133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Þeir hafa verið margir fallegir að undanförnu haustdagarnir. Ég held þó að enginn slái síðastliðinn sunnudag út. Hann rann upp sérstaklega bjartur og fagur og á þeim morgni vöknuðum við Íslendingar í fyrsta sinn í meira en hálfa öld í herlausu landi. Brottför hersins markar mikil tímamót. Það felur í sér tækifæri til að móta nýjar áherslur í utanríkis- og öryggismálum þjóðarinnar, tækifæri til að ná sáttum meðal landsmanna eftir harðvítugar deilur í meira en hálfa öld sem dvöl erlends hers í landinu hefur skapað.

Það var að vísu ekki mikill sáttatónn í Morgunblaðinu í gær sem í Staksteinum sínum svívirti allt það fólk og minningu þeirra látnu sem sameinuðust í kröfunni um herlaust land, fólk sem hafði þá afstöðu að hér skyldi ekki vera erlendur her, fólk sem vildi virða vopnleysis- og friðararfleifð þjóðarinnar. Þetta fólk, þar á meðal margir fremstu rithöfundar, ljóðskáld og skapandi og túlkandi listamenn þjóðarinnar frá síðustu öld, þetta fólk var á ábyrgð ritstjóra Morgunblaðsins Styrmis Gunnarsson, ef ekki af honum sjálfum persónulega, svo gott sem gert samábyrgt fyrir fjöldamorðum Stalíns og fleiri óhæfuverkum af því og því einu að það vildi herlaust land.

Það er auðvitað ekki mikið við því að gera þó eftirlegukindur frá versta tíma kalda stríðsins, tíma ofsóknaræðis, haturs og mannfyrirlitningar ráfi um á Morgunblaðinu með harmræna kalbletti í hjartanu. Það er verst fyrir viðkomandi, það er þeirra mál og útgefenda Morgunblaðsins.

Í nálægri höll

er náttmyrkur bruggað

sem berast skal í dögun

um byggðir þessa lands.

Skyldi sú höll sem hið góða skáld Ólafur Jóhann Sigurðsson orti um á sinni tíð hafa verið Morgunblaðshöllin?

En við sem gleðjumst yfir brottför erlends hers, við viljum horfa fram á veginn, þjóðin þarf nú að horfa fram á veginn. Allar þær ráðstafanir sem við þurfum að gera eru borgaralegs eðlis og vel viðráðanlegar. Þær fela líka í sér tækifæri, að yfirtaka rekstur Keflavíkurflugvallar og nýta flugvallarsvæðið til atvinnusköpunar, þættir sem lúta að löggæslu og landamæraeftirliti, efling björgunarstarfsemi Landhelgisgæslunnar, efldar almannavarnir, bætt starfsskilyrði björgunarsveita, öruggari fjarskipti. Allt eru þetta þættir sem við getum vel ráðist í og eigum að leysa af fullum metnaði. Sýndarmennskuhervarnir höfum við hins vegar ekkert með að gera og Ísland á á nýjan leik að taka sér óháða stöðu utan hernaðarbandalaga þannig að arfleifð vopnleysis og friðar, sem var grundvöllur fullveldisins 1918 og stofnunar lýðveldisins 1944, verði í heiðri höfð á nýjan leik.

Ýmsar fullyrðingar forsætisráðherra í ræðu sinni um þetta mál koma mér hins vegar spánskt fyrir sjónir. Þannig segir t.d. hæstv. forsætisráðherra hér á fyrstu blaðsíðu, með leyfi, að óhætt sé að segja að ákvörðun Bandaríkjamanna um að loka varnarstöðinni hafi komið á óvart. Bíddu nú við, hæstv. forsætisráðherra, hvar hefur þú alið manninn? Kom það einhverjum á óvart allt í einu að Bandaríkjamenn vildu fara? Sömuleiðis segir forsætisráðherra að að hans mati hafi samkomulagið sem tókst um málið í heild verið gott og Íslendingum hagstætt, og rökstuðningurinn er m.a. sá að hér sé engin bráðamengun og við getum þrifið upp eftir Kanann svona eftir því sem okkur henti eða þegar okkur henti.

