132. löggjafarþing — 124. fundur,  3. júní 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

707. mál
[15:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar einkanlega að víkja að öðru málinu sem hér er til umræðu, þ.e. frumvarpinu um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands. Ég hef athugasemdir við þetta mál og hef ekki sannfærst um að menn séu á réttri leið í hlutafélagavæðingu opinberrar þjónustu. Ég tel ástæðu til að greina í örfáum orðum frá þeim atriðum sem ég hnýt um í þessu frumvarpi.

Í fyrsta lagi vek ég athygli á því að það er nokkuð ljóst að með frumvarpinu er stjórnsýsluverkefni eða opinbert vald, framkvæmd á opinberu valdi, fært yfir í hlutafélag. Ég vísa þar til þess sem fram kemur í umsögn Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Þeir benda á reglugerðir Evrópusambandsins þar sem flugumferðarstjórn er skilgreind sem framkvæmd á opinberu valdi. Það liggur fyrir, að fenginni þeirri skýringu að framkvæmd á opinberu valdi sé að þessu leyti færð í hlutafélag.

Í öðru lagi kemur það fram við athugun málsins að allnokkur verkefni sem eru stjórnsýsluverkefni eru flutt til hlutafélagsins.

Í þriðja lagi, það sem af þessu leiðir, gilda reglur sem almennt gilda um stjórnsýslu og framkvæmd á opinberu valdi ekki lengur. Lög sem ná yfir það og Alþingi hefur sett á undanförnum árum, eins og stjórnsýslulög, upplýsingalög, lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, ná ekki lengur yfir þessa starfsemi. Ég tel að menn þurfi að færa fram rökstuðning fyrir því hvers vegna er nauðsynlegt að fella þau niður, t.d. ákvæði upplýsingalaga og stjórnsýslulaga hvað varðar þá þætti sem frumvarpið færir frá opinberri stofnun yfir í hlutafélag. Það kemur ekki fram í gögnum málsins svo að ég hafi tekið eftir því.

Ég vil almennt segja um hlutafélagavæðingu að mér finnst að skýra stefnumörkun þurfi í þeim efnum. Það hefur verið lögð áhersla á að færa starfsemi ríkisins sem er í samkeppni við einkaaðila í hlutafélagabúning. Fyrir því eru eðlileg rök sem má fallast á að séu rétt og slíka starfsemi, sem á í samkeppni við einkamarkaðinn, megi færa yfir í sambærilega löggjöf og gildir um hlutafélög.

Hins vegar er ekki lengur dregin skýr lína í þessum efnum. Við höfum séð frumvörp, t.d. um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, þar sem lagt er til að færa einokunarstarfsemi opinberrar stofnunar yfir í hlutafélagaform. Það getur ekki verið rökstutt með því að sama lagaumhverfi þurfi fyrir starfsemina og einkamarkaðinn. Þegar menn eru komnir yfir í þá stefnu að færa hluta af starfsemi ríkisins í hlutafélag, starfsemi sem er í eðli sínu þannig að enginn annar sinnir henni, þá er það alveg ný stefna. Ég skal ekki segja að þegar menn hafa talað sig í gegnum það mál þá geti ég ekki fallist á að að einhverju leyti sé rétt að breyta formi á opinberum rekstri þótt um einkastarfsemi sé að ræða eða einokunarstarfsemi. Sú umræða hefur einfaldlega ekki farið fram. Menn hafa ekki farið í gegnum það mál og ég tel nauðsynlegt að menn ræði hina pólitísku stefnu til hlítar áður en þeir hrinda henni í framkvæmd.

