133. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2006.

réttur nefndar til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál.

27. mál
[18:10]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Frumvarpið sem hér er flutt sýnir vel að Alþingi afgreiddi þetta mál með óþörfum flýti í vor þótt tillögutextinn hafi að vísu og sem betur fer verið öðruvísi en ráðherrunum þótti hentugast í upphafi. Við munum að frumvarpið varð til eftir að Guðni Jóhannesson sagnfræðingur upplýsti um verulegar símhleranir á tilteknum tímabilum eftir stríð og fram undir 1970. Þar kom í ljós að dómsmálaráðuneytið hafði látið hlera síma hjá stjórnmálasamtökum, hjá verkalýðsfélögum og hjá einstaklingum og þar á meðal voru alþingismenn sem þó njóta sérstakrar þinghelgi skv. 49. gr. stjórnarskrárinnar. Ég endurtek: Dómsmálaráðherra lét hlera síma alþingismanna.

Sagnfræðingurinn Þór Whitehead hefur nýlega bætt um betur og sýnt fram á að hér var til í lögreglunni sérstök öryggisdeild sem safnaði upplýsingum um íslenska ríkisborgara án nokkurrar lagaheimildar og án þess að aðrir vissu af en sérstakir innmúraðir vildarvinir. Þar kemur einnig fram að þessar upplýsingar voru að hluta eða í heild afhentar erlendu stórveldi, Bandaríkjunum, og raunar safnað með sérstakri hjálp sendiráðs þeirra hér á landi ef ekki beinlínis í samstarfi við leyniþjónustu þess ríkis.

Við höfum nú árið 2006 skýrar vísbendingar um að hér hafi frá því í heimsstyrjöldinni og a.m.k. fram á áttunda áratug aldarinnar verið stundaðar skipulegar njósnir um íslenska ríkisborgara. Ég ætla ekki að sinni að taka þátt í þeirri deilu sem yfir stendur í blöðum um það hvort hægt sé að réttlæta þetta athæfi íslenskra ráðamanna með einhverjum hætti. Alþingi getur ekki verið neinn stóridómur um það efni og við skulum fara varlega. Við sem nú stöndum hér skulum ekki efna til réttarhalda yfir tímum sem okkur eru flestum fjarlægir, yfir fólki í aðstæðum sem við þekkjum illa. Þetta á bæði við þá sem efndu til njósnanna og þá sem njósnað var um.

Hins vegar er algjörlega eðlilegt að kanna á vegum þingsins hvaða lagagrunn þessar njósnir höfðu, ef einhvern, og hverjir voru ábyrgir fyrir þeim. Á sama hátt er augljóst að þeir sem fyrir njósnunum urðu hljóta að fá aðgang að sínum skjölum eða þá afkomendur þeirra og aðstandendur eftir atvikum. Það verður að virða af þungri alvöru að þolendur fái tækifæri til að kanna og bera af sér þær sakir sem njósnunum eru samfara, nefnilega að þeir persónulega eða samtök sem þeir veittu einhvers konar forustu hafi verið ógnun við öryggi landsins. Þegar slíkar rannsóknir eða njósnir beinast að einstaklingi án þess að mál sé höfðað, án þess að niðurstaða a.m.k. sé kynnt þeim sem fyrir varð, felast í njósnunum brigsl um landráð og það er engum ætlandi að sitja hljóður undir slíkum áburði.

Um aðferð í þessu efni er einfalt að vísa til Norðmanna sem hafa fengist við ámóta mál af hrósverðri einurð og hreinskilni fyrir tilstilli svokallaðrar Lund-nefndar sem skilaði mikilli skýrslu til Stórþingsins árið 1996. Að vísu er sá munur á norskum aðstæðum og íslenskum að Lund-nefndin vissi hvar átti að bera niður þar sem voru opinberar öryggisdeildir hers og lögreglu. Hér fór njósnastarfsemin aftur á móti fram utan við lögin, samanber furðusöguna um götóttu olíutunnuna þar sem embættismenn áttu að hafa brennt opinber gögn. Þegar núverandi aðgangsnefnd undir forustu Páls Hreinssonar lýkur störfum þarf að ræða hér á Alþingi um stofnun svipaðrar rannsóknarnefndar og í Noregi.

Hlutverk aðgangsnefndarinnar nú er tvenns konar. Annars vegar þarf nefndin að átta sig á því hvar umrædd gögn og skjöl er að finna, hins vegar á nefndin að ákveða eftir hvaða reglum skuli farið við að veita frjálsan aðgang að þessum gögnum og skjölum og ég vek eftirtekt á orðunum „frjáls aðgangur“ sem eru tekin úr þingsályktuninni frá í vor. Þau merkja í raun að það eina sem nefndin þarf að athuga í þessum reglum er að gæta hinnar lögskyldu 80 ára leyndar um viðkvæmar persónuupplýsingar. Ég fagna því að nefndin virðist taka þetta hlutverk sitt af fullri alvöru, m.a. með því að fara fram á þær auknu heimildir sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Forseti. Það er rétt að taka sérstaklega fram að þetta frumvarp getur ekki á nokkurn hátt myndað skjól fyrir ráðherra eða embættismenn til að hindra menn í að sækja rétt sinn gagnvart þeim upplýsingum sem um ræðir. Ég nefni sérstaklega í því samhengi að það er óþolandi að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki enn hafa brugðist við þeirri málaleitan Kjartans Ólafssonar, fyrrverandi ritstjóra og alþingismanns, 16. september sl. að að fá aðgang að skjölum í Þjóðskjalasafni sem Guðna Jóhannessyni var veittur aðgangur að, að minnsta kosti þeim sem varða símhleranir sem Kjartan varð fyrir á 7. áratug 20. aldar.

Ég skora á ráðherra að bregðast við hið skjótasta. Þögn menntamálaráðherra er sérkennileg og vandræðaleg vegna þess að hún vekur spurningar um heilindi ríkisstjórnarinnar allrar í þessu máli. Í öllu falli um heilindi Sjálfstæðisflokksins sem virðist hafa verið sérstakt bólvirki í þessari njósnastarfsemi á liðnum árum.

Forseti. Það hefur komið fram í ræðu þingflokksformanns míns hv. að við samfylkingarmenn styðjum þetta frumvarp. Í umræðum síðar í haust gefst væntanlega tækifæri til að ræða margvísleg efni sem tengjast þessu máli, m.a. þarf að upplýsa hversu lengi var njósnað um íslenska ríkisborgara í samstarfi við erlendar leyniþjónustur. Rétt er að hæstv. ráðherrar búi sig undir að svara því hvort slíkar njósnir standa enn á vegum dómsmálaráðuneytisins eða annarra án samþykkis frá Alþingi, án vitundar þjóðarinnar, án laga, án dóms.