133. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2006.

réttur nefndar til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál.

27. mál
[18:21]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna því ég tel að hér hafi öll sjónarmið komið fram en vek athygli á að þetta er þverpólitískt mál. Að því standa eins og fram hefur komið formenn allra þingflokka. Það segir nokkuð um mikilvægi málsins. Rætur þess eru í því sérkennilega andrúmslofti sem varð til á hinum köldu stríðsárum, getum við sagt. Þar gerðust kannski hlutir sem í dag þykja æðisérkennilegir. Þess vegna er mjög mikilvægt, eins og efni þessa máls er, að það nái hratt fram að ganga með þeirri einföldu röksemd að sannleikurinn mun gera yður frjálsa.

Ég vil eins og sá hv. þingmaður sem hér síðastur talaði einnig þakka stjórnarandstöðunni fyrir góðan og dyggilegan stuðning í þessu máli, sem ég vona að nái að renna hér ljúflega í gegn enda mikilvægt fyrir sannleiksást þingsins.