132. löggjafarþing — 124. fundur,  3. júní 2006.

fjármögnun og umsvif ríkisins eftir landshlutum.

811. mál
[16:14]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Því miður er það svo að ég verð að endurflytja þessa skýrslubeiðni sem ég er flutningsmaður að. Þessi beiðni var flutt á 131. þingi þar sem forsætisráðherra var beðinn að færa okkur skýrslu um fjármögnun og umsvif ríkisins eftir landshlutum. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um fjármögnun og umsvif ríkisins eftir landshlutum. Gerð verði grein fyrir rekstrartekjum og gjöldum ríkisins, annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Skýrslan nái til áranna 2001–2005.

Eftirfarandi atriði komi m.a. fram í skýrslunni:

1. Hvernig skiptast tekjur ríkisins og hvaðan koma þær, sundurliðað eftir landshlutum?

2. Hvernig skiptast gjöld ríkisins og hvert renna þau, sundurliðað eftir landshlutum?

3. Hvernig skiptast störf hjá ríkinu í landfræðilegu tilliti og hver eru meðallaun eftir landshlutum?“

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, er hér um endurflutning að ræða vegna þess að við þessari beiðni hefur ekki verið orðið. Forsætisráðuneytið hefur ekki orðið við því að búa til þessa skýrslu og flytja Alþingi hana. Þess vegna er beiðnin endurflutt og þess óskað að unnið verði að þessari skýrslugerð á vegum forsætisráðuneytisins í sumar. Ég mun svo af þingtæknilegum ástæðum endurflytja þessa beiðni þegar við komum saman í haust. Ég vona að það takist að vinna skýrsluna og að réttur tími verði notaður til að gera það og Alþingi skilað þessari skýrslu.

Virðulegi forseti. Beiðni um þessa skýrslu varð til í huga mínum þegar ég las blað frá Rannís fyrir ári síðan þar sem stendur: „Landsbyggðinni blæðir, Reykjavík græðir“. Þar er fjallað um hvernig þetta er og það er ástæðan fyrir þessari skýrslubeiðni. Ég vona að hæstv. forsætisráðherra, hver sem hann verður, flytji okkur þessa skýrslu á hausti komandi.