133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:19]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það var sérkennilegt að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra þegar hann tilkynnti það við kynningu á því frumvarpi sem hér er til umræðu, þ.e. frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007, að nú ætti að halda áfram, nú yrði boðaður áframhaldandi stöðugleiki í efnahagsmálum. Það er þessi stöðugleiki sem hæstv. fjármálaráðherra boðar áfram, þ.e. það ástand sem við höfum búið við nú síðustu mánuði, verðbólga sem fór upp undir 10%, viðskiptahalli sá mesti sem við höfum nokkurn tíma séð, vaxtahækkanir miklar og gengið upp og niður. Ég hélt sannarlega að hæstv. fjármálaráðherra vildi ekki slíkan stöðugleika. Ég hélt að hann hlyti að stefna að því að breyta þessu ástandi og mundi því boða eitthvað annað en slíkan stöðugleika. Það er brýnasta verkefnið nú um stundir að ná verðbólgunni niður, sem er m.a. afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Á þetta var allt saman bent fyrir ári í umræðum um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2006. Það sem merkast var við þá umræðu og alla umfjöllun í fjölmiðlum og hjá greiningardeildum var að allir nema ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra voru sammála um hvernig bregðast þyrfti við. Hæstv. fjármálaráðherra hlýtur að hafa lært eitthvað af því að áætlanir hans gengu ekki eftir heldur voru aðvörunarorðin rétt.

Afleiðingin af þessu er sú að stór hluti almennings er nú að borga það sem við getum kallað verðbólguskatt vegna þess að afborganir og lán hækka hjá þeim sem hafa þurft að taka þau. Það er stærri hópur nú en oft áður vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar sem urðu til þess m.a. að stærri hópur tók hærri lán en áður var. Þetta bitnar fyrst og fremst á almenningi sem borgar brúsann.

Þetta kemur m.a. fram í greiningu Glitnis en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Hagur heimilanna hefur versnað nokkuð það sem af er ári og er útlit fyrir að hann muni versna enn á næsta ári þegar dregur frekar úr þenslu í hagkerfinu.“

Þetta er staðreynd málsins og er ekki bætandi á þann ójöfnuð sem því miður hefur verið að aukast í samfélaginu undanfarið. Það var vel til fundið hjá hæstv. forseta að hefja þennan morgun með því að setja umræðu um ójöfnuð á dagskrá þegar við ræðum fjárlög fyrir árið 2007. Ég get því stytt mjög þann kafla ræðu minnar sem ég hafði hugsað mér að flytja um það hvernig misskiptingin hefur aukist í samfélaginu og gliðnun orðið á milli þjóðfélagshópa. Ekki er síst um að kenna þeirri skattastefnu sem hér hefur verið fylgt. Ýmsir hafa bent á hvernig það hefur komið misjafnlega niður á hópum. Það þarf svo sem ekki fræðinga til. Þegar verið er að lækka prósentur án þess að hækka persónuafslátt til samræmis við aðrar breytingar í samfélaginu hlýtur það eðlilega að koma best út fyrir þá sem mest hafa fyrir. Það blasir við öllum.

Þegar til viðbótar þessum flata niðurskurði í sköttunum hefur líka verið tekinn hátekjuskatturinn svokallaði þá hefur það enn betur aukið hlut þeirra sem meira hafa haft. Ríkisstjórninni hefur út af fyrir sig gengið vel við að framkvæma þetta. Allar samanburðartölur sýna að jöfnuður hefur minnkað og ójöfnuður aukist. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar og það sem skilur að flokka í þessu landi. Samfylkingin boðar aukinn jöfnuð, ríkisstjórnarflokkarnir vilja fara aðra leið og telja það skila meiri árangri. Um þetta erum við hreinlega ósammála og verðum það væntanlega eitthvað áfram.