Ég vara við þessum hugsunarhætti. Það að Bandaríkjamenn skuli hverfa héðan á brott leystir undan því að bera fulla og óskipta ábyrgð á menguninni er langalvarlegasti veikleiki þessa samkomulags fyrir utan kannski það hvernig Bandaríkjamönnum líðst að koma fram við sína starfsmenn.

En eitt þurfum við að gera áður en við getum lokið til fulls þessum óskemmtilega kafla okkar sögu, kafla hersetunnar, kaldastríðstímanum. Það þarf að leggja öll spil á borðið og gera upp þær stórfelldu persónulegu og pólitísku njósnir sem virðast hafa verið stundaðar hér af tilteknum aðilum. Fólk sem ekkert hafði til saka unnið og aldrei nokkur óþjóðhollur hlutur hafði sannast á virðist hafa mátt sæta því vegna skoðana sinna og hugsjóna að um það var njósnað, friðhelgi einkalífs þess var rofin, það galt skoðana sinna á vinnumarkaði og upplýsingum um einkahagi þess og skoðanir var komið í hendur óviðkomandi aðila. Símhleranir, leynileg upplýsingasöfnun, leyniþjónustustarfsemi sem Sjálfstæðisflokkurinn stundaði í nánu samstarfi við erlent stórveldi og óvíst er í hve ríkum mæli hinir hersetuflokkarnir, Alþýðuflokkurinn sálugi og Framsóknarflokkurinn, stunduðu, þetta er auðvitað ekkert annað en stórfellt hneyksli. Þetta er áfall fyrir réttarríkið á Íslandi. Þetta er sams konar hneyksli og símhleranirnar í Noregi sem norski krataflokkurinn var rammflæktur í þóttu í því landi. Þetta mál verður að gera upp. Við verðum að hreinsa út þetta sársaukafulla tímabil í okkar sögu og við getum aðeins gert það á þann hátt sem þjóðir sem þannig stendur á um gera, eins og gert var í Noregi undir forustu norska Stórþingsins, eins og gert var upp við aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku með sannleiksnefnd Mandela.

Ég kvíði ekki því uppgjöri. Þau merkilegu hlutverkaskipti eru nefnilega að verða — og kannski veldur það óróleika hér og þar í bænum — að þeir sem bornir voru þungum sökum, þeir sem njósnað var um, þá er sagan að sýkna, á þá hefur aldrei sannast nokkur skapaður hlutur. En hinir eru komnir á hnén í foraðið.

Þá að öðrum málum, góðir tilheyrendur. Því miður er það staðreynd að þegar einu lýkur tekur gjarnan annað við. Það er staðreynd að þegar þessi tækifæri skapast til að sameina þjóðina á ný eftir harðvítugar deilur sem vera hersins hér hefur valdið þá eru brostnar á aðrar og ekki síður harðvítugar deilur og nú um stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Í þessu máli varðandi stóriðjustefnuna, Einar minn, er vissulega gjá milli þings og þjóðar (EOK: Já, Steingrímur minn.) því aðeins ein stjórnmálahreyfing, við Vinstri græn, hefur staðið heil og óskipt gegn stóriðjufárinu. Hér innan þings hefur verið við ofurefli að etja en meðal þjóðarinnar vex andstaðan við landdrekkingarstefnuna dag frá degi.

Mörgum var þungt í síðustu viku þegar vatnssöfnun hófst í Hálslón. Við Vinstri græn höfum krafist þess að því verði frestað og farið verði yfir málið á nýjan leik og nýtt óháð áhættumat verði unnið. Það er enn tími til að gera meðan aðeins vetrarrennsli er í Jöklu og það á auðvitað að gera. En það er ekki síður mikilvægt að þjóðin átti sig á því sem fram undan er og í pípunum í þessum efnum.

