133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[19:52]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Hæstv. forseti, kæru landsmenn. Það sígur nú á seinni hluta kjörtímabilsins og ýmsir mætir þingmenn hafa þegar tilkynnt að þeir hyggist ekki vera í kjöri til Alþingis í þeim kosningum sem fyrirhugaðar eru 12. maí í vor.

Á undanförnum mánuðum hafa töluverðar breytingar orðið á skipan ráðherra í ríkisstjórninni, m.a. í kjölfar þess að Halldór Ásgrímsson ákvað að hætta þátttöku í stjórnmálum eftir langt og farsælt starf. Nýju ráðherrarnir eru flestir vel kunnugir störfum Alþingis, en ég vil bjóða sérstaklega velkominn í hópinn hér við upphaf þingstarfa nýjan formann Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem hefur ekki áður tekið þátt í störfum Alþingis.

Eitt stærsta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar undanfarna mánuði hefur verið að ná samkomulagi við Bandaríkjastjórn um varnarmál og þau atriði er tengjast brottför varnarliðsins. Óhætt er að segja að ákvörðun Bandaríkjamanna um að loka varnarstöðinni hafi komið á óvart. Ljóst var þó að vilji þeirra stóð til þess að standa áfram við skuldbindingar sínar samkvæmt varnarsamningnum frá 1951, án þess að bandarískt herlið hefði hér fasta viðveru. Ríkisstjórnin tók þá afstöðu frá byrjun að þrátt fyrir þessi tíðindi væri rétt að byggja frekara samstarf ríkjanna áfram á grunni varnarsamningsins enda væru engir aðrir raunhæfir kostir fyrir hendi. Samkomulagið sem kynnt var í vikunni sem leið er Íslendingum hagstætt og markar tímamót í samstarfi Íslands og Bandaríkjanna.

Segja má að verkefnið hafi verið þríþætt. Í fyrsta lagi að tryggja að rekstur alþjóðaflugvallarins í Keflavík gengi snurðulaust fyrir sig þrátt fyrir brottför Bandaríkjamanna, sem eiga þar mikilvægan búnað sem óhjákvæmilegur er fyrir rekstur vallarins. Samkvæmt bandarískum lögum bar að flytja þann búnað í burtu héðan ef ekki hefði samist um annað.

Í öðru lagi snerust viðræðurnar um skil á landi og mannvirkjum á varnarsvæðunum. Niðurstaðan í því efni er sú að Íslendingar fá til eignar og afnota gríðarleg mannvirki á Keflavíkurflugvelli. Enginn bráður mengunarvandi blasir þar við, en þegar ráðist verður í hreinsun landsvæða verður hún á ábyrgð Íslendinga, samkvæmt íslenskum stöðlum og á því árabili sem okkur sjálfum hentar að ráðast í slíkar aðgerðir. Nú eru hins vegar fram undan mikil tækifæri við að koma þessum miklu eignum í arðbær not hér innan lands, án þess að það valdi röskun í samfélaginu á Suðurnesjum. Hefur í því skyni verið ákveðið að stofna hlutafélag í eigu ríkisins en með aðild sveitarfélaga sem fá munu það verkefni að umbreyta varnarsvæðinu og þróa til framtíðarnota. Ekki er vafi á því að þetta svæði á eftir að verða eftirsótt til margs konar notkunar.

Síðast en ekki síst var verkefni samningaviðræðna við Bandaríkin að tryggja varnarhagsmuni Íslands til framtíðar og er það að sjálfsögðu mikilvægasti þátturinn til lengri tíma litið. Ég tel að það hafi tekist og yfirlýst er af hálfu Bandaríkjanna að þau muni standa vörð um öryggi Íslands með hernaðarmætti sínum verði landinu ógnað. Í þessu felst þýðingarmikil skuldbinding og trygging af hálfu Bandaríkjamanna sem áréttar gildi varnarsamningsins frá 1951. Munu ríkin hafa náið pólitískt samráð um frekari útfærslu hins nýja samstarfs. Sú aðstoð og samvinna sem boðin er fram af hálfu Bandaríkjanna í tengslum við þetta mál á sviði löggæslu, landamæraeftirlits, landhelgisgæslu, varna gegn hryðjuverkum og fleiri öryggisþátta er sömuleiðis mjög mikilvæg. Skapast í því sambandi ýmis ný tækifæri fyrir íslenska löggæsluaðila. Það er ljóst að Íslendingar verða sjálfir að vera virkari í eigin öryggismálum en verið hefur, ekki síst þegar kemur að innra öryggi ríkis og þjóðar, og verja meiri fjármunum til verkefna á því sviði. Í nýlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er rækilega farið yfir það sem fram undan er hér innan lands í þeim efnum.