Þrátt fyrir þetta sjáum við í fjárlagafrumvarpinu nokkur skref í átt til jöfnunaraðgerða. En hver hefur ýtt við ríkisstjórninni í þá átt? Jú, annars vegar var voru það Samtök aldraðra — gerður var samningur við Samtök aldraðra og sem betur fer stendur ríkisstjórnin við þann samning að því er virðist í fjárlagafrumvarpinu a.m.k. Síðan komu aðilar vinnumarkaðarins enn á ný á vettvang til að aðstoða ríkisstjórnina við að reyna að ná tökum á efnahagsmálunum. Það er ekki í fyrsta skipti. Á það var einmitt bent í umræðunum fyrir ári að það væri líklega helst að vonast til þess að þessir aðilar kæmu að borði ríkisstjórnarinnar og leiddu henni fyrir sjónir hvað gera þyrfti. Það tókst enn einu sinni og við vonum að það skili tilætluðum árangri. En þetta er athyglisvert og svolítið lýsandi fyrir þá ríkisstjórn sem við höfum hér við völd. Þetta er svokölluð viðbragðaríkisstjórn, ríkisstjórn sem lítið horfir fram á við og vill ekki koma í veg fyrir hluti. Ríkisstjórnin hafði lítinn áhuga á því að reyna að koma í veg fyrir verðbólguna. Þegar verðbólgan var komin á það stig að það fór ekki fram hjá nokkrum manni að nú þyrfti að gera eitthvað var hægt að semja við aðila vinnumarkaðarins og þá var gripið til þeirra stórkostlegu aðgerða að skera niður vegaframkvæmdir, helst að sjálfsögðu í þeim landshlutum þar sem menn höfðu ekki séð þenslu árum saman. Þetta er dæmigert þegar menn horfa ekki fram á við og vilja ekki forgangsraða og vilja ekki reyna að átta sig á hlutunum fyrir fram heldur bregðast eingöngu við þegar í óefni er komið.

Í þessu samhengi er einnig athyglisvert að velta fyrir sér umræðunni um matarskattinn og rifja örlítið upp að fyrir síðustu kosningar var það m.a. Sjálfstæðisflokkurinn sem boðaði að lækka ætti matarskattinn. Það var hluti af skattapakka ríkisstjórnarinnar sem alltaf hefur beðið. Nú er búið að framkvæma nær allt af þeim skattapakka sem ríkisstjórnin boðaði í upphafi kjörtímabils. Enn er matarskatturinn eftir og enn kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir: „Ja, við gátum ekkert tekið af þessu inn í fjárlagafrumvarpið af því að við erum ekki tilbúnir með tillögurnar.“ Þrátt fyrir það kemur annar hæstv. ráðherra í fjölmiðla og segir að þetta sé allt saman tilbúið.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur í fjölmiðlana og segir að það sé eðlilegt að ekkert sé minnst á þetta í fjárlagafrumvarpinu. Það er ekkert tilbúið, segir hv. þingmaður. Þrátt fyrir það finnur maður á nokkrum stöðum í frumvarpinu að fjármunir eru settir í hluti þar sem ekkert er tilbúið. Nefnum sem dæmi kostnað vegna þess að herinn er farinn. Tölur eru settar inn en slegnir eru varnaglar og sagt að þetta þurfi að sjálfsögðu að endurskoða af því að þegar ákvörðun er tekin liggi ekki fyrir hvernig samningurinn verði. Ef samhengi væri í hlutunum hefði að sjálfsögðu ekkert verið sett inn þarna vegna þess að frumvarpið var tilbúið áður en samningurinn var gerður. En þessu eigum við ekki að venjast þannig að það er einhver vandræðagangur enn einu sinni í ríkisstjórninni varðandi matarskattinn. Það er sérstaklega athyglisvert þegar við ræðum fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2007. Ég bjóst við að hæstv. fjármálaráðherra mundi a.m.k. í ræðu sinni fara aðeins yfir þessi mál. Hæstv. forsætisráðherra tilkynnti það í þessum sal fyrir tveimur dögum að matarverð á Íslandi yrði það sama og á öðrum Norðurlöndum. Eitthvað hlýtur að vera í pokahorninu fyrst hægt er að fullyrða slíkt.

