132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[14:28]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Á undanförnum árum hefur átt sér stað öflugt uppbyggingarstarf í efnahagslífinu. Nýjar hugmyndir á eldri grunni hafa skilað landsmönnum nægri atvinnu og ört vaxandi kaupmætti. Því miður fylgir góðæri oft ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þrátt fyrir aðhaldssama efnahagsstjórn undanfarin ár, bæði hjá ríki og Seðlabanka, urðu nýjungar á fjármálamarkaði til þess að auka við þá eftirspurn sem fylgdi stóriðjuframkvæmdum.

Í upphafi árs reyndist ójafnvægið vera meira en fyrri hagmælingar höfðu bent til og í kjölfarið urðu sviptingar á fjármálamarkaði. Gengi krónunnar og verð hlutabréfa lækkaði umtalsvert. Sem betur fer bendir flest til að jafnvægi muni fljótlega komast á að nýju. Það er jafnframt eitt helsta verkefni okkar að sjá til þess að svo verði. Á undanförnum vikum hefur gengið og verð hlutabréfa tekið að styrkjast á ný sem er jákvætt. Jafnframt er samkeppnisstaða útflutningsgreina aftur orðin ásættanleg. En hröð gengislækkun framkallar verðbólguskot. Ef gengið helst tiltölulega stöðugt þar sem það er nú bendir fyrri reynsla til þess að verðbólga gangi hratt niður. Hversu mikil verðbólgan verður á komandi mánuðum ræðst af framvindu gengisins og viðbrögðum okkar. Reynsla okkar af lækkun á gengi krónunnar árin 2000 og 2001 var sú að verðbólgan jókst hratt með hækkun á verði innfluttrar vöru og þjónustu. Verðbólgan gekk síðan niður án þess að hafa varanleg áhrif á væntingar markaðsaðila. Aðilar vinnumarkaðarins brugðust við af skynsemi og stöðugleikinn var endurheimtur. Mikilvægt er að við tryggum að sú verði raunin á ný.

Árið 2007 þegar yfirstandandi stóriðjuframkvæmdum lýkur er gert ráð fyrir samdrætti í þjóðarútgjöldum en að kröftugur viðsnúningur í utanríkisviðskiptum skili okkar hagvexti á bilinu 1–2%. Atvinnuleysið, sem nú er orðið mjög lítið, mun þá aukast eitthvað og spenna minnka og hagkerfið taka að leita meira jafnvægis en áður en það gerist mun verðbólgan aukast og haldast há fram yfir næstu áramót.

Á vormánuðum ársins 2007 er búist við að verðbólgan verði aftur komin undir efri þolmörk peningastefnunnar og í framhaldinu stefna á verðbólgumarkmið. Sú spá byggir á að aðilar vinnumarkaðarins taki höndum saman um að bregðast við þessum tímabundnu aðstæðum með hófstilltum aðgerðum. Þær viðræður sem nú standa yfir milli aðila vinnumarkaðarins eru mikilvægt framlag í þessa átt. Mikilvægt er að niðurstaða náist fljótt í þeim viðræðum en það eykur líkur á að árangur undanfarinna ára viðhaldist og að kaupmáttur landsmanna haldi áfram að aukast á komandi árum. Ekki er ráðlegt að bíða með lausn þessa máls fram í nóvember þegar ákvæði núverandi kjarasamninga eiga að koma til endurskoðunar. Það eykur óvissu og dregur úr líkum á mjúkri lendingu efnahagslífsins.

Virðulegi forseti. Mikil umræða hefur verið um kjör eldri borgara að undanförnu og margt af því sem þar hefur verið sett fram hefur verið villandi og í sumum tilfellum hreinir útúrsnúningar. Kjör eldri borgara hafa batnað ef litið er til þess að kaupmáttur þeirra hefur aukist á undanförnum árum. Engu að síður hefur þessi ríkisstjórn sagt að hún vilji gera enn betur og hefur nefnd verið að störfum við að útfæra tillögur í þá veru. Von er á að þær tillögur líti dagsins ljós á næstunni og í því samhengi hef ég sagt að nauðsynlegt sé að draga úr tengjutengingu bóta ellilífeyrisþega.

Þá vil ég nefna að verið er að endurskoða skattkerfið á Íslandi. Markmiðið er að varpa ljósi á þá þætti sem gera Ísland samkeppnisfært og skilvirkt. Um leið er verið að skoða skattkerfi annarra ríkja sem hafa verið að einfalda kerfi sín og innleiða nýjungar sem hafa gefist vel. Ég hef lagt sérstaka áherslu á endurskoðun á fyrirkomulagi tekjuskatts einstaklinga og fyrirtækja en að aðrir þættir skattkerfisins verði einnig skoðaðir til að varpa betur ljósi á heildarmyndina. Fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og viðskiptalífsins taka fullan þátt í þessari vinnu.

Íslenska hagkerfið er orðið hluti af alþjóðlegu efnahagslífi með öllum þeim tækifærum og áskorunum sem því fylgja. Í alþjóðlegum skýrslum er íslenska hagkerfið talið með þeim samkeppnishæfustu í heiminum vegna mannauðs, tæknistigs og skipulagsmála. Fyrirtækin sem búa við sveigjanleg starfsskilyrði eru ábatasöm og vel í stakk búin til að takast á við breytilegar aðstæður. Þá er staða ríkissjóðs sterk og eignir heimilanna eru margfalt meiri en skuldir þeirra. Því er lítil hætta talin á að sá árangur sem náðst hefur á undanförnum árum stöðvist eða gangi til baka en mikið veltur á því að við bregðumst við af skynsemi í núverandi stöðu. Í því alþjóðlega umhverfi sem við störfum er mikilvægt að viðhalda trú erlendra aðila á efnahagsþróuninni. Ég er bjartsýnn á að okkur takist það.

Þar sem efnahagslífið er blómlegt eru mörg úrlausnarefni. Ríkisstjórnin axlar sína ábyrgð með því að taka þátt í að leysa úr þeim þar sem þörf er á. Það gerir hún í samstarfi við hagsmunasamtök og þjóðina alla. Þannig mun okkur vel farnast. — Eigið gott sumar.