132. löggjafarþing — 124. fundur,  3. júní 2006.

mælingar, mæligrunnar og vigtarmenn.

620. mál
[15:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er á að mörgu leyti á ferðinni ágætismál og ástæða til að styðja það. En ég vil vekja athygli á að meðal ákvæða í þessu frumvarpi er ein lítil 17. gr. sem kveður á um umboð til eftirlits. Þar segir, með leyfi forseta:

„Neytendastofa fer með eftirlit samkvæmt lögum þessum. Stofnuninni er þó heimilt að fela öðrum að framkvæma eftirlitið með samningi. Skulu þeir aðilar vera óháðir eftirlitsskyldum aðilum og hafa sérþekkingu og hæfni á viðkomandi sviði.“

Nú vil ég minna alþingismenn á deilur sem urðu á sínum tíma þegar ákveðið var að einkavæða rafmagnseftirlitið í landinu og eftirlitsiðnaðinn almennt. Okkur var sagt að á því sviði mundi skapast mikil samkeppni og hún yrði til góðs. Það átti að reisa múra og einn átti að hafa eftirlit með öðrum sem framkvæmdi. Síðan kemur í ljós að engin samkeppni var til. Í fyrstu sinntu eftirlitinu þrjú fyrirtæki en síðan fækkaði þeim.

Í gögnum sem okkur berast með þessu frumvarpi kemur t.d. fram að í eigu eins af þeim aðilum sem annast eftirlitið, Frumherja hf., eru einnig gjaldmælar. Hann er einnig framkvæmdaraðili. Það kemur fram að hann á 150 þús. rafmagns- og hitavatnsmæla. Það er ekki að undra að hann skuli mótmæla gjaldtöku á þessa mæla. Þetta er eftirlitsaðili og hefur eftirlit með sjálfum sér.

Nú er okkur sagt, eins og í fjármálafyrirtækjunum, að reistir hafi verið múrar og það sjáist ekki í gegnum þá múra. En til þess var leikurinn gerður að taka eftirlitið frá hinu opinbera og færa út á markað. Hér sjáum við reyndina að bæði eftirlit og framkvæmd er komin á hendur eins aðila. Hvílíkt og annað eins.

Eigum við að kannski að reyna að draga lærdóm af öðrum málum einnig, af lyfjamálunum og öðru? Það munum við gera á komandi þingi. Það mega menn stóla á. Við munum styðja þetta frumvarp, sem að mörgu leyti er ágætt og nauðsynlegt, en varðandi 17. gr. frumvarpsins munum við sitja hjá.