133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

vaxandi ójöfnuður á Íslandi.

[10:32]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn skildi mikilvægi þess að ekki drægi í sundur með þjóðfélagshópum. Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn skildi mikilvægi þess að íslenskt samfélag raðaði sér í hóp annarra norrænna samfélaga hvað jöfnuð varðaði. Af hverju skildi Sjálfstæðisflokkurinn það á sínum tíma? Jú, vegna þess að hann áttaði sig á því að almennt leiðir mikill ójöfnuður til sóunar á mannauði, leiðir til meiri mannlegra þjáninga og vandamála og slítur í sundur friðinn í samfélaginu. Þess vegna eru það engin rök hjá hæstv. forsætisráðherra þegar hann segir að það séu aðeins 5% þjóðarinnar sem hafi færst svona hátt upp og svona langt frá öllum hinum. Fimm prósent þjóðarinnar eru 3.000 fjölskyldur. Það er dágóður hópur sem er að flytjast svona langt frá öllum öðrum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur hér ráðalaus. Fjármálaráðherra stendur hér í pontu og hugsar upphátt um það hvernig hlutirnir gætu nú allir farið á verri veg ef þeir gripu til einhverra aðgerða, ef þeir gripu til einhverra jöfnunaraðgerða í þessu samfélagi. (Gripið fram í.)

Staðreyndin er sú, ef við tökum t.d. aldraða, þá var í áratug höfð af þeim kaupmáttaraukning. Barnabætur drógust aftur úr hér um milljarða. Skattbyrðin dreifðist þannig að skattleysismörkin færðust æ neðar í tekjuskalanum og skattar voru lækkaðir á háum tekjum. Þetta voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar, það var ríkisstjórnin sem skapaði þennan ójöfnuð (Gripið fram í.) og þess vegna talaði ég hér áðan um hernað gegn jöfnuði í landinu og ég stend við það. Í þessi tíu ár hefur verið hernaður gegn jöfnuði í landinu og það er þessi ríkisstjórn sem ber á því fulla ábyrgð undir forustu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, (Gripið fram í.) hv. þingmaður.