133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:59]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég held það sé óhætt að tala umbúðalaust um þennan samning og segja það í upphafi þessarar umræðu að þetta er hundvondur samningur. Hann stendur ekki undir þörfum Íslendinga varðandi varnir og öryggi ef svo fer að viðsjár brjótist aftur með einhverjum hætti út í okkar heimshluta. Þetta er líka hundvondur samningur að því er varðar viðskilnað Bandaríkjamanna við okkur Íslendinga, bæði um mengun á varnarsvæðunum og líka hvað varðar viðskilnað og kostnað vegna hans. Að því leyti til er ekki hægt að segja annað en að samningurinn er hraksmánarlega illa gerður. Hann undirstrikar það sem við höfum verið að gagnrýna í allri þessari málsmeðferð. Málið hefur ekki verið nógu vel undirbúið og niðurstaðan er eftir því.

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra skautaði létt yfir þegar hann talaði um það hvað Íslendingar þyrftu að inna af höndum vegna brottfarar Bandaríkjahers frá Keflavíkursvæðinu. Hann gat þess hvergi að Íslendingar munu þurfa að greiða samtals 5 milljarða kr. hið minnsta vegna þess að Bandaríkjamenn eru að fara af fúsum og frjálsum vilja. Þannig er það nú eigi að síður þó að hæstv. forsætisráðherra kjósi, eins og svo margt annað í þessu máli, að reyna að fela þá staðreynd. Það kom ekki fram í máli hans að það væri líklegt að það mundi kosta íslenska ríkið 2 milljarða að rífa helming þeirra húsa sem vitað er að þarf að fjarlægja. Hann var hins vegar nógu hreinskilinn til að segja að það mundi sennilega kosta 3 milljarða að fjarlægja þá mengun sem vitað er um í dag. Þetta eru 5 milljarðar, 5 milljarðar sem íslenska ríkisstjórnin þarf að greiða vegna þess að Bandaríkjamenn kjósa að fara af fúsum og frjálsum vilja. Við þær aðstæður að erlend ríkisstjórn kýs að draga varnarlið sitt í burtu án þess að ríkisstjórnin krefjist þess þá er það lágmarkskrafa að hún skili landinu í því horfi sem hún tók við því. Það þýðir að henni ber að sjálfsögðu að leggja með sér það fjármagn sem þarf til þess að ryðja burt þessum húsum. En samninganefnd ríkisins, undir skeleggum leiðbeiningum hæstv. forsætisráðherra, hefur verið svo algerlega á knjánum í þessu máli að hún lætur troða því niður um kokið á sér að þeir séu í reynd að fá húsnæði að virði 10 milljarða kr. Ég get ekki annað en gagnrýnt þessa málsmeðferð, frú forseti.

Það verður líka að segjast eins og er að það er ömurlegt að sjá þann hluta samningsins sem lýtur að mengun á umhverfi þessara svæða. Það vita það allir sem hafa fylgst með þessum málum að stöðugt finnast ný svæði sem eru illa menguð. Alveg fram á síðustu mánuði hafa Íslendingar verið að fá nýjar upplýsingar um það. Og ef það er eitthvað sem við eigum að læra af sögunni þá er það að þaðan sem bandarískt herlið fer kemur alltaf í ljós mikil mengun, stundum löngu, löngu síðar. En þessir ágætu herrar fara án þess að bera nokkra ábyrgð af því að íslenska ríkisstjórnin var of lin til þess að gera almennilegan samning. Hæstv. ráðherra sagði það að vísu að ef í ljós kæmi hætta á bráðri og yfirvofandi mengun, þá mætti hvað? Taka upp viðræður við Bandaríkjamenn! Ég hef aldrei á ævinni heyrt íslenska ríkisstjórn koma með jafnundarlegan málflutning og ég lýsi furðu á því að þetta skuli vera fyrsta skref nýs forsætisráðherra. Þess vegna er það ekkert undrunarefni að hæstv. ráðherra er ekkert glaður og reifur. Þetta er ekki sigurganga frá forsætisráðherrastólnum hér upp í púltið. Það er von að hann vilji skauta létt og helst sporlaust yfir þá föl sem þessi samningur er vegna þess að haldið í honum er svo lítið. Það er kannski tilefni þess að hæstv. ráðherra hefur ekkert gert, sem honum ber þó skylda til, til að efla samstöðu um þennan grundvallarþátt í utanríkisstefnu sem varnir fullvalda ríkis hljóta þó að vera.

Hæstv. ráðherra hefur algerlega forsómað það að hafa lögbundið samráð við utanríkismálanefnd. Ég segi það sem utanríkismálanefndarmaður og kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga að ég veit nánast ekkert um öryggis- og varnarinnihald þessa samnings. Hvers vegna? Vegna þess að hæstv. forsætisráðherra ber það á borð fyrir þjóðina að þungamiðja samninganna, sem er varnaráætlun, sé leynileg. Það eru bara tveir sem fá að skoða hana. Það er annars vegar pappírsráðherrann hæstv. í utanríkisráðuneytinu sem sagði sig frá málinu í upphafi tíðar sinnar og hæstv. forsætisráðherra.

Nú vil ég segja það alveg skýrt að ég ber virðingu fyrir dómgreind hæstv. forsætisráðherra og ég ber virðingu fyrir honum sem stjórnmálamanni. En enginn er dómari í eigin sök og hæstv. ríkisstjórn hefur setið undir ámæli og gagnrýni fyrir að gera lélega samninga. Hvernig eigum við þá að treysta því þegar hæstv. forsætisráðherra kemur sem eini dómari landsins og segir: Þetta er góður samningur. Það var aldrei við öðru að búast en því að hann mundi segja það. Og ég fordæmi það að menn komi með varnarsamkomulag sem byggist á leynimakki sem Bandaríkjamenn hafa einir búið til og enginn Íslendingur utan tveir ráðherrar fá að sjá, tveir ráðherrar sem forlögin munu að öllum líkindum fleygja út úr ríkisstjórninni innan nokkurra mánaða. Það er krafa okkar að stjórnarandstaðan, undir þeim trúnaði sem lög binda utanríkismálanefnd, fái að skoða og sjá þetta til að geta metið það fyrir hönd umbjóðenda okkar hvort þetta uppfylli varnarþarfir Íslendinga.