Frú forseti. Íslendingar eru virkir þátttakendur í mótun nýrrar heimsmyndar. Framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna er sennilega gleggsta dæmi þess. Kosið verður til setu í ráðinu árið 2008 og unnið er að því að afla framboðinu fylgis. Þá leggja íslenskir friðargæsluliðar sitt af mörkum í aðgerðum alþjóðasamfélagsins, ekki síst í Afganistan og á Sri Lanka. Friðargæsla er í eðli sínu áhættusöm og um hana þarf að ríkja eining. Boðaðar áherslubreytingar í störfum Íslensku friðargæslunnar munu vonandi leiða til þess að betri sátt ríki um þetta mikilvæga framlag okkar til samfélags þjóðanna.

Það voru vonbrigði að nýjustu samningalotunni hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni var slegið á frest, enda sérlega mikilvægt að auka viðskiptafrelsi í heiminum auk þess sem hagsmunir þróunarríkja voru sérstaklega hafðir að leiðarljósi í viðræðunum. Ýmislegt bendir til þess að vægi fríverslunarsamninga kunni nú að aukast og er Ísland vel í stakk búið til að mæta þeirri þróun. EFTA býr nú þegar yfir víðfeðmu neti fríverslunarsamninga og á í viðræðum um slíka samningsgerð við nokkur mikilvæg ríki. Þá hefur Ísland átt könnunarviðræður við Kína um möguleika á gerð fríverslunarsamnings og yrði Ísland fyrst Evrópuríkja til að gera þannig samning við þessa fjölmennustu þjóð heims.

Nýverið var undirritað samkomulag milli Íslands, Noregs og Danmerkur, fyrir hönd Færeyja, um skiptingu landgrunns milli landanna utan 200 sjómílna í suðurhluta Síldarsmugunnar. Samkomulagið markar tímamót og mun styrkja stöðu Íslands sem landgrunnsríkis, en sem kunnugt er gera íslensk stjórnvöld einnig kröfu til landgrunns á Reykjaneshrygg og á Hatton-Rockall svæðinu.

Frú forseti. Mikill efnahagslegur árangur hefur náðst það sem af er yfirstandandi kjörtímabili. Framkvæmdir hafa verið miklar og eldmóður verið í efnahagslífinu sem hefur skilað sér til almennings með stöðugri aukningu kaupmáttar allt tímabilið. Kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings er nú um 60% meiri en hann var 1995. Slík þróun er einsdæmi í okkar hagsögu. Atvinnuleysið hér á landi mælist aðeins rúmlega 1% þrátt fyrir mikinn innflutning vinnuafls sem er einsdæmi meðal þjóða heims.

En það hefur vissulega tekið í undanfarin missiri, ekki síst vegna þeirra miklu breytinga sem urðu á húsnæðislánamarkaðnum á kjörtímabilinu sem leiddu til þess að meira lánsfé var á boðstólum á hagstæðari kjörum en áður hafði þekkst. Þessi þróun hafði áhrif til hækkunar húsnæðisverðs og þar með á verðbólguna eins og við mælum hana hér á landi. Það hefur því verið helsta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans að undanförnu að tryggja að verðbólgan gangi niður á ný. Eru allar horfur á því að hún verði komin niður að verðbólgumarkmiði Seðlabankans, 2,5%, um eða fyrir mitt næsta ár.

Jafnframt er ljóst að á næstunni mun draga hratt úr framkvæmdum í tengslum við virkjanir og stóriðju á Austurlandi, samhliða því að dregur úr einkaneyslu, og því mun heildareftirspurnin í hagkerfinu minnka. Hagvöxtur verður því minni á næsta ári en í ár, en þó eigi að síður um 1% samkvæmt fyrirliggjandi spám. Eftir 2007 má svo búast við meiri hagvexti og tekjuaukningu í þjóðfélaginu á ný.

Aðgerðir stjórnvalda undanfarin ár hafa meðal annars falist í umtalsverðri lækkun skatta á heimili og fyrirtæki, innleiðingu frelsis í fjármálaviðskiptum milli Íslands og annarra landa og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Allt þetta hefur leyst úr læðingi gífurlega orku og kraft í íslensku efnahagslífi sem hefur einnig teygt anga sína til annarra landa.

Það er óumdeilt að skattalækkanirnar hafa skilað sér ríkulega til íslenskra heimila á undanförnum árum. Sömuleiðis hefur sú stefna stjórnvalda að efla atvinnu, meðal annars með uppbyggingu stóriðju og nýtingu hinna endurnýjanlegu orkugjafa landsins, skilað miklum árangri og treyst efnahagslega stöðu landsbyggðarinnar.

