133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:51]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Það voru merk tímamót þegar Ísland varð að nýju herlaust land. Reyndar hafa það verið ríkjandi viðhorf mikils fjölda landsmanna hvar í flokki sem er að hér ætti ekki að vera her á friðartímum. Þó að það væru aðeins svokallaðir herstöðvarandstæðingar sem mættu undir slagorðaspjöldum í Keflavík þá voru miklu fleiri landsmenn sem aldrei fóru í Keflavíkurgöngur sem voru glaðir í sinni með að landið yrði herlaust á ný. Hernaðaraðgerðastefna Bandaríkjanna undir forustu Bush gegn Írak og aðkoma tveggja síðustu forsætis- og utanríkisráðherra Íslands að þeirri hernaðaraðgerð hefur ekki aukið á vinsældir og vinskap Íslendinga í garð Bandaríkjamanna.

Ríkisstjórninni virtist koma á óvart að herinn væri á leiðinni úr landi og lét taka sig í bólinu, eins og sagt er. Hvernig mátti það vera? Var ekki Davíð Oddsson búinn að fá brottförinni frestað sem vinargreiða Bush við sig? Gleymdi hann að segja Halldóri Ásgrímssyni og Geir H. Haarde frá því að þau fyrirmæli Bush væru tímabundin meðan hann væri ráðherra? Gjald fyrir greiða, eða hvað?

Við þurfum nú að endurmeta okkar stöðu og miða við það að öryggisviðbúnaður okkar á friðartímum sé virkur til eftirlits og þá einnig viðbragða ef óvænta atburði ber að garði. Landhelgisgæslan og lögregluyfirvöld munu þurfa að auka samstarf sitt á næstu árum. Að mörgu öðru þarf að hyggja svo sem samstarfi tollgæslu og útlendingaeftirlits. Ríkisstjórnin vill byggja áfram á ákvæðum varnarsamningsins og hefur gert um það samkomulag við Bandaríkin. Við í Frjálslynda flokknum bentum á það fyrir tveimur árum að rétt væri að taka upp viðræður við nágrannaríki okkar í Skandinavíu um samstarf um varnir, eftirlit og öryggismál í Norðurhöfum. Því var ekki sinnt af stjórnvöldum þá en nú er vonandi vilji til þess. Það eru ýmsar hættur sem að okkur geta steðjað samfara auknum siglingum sem þegar eru hafnar með olíu og gas úr Norðurhöfum. Þessar siglingar munu örugglega aukast mjög hratt á næstu árum enda stór markaður í Bandaríkjunum fyrir olíuvörur. Yfirtaka okkar á eignum og tækjum á Keflavíkurflugvelli var okkur nauðsyn til þess að tryggja áfram öryggi flugs að og frá landinu. Af öllum þessum þáttum mun á næstu árum aukinn kostnaður færast yfir á okkar herðar, kostnaður sem við munum þurfa að greiða af skatttekjum ríkisins. Frekari skattalækkanir nú kunna því að vera varhugaverðar og sé mögulegt að gera þar lagfæringar á til lækkunar ættu þær að okkar dómi í Frjálslynda flokknum einkum að gagnast þeim sem lægstar hafa tekjur og til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu.

Sú forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattamálum á undanförnum árum að lækka mest skatta á hátekjufólk er út úr öllum takti þess að auka almenna velferð og skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur aukið á misskiptingu lífsgæða til hagsbóta fyrir þá tekjuháu og efnameiri en vegið er að afkomumöguleikum eldri borgara og öryrkja sem og þeirra sem lægst hafa launin. Það er engin tilviljun að ASÍ skyldi þurfa að neyða ríkisstjórnina út af stefnu sinni í skattamálum og inn á sömu stefnu sem við í Frjálslynda flokknum lögðum til fyrir síðustu alþingiskosningar, að hækka persónuafsláttinn. Þannig var ríkisstjórnin knúin til þess með samtakamætti ASÍ að gera samkomulag um að hætta við tveggja prósenta lækkun flatt um næstu áramót og færa hluta þess fjár yfir í hækkun á persónuafslætti. Sú aðgerð kemur sér að sjálfsögðu betur fyrir þá lægst launuðu.

Sérkennileg er vegferð þessara ríkisstjórnarflokka síðastliðin 11 ár að vera ávallt reknir til þess nauðugir með hótunum eða málaferlum aldraðra, öryrkja og nú síðast heildarsamtaka launamanna að lagfæra kjör þeirra sem lakasta afkomu hafa. Stjórnarandstaðan hefur hins vegar mótað sér allt annan farveg í velferðarmálum með þeim tillögum sem við kynntum sameiginlega í gær, að leggja til verulega bætt kjör aldraðra, öryrkja og sjúkra á stofnunum. Stefnt er að því að þær tillögur komi sem fyrst til framkvæmda og að til framtíðar verði um afkomutryggingu að ræða sem byggi á því að þeir sem hafa aðeins grunnlífeyri og tekjutryggingu sér til framfærslu og eiga ekki aðra kosti geti framfleytt sér af þeim lágmarkstekjum. Þær tekjur dugi fyrir skilgreindum neysluútgjöldum lífeyrisþega samkvæmt úttekt á framfærsluþörf hverju sinni. Næstu ríkisstjórnar bíður það mikla verkefni að auka á ný jöfnuð og jafnrétti í þjóðfélaginu.

