133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

vaxandi ójöfnuður á Íslandi.

[10:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Hæstv. forseti. Formaður Samfylkingarinnar er alltaf jafnsmekklegur í orðavali. Hún kallar ríkisstjórnina brennuvarga og segir að þeir standi fyrir linnulausum hernaði gegn jöfnuði landi. Linnulaus hernaður gegn jöfnuði er það sem formaður Samfylkingarinnar fullyrðir að ríkisstjórnin beiti sér fyrir. Hvers lags málflutningur er þetta, virðulegi forseti?

Það hefur orðið mikil tekjuaukning á Íslandi á undanförnum árum. Ég rakti það í stefnuræðu minni, og það hefur margoft komið fram, að kaupmáttur almennt í landinu hefur aukist um 60% á síðustu 10–11 árum. Allir þjóðfélagshópar hafa notið góðs af þessum bættu lífskjörum og þessum auknu tekjum í þjóðfélaginu. Allir tekjuhópar hafa það mun betra núna en þeir gerðu fyrir 10–15 árum. En hálaunastörfum hefur fjölgað og láglaunastörfum fækkað. Það er eitt af því sem við höfum reynt að beita okkur fyrir.

Það hefur líka gerst að tiltekinn hópur fólks, sem oft og tíðum hefur starfað á alþjóðlegum vettvangi í viðskiptum eða fjármálum, hefur efnast verulega, það er alveg rétt. Tiltekinn hópur í þjóðfélaginu hefur efnast verulega vegna breyttra aðstæðna og vegna þess að sá hópur hefur getað hagnýtt sér þær aðstæður sem skapast hafa, m.a. í alþjóðlegum viðskiptum. Ég er ekki á móti því. Ég fagna því ef fólki gengur vel í viðskiptum og ef það efnast og tel það ánægjulegt fyrir allt þjóðfélagið. Að vísu er það miður að sumir af þeim einstaklingum sem þannig er ástatt um hafa komið sínum málum þannig fyrir borð að þeir greiða ekki persónulega skatta sína á Íslandi. Það á að vera keppikefli okkar að draga slíka aðila aftur inn í hagkerfi okkar þannig að þeir borgi öll sín persónulegu gjöld hér á landi.

Hins vegar er það mjög orðum aukið, sem framsögumaður hélt fram, að stórkostleg gliðnun hefði orðið í tekjudreifingunni á Íslandi. Ef litið er á þær tölur sem fyrir liggja í því efni og þá þróun sem hér hefur orðið þá er hækkunin í kaupmætti nokkuð jöfn ef við sleppum 5% efsta bilinu. Það er fyrst og fremst litli hópurinn sem ég var að tala um áðan sem hefur skotist svona langt fram úr og á því eru í flestum tilfellum eðlilegar skýringar. Ég missi ekki svefn yfir því að einhverjir aðilar hafi hagnast í viðskiptum. Ég tel ekki ámælisvert að slíkt gerist. Það sem við höfum gert er að við höfum verið að reyna að bæta kjör lægstu hópanna með markvissum aðgerðum af ýmsu tagi. Við höfum skipulega verið að hækka barnabæturnar því það er í gegnum þær sem við getum komið til móts við tekjulægri barnafjölskyldur. Við höfum gert ýmsar úrbætur á öðrum sviðum. Við höfum t.d. gert sérstakt samkomulag gagnvart eldri borgurum, við höfum fellt niður eignarskattana sem margir tekjulágir eldri borgarar hafa verið að greiða og svo mætti lengi telja. Hér verður flutt frumvarp á næstu dögum frá fjármálaráðherra um úrbætur varðandi vaxtabætur o.s.frv.

Aðalatriðið hlýtur að vera að bæta kjör þeirra sem eru lægst settir. Það getur ekki verið markmið að draga hina niður en það er það sem skilja mátti á ræðu formanns Samfylkingarinnar, að það væri markmiðið af því að bilið skipti mestu máli. Ef bilið skiptir mestu máli þá er leiðin til að bregðast við því sú að þeir sem eru lægstir hækki en ekki að þeir sem eru hæstir lækki. Hér er náttúrlega á ferðinni grundvallarskoðanamunur og kannski eitt af því sem gerir það að verkum að ekki eru allir í sama stjórnmálaflokknum á Íslandi. Sumir kjósa Samfylkinguna vegna þess að hún vill draga úr frumkvæði fólks og hvatningu til þess að afla mikilla tekna. Það er það sem ég heyrði formann Samfylkingarinnar halda hér fram.