Vaxtabætur eru einnig þáttur sem tengist jöfnunaraðgerðum. Í þessu frumvarpi eru boðaðar hækkanir um vaxtabætur um 430 millj. kr. Ekki er að sjá að það muni duga til þess að bæta þær skerðingar sem átt hafa sér stað undanfarið ár og í ár. Það stefnir því í það að á næsta ári verði skerðingum haldið áfram. Það er hins vegar boðað frumvarp um það hvernig farið skuli með vaxtabætur. Það hefur ekki sést enn þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi jafnvel búist við því að því yrði útbýtt í þingsal í fyrradag. En hvað tefur orminn langa, hæstv. fjármálaráðherra? Við fáum vonandi svör við því fljótlega.

Frú forseti. Það sem einkennir síðustu ár er að hin mikla tekjuaukning ríkissjóðs hefur ekki verið notuð til að auka jöfnuð í samfélaginu. Það er hin alvarlega staðreynd málsins. Nú þegar margt bendir til þess að niðurleiðin sé hafin verður erfiðara en ella að grípa til slíkra aðgerða. Lausatökin hafa verið slík í útgjöldum ríkissjóðs að það verður erfitt að taka snögga beygju til baka.

Frú forseti. Það er hægt að tína ýmislegt til varðandi afrek þessarar ríkisstjórnar. Ég ætla þó að láta duga hér, vegna skorts á tíma, að telja upp helstu afrek ríkisstjórnarinnar. Skattbyrði á einstaklinga er nú meiri en áður, báknið er stærra en nokkurn tíma áður, áður óþekkt skattheimta er á láglaunafólk og bótaþega, barnabætur eru lægri, tryggingagjöld eru hærri, vaxtabætur eru skertar, bensín- og bifreiðaskattar eru auknir, þjónustugjöld hafa stóraukist, komugjöld í heilbrigðiskerfinu hafa hækkað stórlega, síaukinn lyfjakostnaður heimilanna liggur fyrir og matarverðið er eitt það hæsta í Evrópu. Þetta er m.a. árangurinn af áratugastjórn ríkisstjórnarinnar.

Frú forseti. Það sem hefur einkennt þennan stjórnarmeirihluta hvað varðar fjárlagafrumvörp er agaleysið. Það hefur verið árlegur viðburður, bæði í þinginu og að sumri til, að um þetta hefur verið fjallað. Ríkisendurskoðun hefur árlega, ár eftir ár eftir ár, bent á sömu hlutina. Það er algerlega með ólíkindum að það skuli að því er virðist lítið sem ekkert hlustað á aðvaranir Ríkisendurskoðunar hvað þetta varðar. Það er sérstaklega alvarlegt gagnvart fjárlaganefndinni sjálfri og við vonum að þegar nýr formaður fjárlaganefndar heldur ræðu sína á eftir verði boðuð gjörbreytt vinnubrögð. Slíkar hafa aðvaranirnar verið. Við bíðum eftir því, hv. þm. Birkir J. Jónsson.

Frú forseti. Það er ýmislegt í þessu fjárlagafrumvarpi sem eðlilegt er að fjalla um. Það blasir við að tekjur verða lægri á næsta ári einfaldlega vegna þess að efnahagsforsendur segja okkur það. Hvernig brugðist verður við verður að koma í ljós. Það er hins vegar ljóst að áætlunargerð fjármálaráðuneytisins er líklega hvað veikust hvað það varðar. Það er að sjá að aðrar greiningarstofnanir t.d. spái því að viðskiptahallinn verði minni en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir og tekjur verði því minni en ráðuneytið gerir ráð fyrir. Þá er spurningin hvernig því verður mætt. Við bíðum og sjáum.