Þessi ávinningur mælist ekki síður á mælikvarða alþjóðasamfélagsins. Þar er Ísland yfirleitt í einu af efstu sætunum, hvort sem það varðar samkeppnishæfni, frelsi, gagnsæi í viðskiptaháttum, hagstætt viðskiptaumhverfi eða heilbrigt og óspillt efnahagsumhverfi svo nokkur dæmi séu nefnd. Hins vegar er jafnan nauðsynlegt að hafa vakandi auga með ímynd Íslands erlendis en það er sameiginlegt verkefni atvinnulífsins og ríkisins að bæta hana og styrkja.

Við óróa í þjóðarbúskapnum fyrr á árinu var brugðist af hálfu ríkisstjórnarinnar með margvíslegum aðhaldsaðgerðum svo sem frestun framkvæmda umfram það sem áður hafði verið ákveðið. Jafnframt var samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í sumar um að framlengja kjarasamninga út næsta ár mikilvægt framlag til þess að draga úr óvissu. Ríkisstjórnin mun hafa náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja þær efnahagslegu forsendur sem liggja til grundvallar þessu samkomulagi. Ákvað ríkisstjórnin að grípa til margháttaðra aðgerða til að stuðla að áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði. Meðal annars verða skattleysismörk hækkuð umtalsvert og teknar upp greiðslur barnabóta til foreldra 16 og 17 ára barna. Eins verða framlög til fullorðins- og starfsmenntamála aukin.

Þessar aðgerðir eru nú að skila árangri og ýmis merki um að þenslan sé á undanhaldi. Af þessum sökum er nú óhætt að fella úr gildi fyrri ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að setja ekki af stað um ótiltekinn tíma ný útboð á framkvæmdum. Þar með verður haldið áfram með þær samgöngubætur sem hafa verið undirbúnar að undanförnu, sem og aðrar framkvæmdir. Ríkisstjórnin mun einnig leggja til við Alþingi að þegar í stað verði ráðist í sérstakt átak til úrbóta á umferðaræðum út frá Reykjavík, þar sem orðið hafa mörg alvarleg slys á undanförnum árum. Er talið að ná megi miklum árangri í slysavörnum með slíku átaki.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju með hina góðu afkomu ríkissjóðs sem birtist í fjárlagafrumvarpinu. Hún er mikilvægt framlag til hagstjórnarinnar auk þess sem hún gefur færi á að bæta skuldastöðu ríkissjóðs enn frekar sem þó var góð fyrir. Hrein skuldastaða ríkisins er nú komin nánast í núll auk þess sem ríkissjóður á miklar inneignir á reikningum sínum í Seðlabankanum. Það eru ekki margar þjóðir sem státa af betri stöðu ríkisfjármála.

Hin trausta staða ríkissjóðs skapar víða sóknarfæri. Þeim fjármunum sem sparast vegna minni vaxtakostnaðar er nú hægt að verja til mikilvægari verkefna. Nú eru á lokastigi ákveðnar tillögur á vegum ríkisstjórnarinnar sem munu leiða til verulegar lækkunar matvælaverðs á næstu mánuðum þannig að matvælaverð á Íslandi verði sambærilegt við það sem gerist á Norðurlöndunum. Þessar tillögur verða kynntar frekar á næstunni þegar endanleg útfærsla þeirra liggur fyrir.

Frú forseti. Ísland er og á að vera samfélag í fremstu röð sem byggir á mannauði og menningu með alþjóðlegu yfirbragði. Í nýlegu áliti Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um mat á samkeppnisstöðu þjóða er lögð megináhersla á mikilvægi menntunar og árangur á sviði rannsókna og nýsköpunar. Undirstrikað er að menntun, rannsóknir og nýsköpun sé drifafl hagvaxtar.

Ríkisstjórnin hefur fylgt þessum áherslum. Í stefnu sem Vísinda- og tækniráð samþykkti sl. vor er m.a. lögð áhersla á að byggja upp mennta- og vísindastofnanir í fremstu röð sem starfi í nánum tengslum við atvinnulífið. Íslenskir háskólanemar hafa aldrei verið fleiri, framlög til háskólamála hafa aldrei verið hærri og námsframboðið aldrei fjölbreyttara. Háskólarnir hafa sett markið hátt, með Háskóla Íslands í broddi fylkingar, og þar er metnaður mikill.

