133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þessu ári var gert ráð fyrir því að viðskiptahallinn yrði tæplega 130 milljarðar kr. og þótti öllum mikið. Hann reynist hins vegar verða nær 210 milljörðum kr. eða meira en 80 milljörðum kr. hærri en ráð var fyrir gert. Stýrivextir Seðlabankans eru komnir í 14%, með því hæsta sem gerist í vestrænum ríkjum. Hver heilvita maður ætti að sjá að rekstur á samfélagi, þjóðarbúskap, atvinnulífi og heimilum í slíku vaxtastigi gengur ekki.

Áætlunargerðin fyrir árið í fyrra var ekkert betri. Þá var viðskiptahallinn nærri 60 milljörðum hærri en ráð var fyrir gert í fjárlögum. Þetta er dæmi um hversu gagnslaus áætlunargerðin er ef ekki er tekið inn í það sem ætlunin er að gera.

Á teikniborðinu eru þrjár nýjar álversframkvæmdir sem allar eru á fullu. Allir þeir sem koma að umsögnum um fjármálalíf Íslendinga telja að fari einhver þessara framkvæmda af stað, eða væntingar um hana, muni það kollvarpa þeim áætlunum sem lagðar eru upp í fjárlagafrumvarpinu. Það hlýtur því að verða að teljast mjög ógætilegt af hæstv. fjármálaráðherra að gefa engin svör um hvert framhald verður í stóriðjumálum, hvort það verður sett stopp, hvort það verða gefnar væntingar um að næstu framkvæmdir fari í gang eftir eitt ár eða tvö eða fyrr. Það er þetta sem þjóðarbúskapurinn, efnahagslífið, fjármálalífið, staða fjármála heimilanna veltur á. Ég vona svo sannarlega að sett verði stóriðjustopp en ég vil að hæstv. ráðherra svari því.