133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:07]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var nákvæmt orðað hjá hæstv. ráðherra að segja að þess sæjust víða merki. En það fór þó fram hjá mér þannig að við getum vonandi í störfum fjárlaganefndar fundið þau merki sem víða eru. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að auðvitað skiptir framkvæmd fjárlaga verulegu máli og er eðlilegt að leggja mikla áherslu á hana. Hins vegar hefur ítrekað komið fram, m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar, að til þess að það sé unnt verði áætlunargerðin sjálf, sem er grunnur þess að hægt sé að fara að fjárlögum, að vera í lagi. Því miður hefur svo ekki verið undanfarin ár. Auðvitað vonum við að einhver skref hafi verið stigin í rétta átt nú þótt ég hafi ekki séð þau.

Um það er deilt milli fjármálaráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar hvað felist í fjárlögum fyrir árið 2007. Ríkisendurskoðun telur að fjárlög fyrir árið 2007 eigi að vera fjárlög fyrir árið 2007. Fjármálaráðuneytið hefur hins vegar skilað það svo að fjárlög fyrir árið 2007 geti að hluta til verið frá árinu 2006 og þess vegna að hluta til til ársins 2008, slíkt er flotið á milli um áramót að t.d. í störfum fjárlaganefndar höfum við aldrei fengið nákvæmar upplýsingar um hver staða einstakra fjárlagaliða er áætluð um áramót þannig að við sjáum hvað er áætlað til næsta árs. Þannig hefur t.d. komið í ljós, þegar liðið hefur verið á ár, að einstaka stofnanir hafa í raun verið svo gott sem búnar með allar fjárveitingar sínar fyrir viðkomandi ár vegna framúrkeyrslu á árinu á undan. Á sama tíma hafa aðrar stofnanir verið með slíkar innstæður að þær hafa í raun getað aukið útgjöld sín stórlega á viðkomandi ári, þrátt fyrir að það sé ekki samkvæmt fjárlögum þess árs. Svona lausaganga í ríkisfjármálum er óviðunandi. Ef við ætlum okkur að ná tökum á framkvæmd fjárlaga verður að sjálfsögðu að kippa svona hlutum í lag.