133. löggjafarþing — þingsetningarfundur

ávarp forseta.

[14:26]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Ég þakka hæstvirtum starfsaldursforseta, Jóhönnu Sigurðardóttur, hlý orð í minn garð. Ég þakka háttvirtum alþingismönnum það traust sem þeir hafa sýnt mér með því að kjósa mig á ný forseta Alþingis. Ég met það traust mikils.

Forsetar hafa í sumar unnið að starfsáætlun fyrir þetta þing í samráði við ríkisstjórn og formenn þingflokka og er áætlað að Alþingi verði frestað 15. mars nk., um tveimur mánuðum fyrir alþingiskosningarnar, 12. maí. Ég óska góðs samstarfs við ríkisstjórn og þingflokka um framgang þingstarfa og vænti þess sérstaklega að þau frumvörp stjórnarinnar sem afgreiða á komi sem fyrst fram svo að þingið hafi sem mest ráðrúm til að afgreiða þau á þessu stutta þingi.

Nú er hafið seinasta löggjafarþing á þessu kjörtímabili, kosningaþing eins og það er stundum kallað. Ef allt fer að venju má búast við því í vetur að stjórnmálaflokkarnir skerpi áherslumál sín fyrir kosningarnar að vori og að hitnað geti í kolunum. „Alþingi er enginn sunnudagaskóli“ sagði einn forvera minna, og eru orð að sönnu. En alþingismenn verða eigi að síður að gæta hófs í málflutningi, sýna háttvísi og virða persónu og æru annarra. Þar ekki undan miklu að kvarta hér í þessum sal en ágætt að minnast þessa annað slagið.

Við Íslendingar búum við ríka lýðræðishefð og mikla og almenna þátttöku í kosningum. Það eru verðmæti sem við verðum að gæta vel og hlúa að. Ég hef lagt áherslu á að Alþingi sjálft leggi mikið af mörkum til þess að kynna sig, starfshætti sína, sögu og vinnubrögð í lýðræðisþjóðfélagi. Ég hygg þó að við getum gert meira og tel að Alþingi eigi í samvinnu við fræðsluyfirvöld að gefa ungu fólki færi á þjálfun í löggjafarstörfum og feta þá sömu slóð og nágrannaþing okkar hafa gert. Þannig má efla stjórnmálaáhuga ungs fólks og kenna nemendum að taka afstöðu og rökstyðja mál sitt og um leið þjálfa þá í að tileinka sér lýðræðisleg vinnubrögð og að ná sameiginlegri niðurstöðu í málum.

Eins og ég vék að í ræðu minni við sama tækifæri í fyrra tel ég mikilvægt að alþingismenn líti í eigin barm og hugi að því hvort störf og starfshættir Alþingis séu í samræmi við kröfur tímans. Ég átti marga fundi með formönnum þingflokka á liðnum vetri, svo og í sumar, um þau mál og finn fyrir miklum skilningi þeirra í þessu efni. Ég er nú bjartsýn á að hljómgrunnur sé fyrir því í öllum þingflokkum og hjá ríkisstjórn að leita heildarsamkomulags um umbætur á þingstörfum, bæði þeim sem byggjast á þingskapalögum og eins þingvenjum. Þar þurfa allir að vera sveigjanlegir og kannski gefa eitthvað eftir af því sem þeim þykir hagkvæmt nú í því skyni að bæta svipmót þingsins. Markmið okkar er að Alþingi vandi vel verk sín, að löggjöfin sé vönduð og að umræður séu drengilegar og öllum til sóma. Meiri hluti í hverju máli ræður málsúrslitum að sjálfsögðu en jafnsjálfsagt er að minni hluti eigi rúman rétt til að koma skoðunum sínum á framfæri og veita það aðhald sem öllum er hollt. Heiðarleiki og réttlæti séu leiðarmerki okkar á þeirri leið.

Í byrjun ágúst sl. átti ég þess kost að ferðast um Íslendingaslóðir í Manitoba-fylki í Kanada í tengslum við heimsókn mína á Gimli til að flytja minni Kanada á Íslendingadeginum sem haldinn var í 117. skipti. Ég varð hvarvetna vör við mikinn hlýhug til Íslands og skynjaði alls staðar mjög sterkt ræktarsemi afkomenda íslensku landnemanna við menningararfleifð sína og hversu mikill áhugi er á því að halda tengslum við Ísland. Samskiptin við þá eru okkur mikilvæg, ekki aðeins vegna þess að landnámið er hluti af sögu okkar heldur skapa þessi tengsl möguleika á auknum menningarlegum og viðskiptalegum samskiptum landanna. Mjög margt hefur verið gert á undanförnum árum, ekki síst af hálfu íslenskra stjórnvalda, til að efla þessi samskipti en mér finnst einnig sjálfsagt að við tökum til athugunar hvernig Alþingi geti með sjálfstæðum hætti lagt sitt af mörkum til að hlúa að þessum tengslum.

Alþjóðlegt samstarf eykst nú á öllum sviðum. Alþingismenn hafa svo sannarlega orðið þess varir enda er talsverðu fé varið til þess og sérmenntað starfsfólk til aðstoðar í þeim efnum hér á skrifstofunni. Ég hef á þingferli mínum tekið þátt í alþjóðlegu þingmannasamstarfi og tel að það sé mjög gagnlegt. Ég vil nota þetta tækifæri til að minna sérstaklega á ályktun Evrópuráðsþingsins frá því fyrr á þessu ári um átak gegn heimilisofbeldi. Þar er m.a. hvatt til þess að þingin standi fyrir viðburðum í þinghúsum landanna 24. nóv. nk. af því tilefni. Forsetar þjóðþinganna eru líka í æ ríkara mæli þátttakendur í hinu aukna alþjóðlega samstarfi enda eru nú gerðar sífellt meiri kröfur til okkar að sitja alþjóðlega fundi og ráðstefnur um margvísleg málefni, auk þess sem heimsóknir milli þjóðþinga færast mjög í vöxt. Að undanförnu hafa því verið gerðar ráðstafanir til að styrkja þá þjónustu sem forseti fær framvegis í þessum efnum ásamt öðrum skipulagsbreytingum á skrifstofu Alþingis.

Þá vil ég skýra frá því að ég hef ákveðið, í samráði við forustu Krabbameinsfélagsins, að Alþingishúsið verði lýst bleiku ljósi á næstunni. Er það gert sem táknrænn stuðningur Alþingis og alþingismanna við baráttuna við þann vágest sem brjóstakrabbamein er. Alþingi slæst þannig í hóp margra þekktra stofnana víða um veröld í sérstöku alþjóðlegu árveknisátaki gegn brjóstakrabbameini.

Við þingsetninguna í fyrra nefndi ég að saga Alþingis er bundin Þingvöllum órjúfanlegum böndum. Á mikilvægum stundum í lífi þjóðarinnar hefur Alþingi komið saman á Þingvöllum. Ég hvet enn og aftur til þess að við framtíðarskipulag þjóðgarðsins og framkvæmdir fái Alþingi þann sess sem því ber á þessum helgasta stað okkar Íslendinga.

Ég endurtek þakkir mínar til þingheims fyrir að fela mér að gegna störfum forseta. Það er ásetningur minn að eiga gott samstarf við alla háttvirta þingmenn.