132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[14:46]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Í nýafstaðinni kosningabaráttu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar lofuðu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn að nú skyldi vissulega tekist á við að bæta réttarstöðu aldraðra og öryrkja. Þessu var lofað og að breyta og lagfæra allt korteri fyrir kosningar.

Hvert fór í raun og veru hið svokallaða góðæri? Fyrst og fremst til þeirra sem hæstar hafa tekjurnar. Stefán Ólafsson gerði öllum ljóst á fjölmennum fundi með eldri borgurum í Háskólabíói nýverið hverjir högnuðust. Þeir hæstu í tekjum högnuðust. Þeir með yfir milljón á mánuði bættu hag sinn um tæp 80% eftir skatta á síðustu tíu árum á valdatíma ríkisstjórnarinnar. Láglaunafólkið með undir 200 þús. kr. á mánuði fékk á sama tíma 27% hækkun í rauntekjur eftir skatta.

Frjálslyndi flokkurinn lagði til fyrir alþingiskosningarnar 2003 að í staðinn fyrir skattastefnu ríkisstjórnarinnar um afnám hátekjuskatts og flata prósentulækkun yrði persónuafsláttur hækkaður um 10 þús. kr. á mánuði til þess að jafna kjörin og koma þannig í veg fyrir þá mismunun og óréttlæti sem nú er staðreynd og liggur fyrir í útreikningum Stefáns Ólafssonar. Frjálslyndi flokkurinn hefur á hverju ári frá 2001 lagt til á Alþingi að lögfest yrði ákvæði um tryggan lágmarkslífeyri eldri borgara þar sem 50 þús. kr. tekjur úr lífeyrissjóði skertu engar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þessi leiðrétting yrði mikil kjarabót fyrir aldraða en þeirri leið hefur ávallt verið hafnað hér í sölum Alþingis af núverandi ríkisstjórnarflokkum.

Verðbólgan hefur vaxið mjög og ógnar nú afkomu fólksins í landinu sem er orðið mjög skuldsett. Ráðleysi ríkisstjórnarinnar er algjört og fréttir fljúga um sali að nú verði Framsókn að skipta út og fá nýja eignaraðila úr S-hópnum til valda í Framsóknarflokknum og sem ráðherra í ríkisstjórnina. Góðir landsmenn, guð hjálpi okkur ef það á að vera bjargráðið sem Framsóknarflokkurinn er að finna.

Fólk trúir ekki lengur á góðærishjalið í ráðherrunum. Aðilar vinnumarkaðarins sjá nú að þeir verða eins og oft áður að bjarga því sem hægt er og hafa lagt fram hugmyndir til að bæta kjörin og draga úr verðbólgu. En ríkisstjórnin gerir ekkert og skilar auðu.

Góðir landsmenn. Þorskurinn hefur lengi verið mikil undirstaða í búskap Íslendinga. Í dag bárust fréttir af því að þorskveiðar yrðu skornar niður á næsta ári um 11 þús. tonn. Það fer að nálgast sú staða að heimilaðar þorskveiðar verði þær sömu og voru á stríðsárunum þegar hér var sáralítil fiskveiðisókn. Þetta er árangurinn af núverandi kvótakerfi. En það skyldi þó ekki vera að korteri fyrir kosningar fyndu menn 30 þús. tonn, eins og fundust fyrir síðustu kosningar norður á Akureyri, til að leggja með sér í nýja kosningabaráttu fyrir alþingiskosningarnar?

Góðir landsmenn. Vonandi er betri tíð komin til að vera. Ég vona að landsmenn allir gangi á guðs vegum þessa sumardaga og býð þá sem þingmaður Norðvesturkjördæmisins velkomna í Norðvesturkjördæmi þar sem er mikil náttúrufegurð og óspillt náttúra. — Gangið á guðs vegum.