132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[14:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Góðir áheyrendur. Við höldum eldhúsdag að þessu sinni við harla óvenjulegar aðstæður. Á laugardegi á sumarþingi sem efnt var til fyrir þvergirðingshátt ríkisstjórnarinnar sem var staðráðin í að knýja í gegn frumvörp sem voru svo illa þokkuð, svo umdeild innan þings og utan að stjórnarandstaðan taldi það vera skyldu sína að koma í veg fyrir að þau yrðu að landslögum.

Hér vísa ég ekki síst í lagafrumvarp um Ríkisútvarpið sem til stóð að gera að hlutafélagi. Ekki selja, sagði Framsóknarflokkurinn, sem með stuðningi við þetta frumvarp sveik fyrirheit og gefin loforð um að Ríkisútvarpið yrði ekki gert að hlutafélagi. Nú hafði Framsóknarflokkurinn hörfað. Það átti ekki að selja Ríkisútvarpið hf.

En svo sannfærandi var þetta loforð um að Ríkisútvarpið yrði ekki selt að talsmaður ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hér í þessum sal hafði jafnframt verið flutningsmaður að frumvarpi um Ríkisútvarpið sem gekk út á að leggja stofnunina niður eða selja hana.

Varðandi Ríkisútvarpið hafði stjórnarandstaðan árangur af erfiði sínu á sama hátt og okkur tókst að fresta gildistöku laga sem greiða götu einkavæðingar á vatni og styrkja einkaeignarréttinn á kostnað almannaréttinda. Það hefur reyndar verið viðkvæðið hjá þessari ríkisstjórn á öllum sviðum að styrkja einkaréttarhagsmuni á kostnað almannahagsmuna og það eru ekki bara einhverjir einkahagsmunir. Það eru einkahagsmunir þeirra sem best standa að vígi í samfélaginu. Einkahagsmunir efnafólks og auðmanna.

Þjóðin kann þetta orðið utan að. Að einstaklingur sem hefur milljón á mánuði hefur fyrir tilstilli þeirra Geirs Haardes og Árna Mathiesens grætt eina milljón á ári hverju á sama tíma og öryrkinn hefur tapað eins mánaðar greiðslum af sínum naumt skömmtuðu tekjum.

Góðir landsmenn. Ég hef trú á að fólk sé búið að fá sig fullsatt af réttlæti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ríkisstjórnin stærir sig nú af efnahagsafrekum sínum. En hverju svarar hún hjálparstofnunum, stofnunum á borð við Rauða krossinn sem fyrir fáeinum dögum efndi til ráðstefnu til að vekja athygli á fátækt á Íslandi og þeirri staðreynd að fátæktin fer vaxandi? Ég hef margoft séð útreikninga frá Ráðgjafarstofu heimilanna sem sýnir að efnalítið fólk skortir oft tugi þúsunda króna til að ná endum saman. Fjölskyldur, einstaklinga, einstæðar mæður skortir tugi þúsunda króna til þess að eiga fyrir brýnustu lífsnauðsynjum. Þetta fólk er dæmt til fátæktar, til örbirgðar. Það eru þessi atriði sem ríkisstjórnin hefur ekki viljað ræða. Hún hefur ekki viljað ræða kjör aldraðra. Hún hefur ekki viljað ræða stöðu sjúkrahúsa og hjúkrunarstofnana sem hefur verið haldið í fjársvelti þannig að þær hafa ekki getað búið sjúklingum og öldruðum eða starfsfólkinu mannsæmandi kjör. Þetta hefur ríkisstjórnin ekki viljað ræða en á dagskrá hafa verið gæluverkefni um einkavæðingu.

Ég hef velt því mikið fyrir mér hvað skýri þetta einkavæðingarfár. Getur það verið að það vaki fyrir fólki, vel meinandi fólki sem ég held að sé hér upp til hópa í þessum þingsal, að rýra kjör starfsmanna, að draga úr gagnsæi, jafnræði á opinberum stofnunum? En þetta eru óhjákvæmilegir fylgifiskar einkavæðingar og markaðsvæðingarinnar. Ég neita að trúa þessu. Ég held að að hluta til þá sé þetta tískan.

Valgerður Sverrisdóttir er að reyna að tolla í Evróputískunni þegar hún einkavæðir raforkukerfið á Íslandi. Hún eins og aðrir segja: Það eru allir að gera þetta í Evrópu. Það eru allir að gera það. Hvers vegna gerum við það ekki líka? Nú veit ég að tískan getur verið ágeng. Við munum eftir túberingunni, támjóu skónum. Það var ekkert annað að hafa í skóbúðunum í þá daga. Svo komu þykku sólarnir. Það var guðsgjöf, himnasending fyrir lágvaxna manninn en sú tíska var slæm fyrir langa slánann. En það var ekkert annað að hafa í skóbúðinni.

En góðir landsmenn. Í heimi stjórnmálanna er þetta ekki svona. Það bjóðast aðrir valkostir. Það bjóðast aðrir valkostir en misréttisstefna Sjálfstæðisflokksins. Það bjóðast aðrir valkostir en stefna Framsóknarflokksins sem vill álvæða Ísland. Nú er að hefjast ný kosningabarátta að aflokinni þeirri sem við höfum orðið vitni að þar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð er í mikilli sókn. Það verður tekist á um tvær stefnur. Annars vegar stefnu þessarar ríkisstjórnar misréttisstefnunnar. Þeirrar stefnu sem gerir út ráðherra til New York í höfuðstöðvar Alcoa til að hlýða þar á erkibiskupsboðskap hvar þessi auðhringur vilji reisa verksmiðjur á Íslandi. Annars vegar býðst þessi valkostur undirlægjustefnunnar og hins vegar stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem vill reisa flaggið í nafni jöfnuðar og umhverfisverndar. (Iðnrh.: Kommúnisma.) Baráttan um þessa tvo valkosti er hafin.

Valgerður Sverrisdóttir kallar þetta kommúnisma. Hún talaði um að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar væru notaðir. Við höfum séð hvernig Framsóknarflokkurinn hefur verið notaður á undanförnum árum og við höfum séð hvernig íslenska þjóðin bregst við slíku ráðslagi.