133. löggjafarþing — þingsetningarfundur

minning Magnúsar H. Magnússonar.

[14:19]
Hlusta

Aldursforseti (Jóhanna Sigurðardóttir):

Nú verður minnst fyrrverandi alþingismanns sem lést eftir að þingfundum var frestað í júní sl.

Magnús H. Magnússon, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, andaðist á Landakotsspítala 22. ágúst. Hann var 83 ára að aldri.

Magnús H. Magnússon var fæddur í Vestmannaeyjum 30. september 1922. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Helgason gjaldkeri og Magnína Jóna Sveinsdóttir húsmóðir. Magnús lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1938, prófi frá Loftskeytaskólanum 1946, símvirkjaprófi með radíótækni sem sérgrein 1948 og fór síðan í framhaldsnám hjá Pósti og síma.

Magnús var sjómaður á árunum1937–1942, m.a. á norsku fraktskipi á fyrstu árum seinni heimsstyrjaldar. Hann var bifreiðarstjóri að atvinnu á árunum 1942–1945, loftskeytamaður á togara 1946 og síðar í afleysingum. Hann starfaði í radíótæknideild Pósts og síma 1946–1956 og var verkstjóri þar 1950–1953, yfirverkstjóri 1953–1956. Magnús gegndi stöðu stöðvarstjóra Pósts og síma í Vestmannaeyjum 1956-1987 að undanskildum þeim árum sem hann var bæjarstjóri og síðar alþingismaður.

Hann var bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum 1962–1982, þar af bæjarstjóri 1966–1975. Við alþingiskosningarnar 1978 var Magnús í framboði í Suðurlandskjördæmi fyrir Alþýðuflokkinn, náði kjöri og sat á Alþingi sem þingmaður Suðurlandskjördæmis til 1983. Hann var skipaður félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1978, var jafnframt samgönguráðherra frá því í október 1979, og gegndi þeim störfum fram til stjórnarskipta í febrúar 1980. Magnús var landskjörinn varaþingmaður Suðurlandskjördæmis 1983–1987 og sat á tíu þingum alls.

Magnúsi H. Magnússyni voru falin ýmis trúnaðarstörf um ævina og er hér fátt eitt talið. Hann sat í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja 1957–1978, var í framkvæmdastjórn Brunabótafélags Íslands frá 1966 og varð stjórnarformaður 1980. Magnús var varaformaður Alþýðuflokksins 1980–1984.

Magnús var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum þegar eldgos hófst á Heimaey aðfaranótt 23. janúar 1973. Hann varð samstundis þjóðkunnur af forustu í sveit þeirra sem stjórnuðu fyrstu viðbrögðum, varnaraðgerðum og björgunarstarfi og síðar viðreisnar byggðar í Eyjum. Þar birtist hann kjarkmikill, skipulagður og fumlaus maður og nýtti sér seiglu, dirfsku og verkkunnáttu sem hörð lífsbarátta hefur löngum kennt Eyjamönnum. Magnús var vandaður maður og setti sig vel inn í þau mál sem hann þurfti að fjalla um. Hann rökstuddi mál sitt vel og fylgdi því fast eftir, laus við málskrúð og yfirborðsmennsku. Hann var öfgalaus, hófsamur og íhugull. Með honum var gott að starfa.

Ég vil biðja háttvirtan þingheim að minnast Magnúsar H. Magnússonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]