En það er ýmislegt annað boðað í frumvarpinu og það merkilegasta eru líklega hinar auknu vegaframkvæmdir. Þær hafa flestar áður verið boðaðar, síðan hefur þeim verið frestað og aftur boðaðar og enn einu sinni eru þær boðaðar. Það er spurning, þegar við berum saman kjörtímabilið t.d., hvaða aukning er það sem hæstv. ráðherra er að tala um í vegaframkvæmdum? Þegar tímabilið er saman tekið er líklega enn verið að fresta einhverju. Við bíðum hins vegar eftir sundurliðun frá fjármálaráðuneytinu sem óskað hefur verið eftir í nefndinni og munum þá fjalla betur um það.

Í andsvari áðan við hæstv. fjármálaráðherra minntist ég á aðhaldsaðgerðir sem boðaðar eru í frumvarpinu, um 1% í þremur ráðuneytum ef ég man rétt og 2% í öðrum. Það er sérkennilegt að enn skuli menn stunda slíkan flatan niðurskurð. Hann kemur þar af leiðandi niður á ýmsum málum. Það er eðlilegt að það veki athygli að þegar menn tala hvað mest um forvarnamál eins og gert hefur verið á undanförnum missirum skuli æskulýðs- og íþróttamál fá algerlega sama niðurskurð og aðrir. Það er hins vegar ljóst að ekki er frekar en fyrri daginn tekið á rekstrarvanda ýmissa ríkisstofnana. Ég nefni sem dæmi framhaldsskóla, háskóla og heilbrigðisstofnana. En ég ætla hér að einbeita mér sérstaklega að framhaldsskólum. Í skýrslum frá OECD hefur t.d. komið fram að þrátt fyrir að menntakerfið okkar í heild sinni standi sæmilega í samanburði við aðrar þjóðir hvað fjárútlát snertir þá er það fyrst og fremst grunnskólastigið, sem er á hendi sveitarfélaganna, sem skapar okkur þessa stöðu. Þegar við skoðum framhaldsskólana stöndumst við ekki samanburðinn.

En hvernig er þessari skýrslu mætt í fjárlagafrumvarpinu? Jú, það er gert með þeim hætti að byrja á því að tilkynna að gert sé ráð fyrir 800 nemenda fjölgun í framhaldsskólum og það muni kosta um 500 millj. kr. Síðan kemur að vísu fram í frumvarpinu að á undanförnum árum hafi yfirleitt ekki verið hægt að gera upp við skólana samkvæmt ýtrustu viðmiðunum svokallaðs reiknilíkans, sem þýðir að sumir skólar eru væntanlega með hala frá fyrri árum. En þá komum við að hinum flata niðurskurði vegna þess að framhaldsskólarnir þurfa að taka þátt í honum. Þeir fá 500 millj. til að mæta nemendafjölgun en þurfa um leið að taka á sig 300 millj. kr. lækkun vegna niðurskurðarins. Hvernig er farið að því að taka þessar 300 millj. til baka af skólunum? Jú, það er enn einu sinni farið í reiknilíkan, reiknilíkanið sem sýnir hvað það kostar að reka skólana. Þá er farið að hagræða í reiknilíkaninu. Ekki í fyrsta skipti, ekki í annað skipti. Þau eru óteljandi skiptin sem það hefur verið gert og er mér kunnugt um að nú séu margir farnir að kalla reiknilíkanið niðurskurðarlíkan. Í hvaða hóp er farið til að skera niður í framhaldsskólunum? Jú, það er fyrst og fremst farið í hina smærri skóla, það er fyrst og fremst farið í verknámsskóla. Er það vægast sagt afar sérkennilegt í ljósi þeirra orða sem hæstv. menntamálaráðherra lét falla þegar svokölluð starfsnámsnefnd skilaði af sér. Þá skorti ekki fögru orðin um að nú skyldi tekið á starfsnáminu, tekið á verknáminu. Fjárlagafrumvarpið, næsta sem kemur, sýnir okkur að þar er farið einhverja allt aðra leið. Niðurskurðurinn í reiknilíkaninu bitnar fyrst og fremst á litlum verknámsskólum. Af hverju segi ég þetta? Vegna þess að niðurskurðurinn kemur m.a. fram í því að fjölga á bóklegum áföngum sem tengjast iðnnámi. Og hvað á að fjölga þeim mikið? Um heil 20%. Víðast hvar í verknámsskólunum er ekki hægt að koma þessum fjölda nemenda fyrir, þeir komast ekki í tækin þannig að hóparnir eru ekki til og í minni skólunum enn þá síður. Verið er að fjölga í raungreinaáföngum um 10% og er nýtingarkrafa í bóklegum áföngum aukin nokkuð. Allir þessir þættir koma fyrst og fremst niður á litlu skólunum og verknámsskólunum, það kemur auðvitað niður á öllum.

