133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:19]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Veturinn sem í hönd fer er mikilvægur því að hann mun skera úr um hvort pólitísk vatnaskil verði í kosningunum til Alþingis næsta vor.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti í ræðu sinni björtum hliðum í íslensku efnahagslífi, efnahagslegum ávinningi á kjörtímabilinu, hann lýsti miklum hagvexti, eldmóði í efnahagslífinu, mikilli uppbyggingu á landsbyggðinni og auknum kaupmætti ráðstöfunartekna. Hann lýsti ástandi sem væri einsdæmi í okkar hagsögu á svo margan hátt.

Hæstv. forseti. Þetta er sú lýsing sem núverandi stjórnarflokkar munu draga upp og veifa framan í kjósendur á vori komanda. Sjáið, allt þetta er okkar verk. Það er einungis undir okkar stjórn sem við getum viðhaldið þessu efnahagsástandi, verður kveðið.

Hæstv. forseti. Ljósu hliðarnar eiga sér dökka mynd sem hæstv. forsætisráðherra lýsti ekki, mikilli þenslu, miklum erfiðleikum í velferðarþjónustunni, skuldum heimilanna, aukinni vímuefnaneyslu og fólksfækkun víða um land svo eitthvað sé nefnt.

Það eru ekki eingöngu blikur í efnahagsmálum þjóðarinnar heldur eru margar náttúruperlur í hættu ef ekki verður slakað á í kröfum um áframhaldandi stórframkvæmdir og aukinn hagvöxt.

Hæstv. forseti. Hvers vegna er okkur svo nauðsynlegt að losna við sitjandi ríkisstjórn, ríkisstjórn sem leggur arðsemisstiku á nauðsynlega grunnþjónustu og mælir allt í hagvexti? Það er vegna þess að ójöfnuður hefur aldrei verið meiri hér á landi. Meðaltal kaupmáttar segir ekkert um hagi þeirra sem setið hafa eftir, langveikra, öryrkja og aldraðra. Stjórnarandstaðan stendur saman að þingsályktunartillögu sem hefur það að markmiði að bæta kjör aldraðra. Við viljum kjarabætur sem koma tafarlaust og séu nær því markmiði að hverjum og einum sé tryggð afkoma sem taki mið af raunverulegum framfærslukostnaði, því að staða margra aldraðra er slæm bæði hvað varðar afkomu og þjónustu. Við erum rík þjóð sem hefur efni á að sjá öldruðum fyrir mannsæmandi kjörum og búsetu. Það ber okkur að gera og leiðrétting verður að koma fram í fjárlögum næsta árs. Það er einnig ljóst að skuldastaða heimilanna er mjög alvarleg. Nýleg fasteignakaup á ofurtilboði einkabankanna eiga sinn þátt í því og eru nú að koma mörgum heimilum í koll.

Hæstv. forseti. Geta bankarnir algjörlega siglt sinn sjó í þeim tilgangi að tryggja eigin arðsemi, gróða sem að hluta til byggir á fákeppni á hinum svokallaða frjálsa samkeppnismarkaði? Ég tel að á þessu sviði eins og svo mörgum sem snerta grunnþjónustu hvers samfélags sé Ísland of fámennt til að lúta óheftum markaðslögmálum. Þar að auki er víða svo dreifbýlt eða fámennt að erfitt er að halda úti dagvöruverslun, hvað þá að koma á samkeppni. Hækkandi afnotagjöld af rafmagni og síma eru smjörþefurinn af því sem koma skal með áframhaldandi stjórnarstefnu. Næst verður það heilbrigðiskerfið sem undið verður upp í einkavæðingarhnykilinn og þá verða það sjúklingarnir sem bera hærri kostnað. Þjónusta í hinum dreifðu byggðum hefur auk þess versnað undir merkjum hagræðingar og arðsemiskröfu.

Á sama degi og Síminn hélt upp á 100 ára afmæli sitt lokaði dótturfyrirtæki Símans þjónustuveri sínu á Egilsstöðum. Í nafni hagræðingar misstu fimm konur vinnuna, konur sem höfðu fengið fyrirheit um framtíðarstarf. En tímaglas einkavæðingarinnar tifar áfram í vetur og nú er það Ríkisútvarpið sem er efst á forgangslista ríkisstjórnarflokkanna.

Hæstv. forseti. Það er rétt sem fram kom hjá forseta lýðveldisins við þingsetninguna í gær. Þjóðin var klofin í andstæðar og ósættanlegar fylkingar vegna hersetunnar og nú þegar við loks erum laus undan viðjum hennar stefnir í að þjóðin klofni í fylkingar milli náttúruverndar og frekari stóriðju. Til þessa má ekki koma. Sátt næst eingöngu með sjálfbærri orkustefnu og með því að leggja til hliðar öll áform um frekari stóriðju og virkjanir henni tengdri þar til óháð áhættumat á Kárahnjúkavirkjun hefur farið fram. Að því fengnu, og ef í lagi reynist, eigum við að fresta öllum framkvæmdum þar til reynsla hefur fengist á efnahagslegan og félagslegan ávinning af rekstri álversins á Reyðarfirði og settur hefur verið rammi um þær náttúruauðlindir sem við viljum vernda til komandi kynslóða.

Hæstv. forseti. Sem íbúi á Austurlandi get ég ekki annað en lýst hryggð yfir þeim náttúruspjöllum sem nú eiga sér stað með tilkomu Hálslóns. Það er mjög erfitt að horfa á gróið land, tilkomumikla fossa, sérstakar jarðmyndanir og setlög hverfa smám saman undir aurugt jökulvatnið. Víst er að miklar framkvæmdir standa yfir á Miðausturlandi. Þeim fer nú að ljúka við Kárahnjúkastíflu og smám saman dregur úr þeim á svæðinu. Hin miklu umsvif hafa sannarlega reynt á innviði sveitarfélaganna. Hvernig fjórðungurinn mun þróast á öðrum sviðum og í öðrum atvinnugreinum er óskrifað blað. En vegna þess mikla fórnarkostnaðar sem af framkvæmdunum hefur hlotist hljótum við að bera þá von í brjósti að mannlífið blómgist áfram en þann kafla sögunnar geta afkomendur okkar einir skráð. Herinn er horfinn á braut, hann ákvað það sjálfur. Jökla er horfin úr farvegi sínum, hún ákvað það ekki sjálf. Við hljótum að spyrja hvort við höfðum leyfi fyrir flutningunum.

Góðir Íslendingar. Ég óska ykkur öllum góðra stunda.