133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:39]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra gumar af lækkun skatta og skuldlausum ríkissjóði. Lækkun skatta er öfugmæli vegna þess að skattbyrði almennings hefur aukist síðustu tíu ár. Það kemur auðvitað til vegna rýrnunar skattleysismarka sem aðallega hefur bitnað á lágtekjufólki og fólki með meðaltekjur. 90% þjóðarinnar hafa fengið að kenna á skattahækkun ríkisstjórnarinnar og sem dæmi má taka að skattbyrði 70 ára og eldri hefur aukist um tæp 15%. Regla ríkisstjórnarinnar virðist því hafa verið: Því eldri, því meiri skattar. Bótaþegar, aldraðir og öryrkjar sem ekki greiddu neina skatta þegar þessi ríkisstjórn tók við greiða nú milljarða í skatta á ári sem hæstv. forsætisráðherra, fyrrv. fjármálaráðherra, er ánægður með að fá í kassann til að borga niður skuldir.

Frú forseti. Vonandi getum við öll verið sammála um að við viljum lifandi byggðir um landið allt og að ekki sé æskilegt að nær allir Íslendingar búi og starfi á suðvesturhorni landsins. Við vitum það líka að þörf er fyrir sterka byggðakjarna í öllum landshlutum. Við hljótum því að geta verið sammála um að æskilegt sé að fólk hafi raunverulegt val um hvort það býr og starfar hér á þéttbýlasta svæðinu eða utan þess eða jafnvel langt utan þess. Margir telja það besta kostinn að búa utan mesta þéttbýlis en þrátt fyrir það sogar Reykjavíkursvæðið stöðugt til sín fólk frá smærri stöðum því hér er þjónustan fjölbreyttust, atvinnan næg og afþreying af ýmsu tagi.

Hvað er til ráða til að leiðrétta þessa skekkju, virðulegi forseti? Til þess að hægt sé að tala um raunverulega valkosti í þessu brýna máli þarf margt að koma til. Fyrst og fremst þarf að leiðrétta rangar ákvarðanir stjórnvalda og laga það sem úrskeiðis hefur farið. Á sumum sviðum hefur stefna núverandi ríkisstjórnar beinlínis leitt til uppflosnunar fólks og það hefur neyðst til að yfirgefa staði sem því eru kærir, þó að það mundi hvergi annars staðar vilja vera ef því væru búnar aðstæður til þess. Það er tungunni tamast, virðulegi forseti, sem hjartanu er kærast. Tökum nokkur dæmi.

Flutningskostnaður skekkir samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Flutningskostnaðurinn leggst þungt á landsbyggðarbúa og lítil og meðalstór fyrirtæki. Ekki nóg með það heldur fara 50% af þessu öllu í ríkissjóð hjá fjármálaráðherra.

Stórauknir þungaflutningar með bílum eru að eyðileggja vegina, valda aukinni slysahættu, aukinni mengun umhverfis og eru efnahagslega óhagkvæmir og dýrir. Þess vegna þurfum við að taka upp strandsiglingar að nýju með opinberu útboði og jafnvel styrkjum. Styrkfjárhæð mætti þó færa frá vegaviðhaldi yfir í strandsiglingastyrki. Raforkuverð til fólks í dreifbýli hefur hækkað um allt að 40% vegna nýrra raforkulaga ríkisstjórnarinnar. Niðurskurði á vegaframkvæmdum á landsbyggðinni í lok júní um 1.100 millj. kr. var ætlað að draga úr þenslu.

Nú viðurkenna ríkisstjórnarflokkarnir mistök sín aðeins þremur mánuðum síðar. Betra er seint en aldrei. Barátta okkar gegn þessari vitleysu ríkisstjórnarinnar hefur borið árangur. Við höfum rekið ríkisstjórnina til baka. Þennan brandara verður hægt að nota á árshátíð hagfræðinga í vetur.

Þensla húsnæðismarkaðar á höfuðborgarsvæðinu hækkar vísitölu neysluverðs sem aftur leiðir til hækkunar á höfuðstóli lána landsbyggðarfólks og allra annarra. Þetta leiðir til þess að það þarf að greiða meira af lánum en húsnæðisverð lækkar, hækkar ekki neitt og jafnvel lækkar. Landsbyggðarfjölskylda sem sendir ungling í framhaldsskóla fjarri heimabyggð þarf að greiða um 500 þús. kr. fyrir skólagöngu á ári en fær einungis um 150 þús. í mesta lagi í svokallaðan dreifbýlisstyrk sem ekkert hefur hækkað undanfarin ár. Þessi fjölskylda þarf að auka tekjur sínar um 800 þús. til að eiga 500 þús. fyrir skólagöngu barnsins. Hér hafa aðeins nokkur dæmi verið nefnd, virðulegi forseti.

Áframhaldandi samdráttur er því miður á mörgum stöðum landsbyggðarinnar. Jákvæð undantekning er þó Miðausturland.

Góðir landsmenn. Í kosningunum í vor gefst kjörið tækifæri til að setja landsbyggðarmálin í brennidepil. Við skulum sameinast í baráttu fyrir því að allir landsmenn búi við sama verðlag og sitji við sama borð, fyrir öruggari og betri samgöngum, fyrir því að flutningskostnaður verði jafnaður og lækkaður, fyrir því að skólaganga sé ekki fjárhagsleg byrði og fyrir því að þungaflutningar færist af landi og út á sjó. Byggðastefna komandi ára gæti þess vegna verið eitt eða tvö orð, jafnrétti og jafnræði. Kjörorðið getur líka verið, góðir hlustendur: Lifandi byggðir um allt land.

Góðir landsmenn. Ég þakka þeim sem á hlýddu. Góðar stundir.