Þrjú ný risaverkefni í viðbót eru á teikniborðinu og undirbúin af kappi. Stækkun álversins í Straumsvík um 280 þúsund tonna framleiðslugetu á ári, álver í Helguvík með 250 þúsund tonna framleiðslugetu, álver við Húsavík með 250 þúsund tonn. Samtals 780 þúsund tonna framleiðsla í viðbót við þau 790 þúsund tonn tæp sem framleidd verða á árinu 2008 miðað við núverandi framkvæmdir. Tvöföldun sem sagt í viðbót við allt það sem nú er verið að undirbúa framleiðslu á. Gangi þetta eftir verða rúmlega 30% af allri virkjanlegri orku landsins 2008 notuð í álframleiðslu og 60% ef hin þrjú nýju verkefni bætast við á árunum fram til 2015. Fjárfestingar upp á 430 milljarða kr. á nokkrum árum. Þetta er veruleikinn, þetta er nýja ekki-stóriðjustefnan eða afturvirka stefnubreytingin sem iðnaðarráðherra og nú orðinn formaður Framsóknarflokksins — og veri hann velkominn til þings — boðaði á dögunum, sem sagt fráhvarf Framsóknarflokksins frá stóriðjustefunni þýðir 50% aukningu. Þrjú álver með tilheyrandi virkjunum í viðbót í staðinn fyrir tvö sem nú eru í byggingu. Þetta eru áformin. Þetta þurfa menn að horfast í augu við.

Skjálfandafljót, Jökulsárnar í Skagafirði, Brennisteinsfjöll, Langisjór, Torfajökull, Kerlingarfjöll, ekki einu sinni Þjórsárver eru óhult. (Gripið fram í.)

Hæstv. forsætisráðherra komst svo að orði þegar hann ræddi um efnahagsmál, hann sagði: Það var tekist á við óróa í þjóðarbúskapnum. Er nærri 10% verðbólga, er 18,7% viðskiptahalli upp á 209 milljarða kr. á þessu ári sem nú stefnir í, er það órói í efnahagsmálum? Það sem mikilvægast er þó að menn hafi í huga er að gangi öll þessi áform eftir þá mun nýtt langt þenslutímabil ganga í garð jafnvel þegar á næsta ári. Þá mun Seðlabankinn ekki treysta sér til að lækka vexti. Þá mun annað atvinnulíf þurfa að búa við þenslu, verðbólgu, viðskiptahalla og skuldasöfnun jafnvel í sjö mögur ár. Er það það sem menn vilja? Nei, þeirri stefnu höfnum við.

Góðir áheyrendur. Það er gleðiefni að stjórnarandstaðan mætir nú samhentari og einbeittari til leiks en hún hefur gert að undanförnu. Hvers vegna gerum við það? Við gerum það vegna þess að við eigum okkur eitt mjög mikilvægt sameiginlegt markmið, einn sameiginlegan ásetning og það er að fella ríkisstjórnina og það er að taka við. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það dugar ekki eins og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og nú Geirs H. Haardes hefur gert að lifa í einhverjum sjálfumglöðum draumaheimi eigin ímyndaðrar snilligáfu og ágætis og kenna öllum öðrum um ef eitthvað bjátar á, Seðlabankanum, viðskiptabönkunum eða jafnvel dönskum bönkum. Og talandi um þá fóstbræður, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, þá eru það auðvitað sérkennilegar aðstæður að þeir eru nú báðir hlaupnir fyrir borð íslenskrar stjórnmálaþátttöku á kjörtímabilinu. Um leið og ég þakka þeim samstarfið hlýt ég að segja að uppgjörið við arfleifð þeirra, stefnu ríkisstjórnar þeirra er eftir. Það verður því að fara fram að þeim sjálfum persónulega fjarstöddum en flokkar þeirra eru hér og samstarfsmenn þeirra eru hér og stefnan er sú sama og hana skulum við kjósa af okkur næsta vor, góðir landsmenn. — Ég þakka áheyrnina. Til hamingju Ísland, herlausa Ísland.