Síðan er komin þriðja útgáfan í þessu, þ.e. ekki bara að færa starfsemi undir hlutafélagarekstur sem er í eðli sínu þannig að enginn annar sinni henni og enginn annar keppi við hið opinbera í þeim efnum, þar á ég við flugumferðarstjórn, heldur er líka verið að færa starfsemi frá hinu opinbera undir hlutafélagaformið sem er í eðli sínu stjórnsýsla og framkvæmd af opinberu valdi. Þá hlýt ég að spyrja: Hvar eigum við að draga línuna í þeim efnum? Hvað af opinberu valdi eða stjórnsýslu eigum við að fella undir almenna hlutafélagalöggjöf og hvað eigum við að hafa hjá opinberum stofnunum? Mér finnst vanta skilgreiningar á þessu þannig að hægt sé að festa hönd á ákveðinni stefnu. Miðað við frumvarpið sem hér liggur fyrir sé ég ekki hvar menn ætla að enda. Mér finnst eðlilegt að álykta að menn geti í sjálfu sér tekið hvaða starfsemi sem er og breytt í hlutafélag, t.d. skóla landsins, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla eða sjúkrahús, eins og Landspítalann eða heilbrigðisstofnanir aðrar.

Í raun væri hægt að leggja til svipuð frumvörp og þetta gagnvart allri slíkri starfsemi. Er það kannski niðurstaðan, að menn telji hægt að taka alla opinbera starfsemi, hvort sem það er þjónusta eða stjórnsýsla, undir hlutafélagaform? Í dag afgreiddum við frumvarp um Matvælarannsóknir hf., sem er rannsóknar- eða eftirlitsstarfsemi. Er þá línan sú að hvað eina geti verið rekið undir hlutafélagaformi og að löggjöf sem við höfum sett á undanförnum árum um opinbera þjónustu og stjórnsýslu eigi þá ekki við? Eru menn að koma sér undan ákvæðum þeirra laga sem sett hafa verið á síðasta áratug eða svo? Þar á ég fyrst og fremst við stjórnsýslulög og upplýsingalögin. Þetta vildi ég nefna, virðulegi forseti. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að við séum á réttri leið í þessum efnum og vil fara yfir stefnumörkunina áður en lengra er haldið á þessari braut.

Ég vil líka nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hlutafélagið annist rekstur og uppbyggingu flugvalla, ekki bara flugleiðsöguþjónustu heldur líka uppbyggingu og rekstur flugvalla. Ég er nokkuð hugsi yfir því vegna þess að þá kemur arðsemiskrafan auðvitað fljótlega inn í málið. Hlutafélag er þess eðlis að því er ætlað að skila arði, til þess er það stofnað. Ef menn ætla ekki að vera með arðsemiskröfu á starfsemi þurfa menn ekkert hlutafélag. Þjónustan sem hlutafélagið á að yfirtaka er þjónusta við og rekstur á flugvöllum sem sumir hverjir standa ekki undir sér. Hver er þá meiningin að verði framhaldið í þeim efnum? Á hlutafélagið einfaldlega að vega og meta hvaða þjónustu það ætlar að veita og hvað velli það ætlar að reka, og geri það ekki nema það fái samning við samgönguráðherra sem uppfylli kröfur félagsins um tekjur af rekstri viðkomandi flugvallar og nauðsynlega arðsemiskröfu?

Ég sé ekki hvernig menn hugsa framkvæmdina í þessu. Að mínu mati er ekki dregið upp nægilega skýrt hvernig á að framkvæma þetta en ég sé ekki annað en að a.m.k. þetta geti verið fram undan og tel það líklegast, miðað við upplýsingarnar í frumvarpinu.

Ég minni líka á það sem fram kemur í umsögn Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Þeir gera athugasemdir við heimildir hlutafélagsins til að stofna til gjaldtöku. Gjaldskrárheimildin er að mati félagsins of víðtæk, a.m.k. hvað varðar alþjóðlega flugumferð. Þeir benda á að menn séu bundnir af þeim ákvæðum og hlutafélagið hafi ekki svigrúm eða vald til að setja aðra gjaldskrá en kveðið er á um í þeim samningum og ákvæðum sem er að finna varðandi Alþjóðaflugmálastofnunina. Ég set spurningarmerki við þá þjónustugjaldskrárheimild.

Virðulegur forseti. Ég held ég fari ekki fleiri orðum um athugasemdir mínar við þetta mál. Þær eru fyrst og fremst almenns eðlis, varðandi formbreytingu á þjónustu ríkisins, framkvæmd og stjórnsýslu. Ég hef einnig áhyggjur af uppsetningunni varðandi rekstur og uppbyggingu flugvalla innan lands.