um skatta sama daginn og við ræddum um ráðþrot ríkisstjórnarinnar í sambandi við vaxtabætur til unga fólksins sem er að koma yfir sig þakinu við meiri erfiðleika en áður hafa verið uppi síðan í hallærinu mikla í byrjun níunda áratugarins.

Hinn ráðherrann, menntamálaráðherrann, gumar af nokkrum frumvörpum sem ýmist eru þannig að góðir menn hafa samið þau fyrir hana í útlöndum eða á faglegum vettvangi eða hafa verið endursamin í þinginu í þágu þeirra málefna sem þau stóðu um. En hvað minnist hún ekki á? Hún talar ekkert um áform sín og fyrri menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að stytta og skerða nám ungs fólks til framhaldsskólaprófs. Hún talaði ekkert um frumvarpið um Ríkisútvarpið sem hún hefur lagt fram í tvígang, eytt tveimur vetrum í að ræða og sett auðvitað allt upp í loft á stofnuninni þar sem enginn veit hvað á að taka við.

Við þurfum sannarlega að koma þessari ríkisstjórn frá ef hún gerir það ekki sjálf, sem mér sýnist ýmislegt benda til jafnvel á næstu vikum. Við þurfum að skapa hér nýtt samfélag, við þurfum að skapa önnur viðmið, við þurfum að skapa samfélag jafnaðarmanna þar sem menn ætla að halda áfram til nútímans, til framtíðarinnar í efnahagsmálum, þar sem menn ætla að búa til hágæði og hátækni í hugmyndum og handverki í hefðbundnu atvinnugreinunum, líka í nýja hagkerfinu og líka í menningargreinunum, þar sem menntun, menntun, menntun eru þrjú helstu slagorðin í atvinnumálum. Við þurfum að skapa hér samfélag í sátt við náttúru og umhverfi, samfélag sem berst gegn loftslagsbreytingum um leið og það lagar sig að nýjum tímum, sem nýtir íslensk náttúrugæði án eyðileggingar og leggur niður þann hernað gegn landinu sem hér hefur staðið í 30 ár. Við þurfum að skapa samfélag þar sem allir eru með, þar sem menn bera ábyrgð á sjálfum sér en einnig hver á öðrum og þar sem við eyðum smánarblettum fátæktar á Íslandi í því góðæri sem staðið hefur, ekki vegna stjórnarherranna heldur vegna skynsamlegra ráðstafana sem hér höfðu gerst áður og vegna alþjóðaþróunar í rúman áratug.

Forseti. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur sagði fyrir nokkrum árum að það væri furðulegt í íslensku samfélagi að það væri sama hvað maður kysi, alltaf gægðist Finnur Ingólfsson upp úr kjörkassanum. Það eru margir Finnar Ingólfssynir, forseti, sem nú eru á sveimi í sveitarfélögum landsins. En ég hafði ekki trú á þessu, ég hafði alltaf tekið þetta sem líkingu, ég hafði ekki trú á því að hann mundi birtast sjálfur persónulega sem sú kanína sem Framsóknarflokkurinn dregur núna upp úr hatti sínum. Ég verð að segja, þó að Finnur Ingólfsson sé góður maður, að það er komið nóg af milljónungum Framsóknarflokksins úr viðskiptalífinu og ég verð að taka undir með öðru skáldi: „Húsameistari ríkisins! Ekki meir, ekki meir!“