Verðtryggð húsnæðislán einstaklinga hækka nú verulega í hverjum mánuði vegna verðbólgunnar. Þetta sérstaka verðtryggingarfyrirkomulag okkar á Íslandi verður að taka enda. Lánastofnanir þurfa ekki að vera margtryggðar fyrir afföllum en lántakandinn ávallt þolandi með meiri álögum. Háir vextir, sem auk þess eru verðtryggðir, uppgreiðslugjöld, lántökugjöld og stimpilgjöld, allt tryggar tekjur bæði fyrir banka og ríkissjóð. Samtrygging bankanna gerir kröfur um belti, axlabönd og jafnvel pollabuxur. Þeir njóta ávallt ávöxtunar hvort sem gengið hækkar eða lækkar. Þetta er ofverndun á viðskiptum með lánsfé og á að afnema. Við í Frjálslynda flokknum leggjum til í þingmálum að verðtrygging verði felld niður sem fyrst og að í áföngum hætti ríkið að afla tekna með álagningu stimpilgjalds. Íslenskar fjölskyldur eiga það skilið að hér verði breyting á til samræmis við helstu nágrannalönd okkar. Íslensk heimili eru mjög skuldsett og á það er ekki bætandi.

Útþenslustefna í nýjum sendiráðum án aðhalds eða fækkunar annars staðar ásamt miklum fjáraustri í framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er óþarfaeyðsla að okkar mati, stefna sem var tekin í tíð Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra og undir forsæti Davíðs Oddssonar. Vegvísar þessara manna í utanríkispólitík virðast ætla að verða þessari þjóð dýrkeyptir svo ekki sé meira sagt. Er nú ekki kominn tími til að hætta að vinna eftir stefnumótun þeirra og stöðva fjáraustur utanríkisþjónustunnar í þessa veru? Um þessa vegferð áfram er engin sátt. Um friðargæslu og þróunaraðstoð má vafalítið ná góðu samkomulagi allra flokka til framtíðar ef vilji er til þess hjá núverandi ríkisstjórn.

Ekki fer á milli mála að einhverjar arðbærustu framkvæmdir sem ríkið getur staðið að er að bæta þjóðvegakerfið í landinu. Það voru því mikil vonbrigði þegar ríkisstjórnin ákvað í lok júní síðastliðins að stöðva útboð á gerð nýrra þjóðvega á landsvæðum eins og Vestfjörðum og á norðausturhorninu þar sem finna má verstu þjóðvegi landsins og á landsvæðum þar sem heimamenn höfðu ekki orðið þenslunnar varir. Það er eðlilega búið að mótmæla þessum gerræðislegu ákvörðunum ríkisstjórnarinnar harkalega. Þær voru teknar án þess að leggja mat á þá brýnu þörf sem var og er á gerð nútímavega í stað gömlu malarveganna sem engan veginn þola nútímaþungaflutninga og umferð. Þessar vanhugsuðu aðgerðir voru óþarfar með öllu. Þenslan sem þurfti að taka á var ekki á þessum landsvæðum. Nú, þremur mánuðum síðar, er svo fallið frá þessum gjörsamlega óþörfu aðgerðum og haldið áfram með útboð á samgöngubótum. Guð láti gott á vita.

Forsætisráðherra sagði í ræðu sinni að þessar aðgerðir á þenslulausum svæðum væru nú að skila árangri og þenslan á undanhaldi. Ef þetta er rétt mat hjá forsætisráðherra, að aðgerðir sem þessar virki á aðeins þremur mánuðum gegn þenslu, þá er komin fram ný þekking á því hvernig þjóðir heims eigi að slá niður þenslu á 90 dögum. Þessi afbragðs efnahagsstjórn, „90 daga Haarde-áætlunin“, ætti fljótlega að verða meiri landkynning og verðmætari útflutningsgrein á þekkingarsviði en sjálft kvótakerfið. Það var tekið upp til verndar þorskinum og hefur orðið tilefni mjög margra ríkisgreiddra ferðalaga úr landi. Sú vara hefur verið kynnt og flutt út sem „heimsins besta fiskveiðikerfi“ en þorskunum fer því miður enn þá fækkandi.

Hvað þá með svona þriggja mánaða snilld við að draga úr þenslu með því að stöðva verk á svæðum þar sem engin þensla var en vinna áfram á fullu þar sem þenslan er sjáanleg? Vér hin sem ekki skiljum þessa snjöllu ákvörðun um 90 daga frestun þurfum nú sjálfsagt kennslu og endurhæfingu í því að reyna að skilja eitthvað í hagfræði. Þvílík tök á stjórn landsins, snjöll tök.

Að lokum skal tekið fram að um kvótakerfið á Íslandi ríkir engin sátt. Við í Frjálslynda flokknum munum leggja hiklaust í baráttu gegn óbreyttu kerfi sem veikir byggðir landsins eins og dæmin sanna hvert af öðru, nú síðast þegar 42% af atvinnurétti Grímseyinga voru seld í dag. Skyldu þeir una við hina miklu sátt Geirs Haardes?

Góðir Íslendingar. Góðar stundir.