Heildarendurskoðun á starfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum stendur nú yfir og samhliða því er unnið að samningu lagafrumvarps um námsgögn sem ætlað er að efla námsgagnagerð og auka fjölbreytni þeirra. Unnið er að endurskoðun á uppbyggingu kennaramenntunar og stefnt að því að taka upp nýtt skipulag kennaramenntunar á árinu 2007 þegar 100 ár verða liðin frá því að lög um fræðsluskyldu á Íslandi voru sett.

Í upphafi þings verður lagt fram á ný frumvarp um fjölmiðla og frumvarp um Ríkisútvarpið ásamt drögum að samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu sem marka stefnu Ríkisútvarpsins og afmarka hlutverk stofnunarinnar á samkeppnismarkaði. Hinar miklu breytingar sem orðið hafa á fjölmiðlamarkaði bæði hér á landi og erlendis gera brýnt að marka ríkisfjölmiðlum stefnu til framtíðar.

Eftir því sem tækninni fleygir fram eru góð og trygg fjarskipti sífellt mikilvægari, ekki síst á sviði öryggis- og björgunarmála. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið markvisst að því að treysta innviði fjarskiptakerfisins. Sala Símans og stofnun fjarskiptasjóðs hefur tryggt áframhaldandi uppbyggingu fjarskiptakerfa. Fyrsta útboð á vegum fjarskiptasjóðs er farið af stað og snýr að uppbyggingu GSM-sambanda á hringveginum, fjallvegum og ýmsum stofnleiðum. Í kjölfarið verður útboð á uppbyggingu háhraðatenginga og dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött.

Við brottför varnarliðsins færist skipulag og framkvæmd björgunarmála alfarið á hendur okkar Íslendinga. Landhelgisgæslan tekur að sér aukin verkefni og því þarf að stórauka tækjakost hennar. Gengið hefur verið frá leigu á þremur þyrlum til leitar og björgunar og koma tvær þeirra til landsins í þessum mánuði og sú þriðja næsta vor. Þá er nýtt varðskip og ný flugvél fyrir Gæsluna í útboðsferli. Við fyrirhugaða endurskoðun laga um almannavarnir verður tekið mið af breyttum aðstæðum í öryggismálum eftir brottför varnarliðsins. Með nýjum lögum um stækkun lögregluumdæma verða lögreglulið á höfuðborgarsvæðinu sameinuð í eitt og sama gildir um lögreglulið á Suðurnesjum. Áfram verður unnið að framkvæmd áætlunar um endurnýjun og uppbyggingu fangelsa.

Atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara hefur aukist mjög hér á landi. Flestir þeirra eru komnir til dvalar í skamman tíma og hverfa aftur til síns heima þegar verkefnum sem þeir vinna að lýkur. En margir ílengjast hér og hafa til þess sama rétt og við Íslendingar höfum á hinu Evrópska efnahagssvæði. Við eigum að taka vel á móti þessu fólki og gera því kleift að aðlagast íslensku samfélagi. Nýstofnað innflytjendaráð vinnur að heildarstefnumótun í málaflokknum fyrir stjórnvöld þar sem áhersla er lögð á gott skipulag á skólagöngu barnanna og íslenskukennslu fyrir hina fullorðnu ásamt haldgóðum upplýsingum um rétt og skyldur fólksins í íslensku samfélagi.

Meiri friður ríkir nú um fiskveiðistjórnarmálin en oft áður. Þær efnahagslegu aðstæður sem nú ríkja eru sjávarútveginum hagstæðar og gefa fyrirtækjunum færi á að eflast og bæta kjör þeirra sem í greininni starfa. Réttur okkar til sjálfbærrar auðlindanýtingar innan fiskveiðilögsögunnar er ótvíræður og frumkvæði íslenskra stjórnvalda í baráttu gegn ólöglegum veiðum á nytjastofnum í nágrenni við Ísland hefur vakið athygli víða um heim og borið sýnilegan árangur.

Ríkisstjórnin mun sem fyrr leggja áherslu á umhverfisvernd. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er stærsta verkefni í náttúruvernd hér á landi til þessa. Þjóðgarðurinn, sem verður hinn stærsti í Evrópu, mun ekki aðeins leggja grunn að verndun einstakrar náttúru þessa landsvæðis, heldur skapa nýja möguleika í ferðaþjónustu í nágrenni þjóðgarðsins og á þann hátt styrkja byggð á öllu jaðarsvæði hans.

Þekking og vöktun á náttúru landsins er forsenda sjálfbærrar og skynsamlegrar nýtingar á mikilvægum náttúruauðlindum. Ísland nýtur mikillar sérstöðu vegna sinna endurnýtanlegu orkulinda og hefur hlotið viðurkenningar frá alþjóðlegum samtökum fyrir framtak í loftslagsmálum, fyrir nýtingu endurnýjanlegrar orku, bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu og framtak í vetnismálum.