Í stað þess að fara, og kem ég nú enn að skýrslum Ríkisendurskoðunar, eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar um það hvað raunverulega þarf að bæta í reiknilíkaninu er farið alveg í öfuga átt. Ríkisendurskoðun benti á það í skýrslu, þegar hún gerði úttekt á einum framhaldsskólanum, að það sem þyrfti helst að breyta í reiknilíkaninu væri að taka fastakostnaðinn út úr, taka húsnæðiskostnaðinn út úr vegna þess að stjórnendur og nemendafjöldi hefðu lítil sem engin áhrif á þann kostnað. Þannig væri hægt að ná betri tökum á reiknilíkaninu, þannig yrði það gegnsærra og þannig mundi það lýsa betur kostnaði við að reka skólana. En með svona aðgerðum sem hér eru boðaðar, og því miður ekki í fyrsta skipti, er verið að eyðileggja reiknilíkanið. Þá segir reiknilíkanið ekki það sem því er ætlað. Það er miklu hreinlegra að láta reiknilíkanið reikna út hvað hlutirnir kosta og koma síðan og segja: „Við höfum ekki efni á eða við höfum ekki áhuga á að skólarnir fái það fjármagn sem þeir þurfa.“ Þetta er mjög sérkennilegt miðað við margt sem sagt hefur verið. Það er ekki síst sérkennilegt í ljósi þess að menntun er eitt af því sem við þurfum að fjárfesta í til framtíðar. Framhaldsskólinn er að verða ein af veiku stoðum menntakerfisins (Gripið fram í.) og þess vegna, hæstv. menntamálaráðherra, þarf að taka á þessu máli með öðrum hætti en þeim að fara enn einu sinni í reiknilíkanið og gera skólunum erfiðara fyrir. Samanburðurinn er líka orðinn æpandi á milli grunnskóla og framhaldsskóla. Grunnskólarnir hafa tekið stökkbreytingum frá því að þeir voru fluttir yfir til sveitarfélaganna, sem var mikið gæfuspor. Ég vona að hæstv. menntamálaráðherra fari að átta sig á því að ef ekki verður breyting á þessu verður krafan um það að framhaldsskólinn verði fluttur til sveitarfélaganna æ háværari — enda sjálfsagður hlutur að framhaldsskólinn sé hjá sveitarfélögunum því þar er um nærþjónustu að ræða og þau hafa sýnt það sveitarfélögin að þau eru fullfær um að sjá um slíka þjónustu.

Frú forseti. Það fór örlítið lengri tími í þetta mikilvæga mál um framhaldsskólana en ég hafði ætlað. Það er þó rétt að enda á því að vekja athygli á því að svolítið sérkennilegur munur er á því hvernig fjárveitingum er skipt til háskólanna. Sláandi dæmi um það sjáum við þegar við berum saman fjárveitingar til Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík, stofnanir sem hafa verið í svipuðum uppbyggingarfasa en meðhöndlunin er gerólík. Það er einhver ástæða fyrir því að skýringin eina sem gefin er á þessu er sú að Háskólinn í Reykjavík hafi fengið nýjan samning.