133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:10]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Virðulegi frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir sínu fyrsta fjárlagafrumvarpi eftir að sjóndeildarhringur hans er breyttur og hann kominn í annað kjördæmi eins og hann lýsti yfir í blaðaviðtali.

Þetta fjárlagafrumvarp er fyrir margra hluta sakir merkilegt. Það er ekki aðeins liturinn á kápunni sem er með því daufasta sem við höfum séð í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er eins og frumvarpið skammist sín og vilji ekki láta bera á sér, skammist sín kannski fyrir foreldra sína, fyrir fjármálaráðherrann og vilji þess vegna láta lítið fyrir sér fara. (Gripið fram í: Þetta er málefnaleg umræða.) Já, þetta er nefnilega málefnaleg umræða. En það sem vekur athygli fyrst í þessu frumvarpi er að það vantar á það 40 fyrstu síðurnar. Það vantar í þetta frumvarp 40 fyrstu síðurnar, sem almenningur hefði kannski viljað vita hvað stendur á. (EOK: Þetta er í öðru hefti.) Já, í þessari bók hér stendur að það byrji á bls. 45. A.m.k. er þetta frumvarpið sem kveður á um hvers á að taka tillit til.

Allir spyrja hversu raunhæft þetta fjárlagafrumvarp sé. Verða leyfðar frekari stóriðjuframkvæmdir? Fara frekari stóriðjuframkvæmdir af stað? Allir eru sammála um það, bæði höfundar þessa frumvarps, starfsmenn í greiningadeildum bankanna og samfélaginu öllu, að fari frekari stóriðjuframkvæmdir af stað á árinu 2007 og 2008 þá megi henda þessu frumvarpi. Þá stendur ekki steinn yfir steini með áætlunargerðina, allur viðskiptahalli, verðbólga og öll vaxtaspá verður út úr kortinu. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Verður sett stóriðjustopp?