Frú forseti. Ég vil fagna þeim áfanga sem náðst hefur í málefnum aldraðra og birtist í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara nú í sumar um aðbúnað og afkomu ellilífeyrisþega. Í tillögunum, sem koma til framkvæmda næstu fjögur árin, er meðal annars gert ráð fyrir verulegri hækkun lífeyrisgreiðslna almannatrygginga og einföldun bótakerfisins með fækkun og sameiningu bótaflokka. Jafnframt er áformað að draga úr skerðingu bóta vegna tekna maka sem og vegna annarra tekna bótaþega. Enn fremur verður heimaþjónusta stóraukin og aukið fjármagn lagt til framkvæmda og reksturs til að stytta biðlista eftir hjúkrunarrými. Heildarkostnaður við þessar aðgerðir er metinn á tæplega 12 milljarða króna þannig að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða til þess að bæta kjör ellilífeyrisþega og öryrkja.

Málefni öryrkja eru jafnframt til umfjöllunar í nefnd á vegum forsætisráðherra þar sem meðal annars er fjallað um leiðir til þess að gera öryrkjum kleift að nýta starfsgetu sína sem mest. Hér er sérstaklega horft til eflingar starfsendurhæfingar og aðgerða sem hvetja öryrkja til að fara út á vinnumarkaðinn. Starf þeirrar nefndar er á lokastigi.

Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að byggja heilbrigðisþjónustu í landinu á samfélagslegri þjónustu sem greidd er úr opinberum sjóðum, en jafnframt talið eðlilegt að semja við aðra aðila um að veita heilbrigðisþjónustu á tilteknum sviðum eftir því sem tilefni er til og hagkvæmt þykir. Stefnt er að því að leggja fram á þessu löggjafarþingi frumvarp til nýrra laga um heilbrigðisþjónustu þar sem mælt er með skýrum hætti fyrir um grunnskipulag hins opinbera heilbrigðisþjónustukerfis um leið og heimildir heilbrigðisyfirvalda til að fela öðrum aðilum með samningum að annast heilbrigðisþjónustu eru styrktar.

Hæstv. forseti. Eftir fáa mánuði lýkur framkvæmdum við Kárahnjúka og álverið nýja á Reyðarfirði mun hefja starfsemi með þeim fjölda hátæknistarfa sem þar skapast. Þótt þessar framkvæmdir hafi verið umdeildar er í mínum huga ekki vafi á að þær eiga eftir að skila miklum ávinningi inn í þjóðarbúið allt. Sú spurning sem við Íslendingar þurfum að svara á næstunni er hvernig við viljum standa að nýtingu orkuauðlindanna í framtíðinni. Í mínum huga er sjálfsagt að þjóðin hagnýti sér auðlindir sínar en það verður að gera af fullri virðingu við náttúruna og umhverfið. Það er bæði hægt að nýta og njóta í þessum efnum og það er mikilvægt að skapa sátt um slíka stefnu.

Við Íslendingar erum lánsöm þjóð sem hefur brotist úr örbirgð til ríkidæmis á undraskömmum tíma. Við höfum borið gæfu til þess að nýta þau tækifæri sem hafa boðist og skapa ný sem hafa skilað okkur sífellt aukinni velsæld.

Það er mikilvægt að halda áfram á þessari braut aukinna framfara og vaxandi velmegunar. Höfum hugfast að þjóðin er sinnar eigin gæfu smiður. Það er undir okkur sjálfum komið að nýta tækifærin til að byggja áfram farsælt og gæfuríkt þjóðfélag. Það er markmið þeirrar ríkisstjórnar sem ég veiti nú forustu að gera það sem í hennar valdi stendur til að hagur þjóðarinnar allrar megi halda áfram að batna og dafna.

Við þetta tækifæri fyrir ári gerði ég að umtalsefni að við alþingismenn ættum allir það sameiginlega markmið að gera okkar góða land enn betra. Það mun áreiðanlega koma vel í ljós á þeim kosningavetri sem nú fer í hönd. En höfum hugfast að góður ásetningur er ekki nægilegur, það er ekki nóg að vilja vel ef ekki eru farnar réttar leiðir að markinu. Þá er hætta á að markinu verði seint eða aldrei náð.

Ég býð þingmenn velkomna til þingstarfa á ný og óska þess að störf þingsins í vetur verði þjóðinni til heilla og að baráttan í aðdraganda komandi þingkosninga verði drengileg í hvívetna. — Góðar stundir.