133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:16]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, nýkjörinn formaður fjárlaganefndar, fór víða í ræðu sinni og lét ýmsa heyra ýmislegt. Ég get ekki í stuttu andsvari komið að nema einstaka þáttum og ég ætla að halda mig við fyrri hluta ræðu hv. þingmanns vegna þess að þar boðaði hv. þingmaður að reynt yrði að nálgast fjárlagafrumvarpið á annan hátt en venjulega, það yrði reynt að sýna meiri aga. Það væri fróðlegt að heyra útlistanir á því hvernig hv. þingmaður ætlar að koma því fram. Síðan fór hann með trúarsetningar um viðhald stöðugleika og það var sumarið og svo trúði hann því sem er einstakt, ég hef ekki heyrt nokkurn mann gera það, að frestun framkvæmda m.a. í sameiginlegu kjördæmi okkar hv. þingmanns, þ.e. vegaframkvæmdirnar þar, hafi skilað alveg sérstökum árangri, nú væri nú búið að ná niður verðbólgunni — líklega einn og sér.

Síðan var það varðandi barnabæturnar og vaxtabæturnar og skattleysismörkin. Allt þetta, hv. þingmaður, hefur verið skert eða látið dragast aftur úr um langt skeið. En ég hélt, hv. þingmaður, að þú værir búinn að læra það, a.m.k. værir þú ekki svo sannfærandi í framan þegar þú færir með rullu fyrrverandi forsætisráðherra Davíðs Oddssonar um það hvernig væri verið að bæta hluti.