133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:44]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Kæru landsmenn. Stjórnmál snúast um fólk. Stjórnmál snúast um að virða skoðanir annarra eins og sínar eigin. Í mínum huga snúast stjórnmál um að leggja sitt af mörkum til að hver og einn fái notið sín í félaginu sem við eigum saman. Stjórnmál snúast um að vera frjáls í margbrotinni merkingu þess orðs. Því er það liður í stjórnmálastarfi að leggja grunn að velferð fyrir sem flesta líkt og þessi ríkisstjórn hefur lagt sig fram um að gera.

Það er t.d. óumdeilt að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um nær 60% á tíu árum. Sambærilegar tölur þekkjast ekki í nágrannalöndunum, þar eru þær á bilinu 15–20%. Kaupmáttaraukningin, traust atvinnuuppbygging, vöxturinn, vinnan og velferð sem heitið var, það hefur verið grunntónninn í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta hefur gagnast öllum almenningi á Íslandi. Því var heitið og það stóð eins og stafur á bók.

Um leið og mikilvægt er að halda til haga þeim góðu verkum sem við höfum staðið fyrir er enn mikilvægara að horfa fram á veginn. Íslenskt samfélag hefur breyst gríðarlega undanfarin ár til hins betra að mestu leyti. Að sumu leyti er það opnara, að sumu leyti frjálsara. Við þurfum ávallt að vera viðbúin því að bregðast við afleiðingum örra breytinga, þeim fylgja oft vaxtarverkir. Ég get nefnt viðbrögðin við birtingu álagningarseðla skattsins nú í sumar, sumt sem kom fram í þeim gekk fram af mér. Ég hef þó meiri áhyggjur af þeim tekjulægstu en þeim tekjuhæstu. Hvernig bregðumst við við þessum breytta raunveruleika? Ég held að besta leiðin til þess sé að einbeita okkur að börnunum okkar, umhverfi og tækifærum þeirra. Um það snúast stjórnmálin. Við eigum að búa þannig um hnútana að þau geti numið fræðin á jafnréttisgrundvelli, að þegar þau ljúka námi fari hvert og eitt út í lífið með veislu í farangrinum, eins og skáldið sagði, veislu þekkingar og menntunar sem opnar mönnum allar þær dyr sem hægt er að opna. Þannig gerum við æskuna, börnin okkar, frjálsari í harðnandi alþjóðlegri samkeppni á hvaða sviði sem er. Þannig tryggjum við frelsi okkar sjálfra til framtíðar. Þetta gerum við með því að bjóða upp á góða menntun hvar sem menn búa, aðgengi að listnámi og íþróttum óháð efnahag og búsetu. Þannig stuðlum við áfram að því samfélagi jafnra tækifæra sem við höfum búið við síðustu áratugina.

Ég held að við stjórnmálamenn ættum að fara að ræða meira um raunveruleg lífsgæði eins og líðan og hag fjölskyldunnar og barnanna okkar. Kaupmáttaraukninguna þekkjum við. Hún ætti að gefa fólki meira svigrúm til fleiri samverustunda fjölskyldunnar. Grunur minn er sá að við nýtum þennan kost ekki nógu vel. Við þurfum að taka umræðu um hvað þetta val okkar getur haft í för með sér. Landsframleiðslulínuritið kann að líta vel út, bæði í ræðu og riti. En við verðum öll að horfa gagnrýnum augum á það hvað það er sem landsframleiðslan mælir. Hún mælir ekki bros barnsins sem fagnar samverustund með foreldrum sínum. Hún mælir ekki ánægjustund í góðra vina hópi. Hún mælir ekki ánægjuna við að sökkva sér ofan í góða bók eða lesa sögu fyrir dóttur sína. Ég held að við höfum öll gott af því að staldra við.

Fæðingarorlofskerfið, hækkun barnabóta, lækkun skatta, lækkun endurgreiðslubyrði námslánanna, allt umbætur sem við höfum staðið fyrir til að koma til móts við þær miklu byrðar sem þær kynslóðir bera sem nú eru að vaxa fram. En þetta er auðvitað viðvarandi viðfangsefni og verkefni.

Góðir landsmenn. Á tímum þenslu þekkja það sem betur fer fáir hvað það er að hafa ekki atvinnu. Í engu felst jafnmikið óréttlæti og að hafa ekki atvinnu. Nú um stundir er rúmlega 1% atvinnuleysi og það á sama tíma og vinnuafl er flutt inn í stórum stíl. Það er einstakt en það er ekki tilviljun, það er ekki sjálfsagt. Þessi staðreynd endurspeglar þá áherslu sem lögð hefur verið á uppbyggingu blómlegs og kröftugs atvinnulífs um allt land. Í því samhengi spila innflytjendur æ stærra hlutverk í samfélaginu okkar og efnahagskerfi. Þar höfum við upplifað miklar breytingar á íslensku samfélagi á skömmum tíma. Við verðum að búa svo um hnútana að innflytjendur eigi þess kost að læra íslensku en tungan er lykillinn að þátttöku í samfélaginu. Ég segi þetta ekki síst vegna þess að án þess að þeir tali íslensku fer ég og þið á mis við það sem þeir hafa fram að færa og gefa þessu samfélagi. Okkur ber að gera það sem í okkar valdi stendur til að fólk af erlendum uppruna nái hér góðri fótfestu. Það tekst ekki nema með samhentu starfi ríkis og sveitarstjórna, aðila vinnumarkaðarins, frjálsra samtaka og samtaka innflytjenda sjálfra. Við höfum allt að vinna. Í þeim tilgangi var Innflytjendaráð stofnað og að þessum markmiðum er unnið hörðum höndum.

Góðir tilheyrendur. Í hönd fer þing þar sem andrúmsloftið mun einkennast af spenningi og titringi vegna prófkjara og því að í hönd fer kosningavetur. Við framsóknarmenn munum stolt í vetur kynna þau verk sem við höfum staðið fyrir en það sem skiptir enn meira máli, við munum kynna hugsjónir okkar og þá framtíðarsýn sem við höfum fyrir íslenskt samfélag. Ég hlakka til að eiga samstarf við kjósendur um mótun íslensks samfélags. Verkefni okkar og ábyrgð eru mikil.