133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:21]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Nú höfum við hlýtt á varaformann og formann fjárlaganefndar fara með staðlausa stafi og maður er hissa á að þessir menn skuli vera í þeirri stöðu, að bera á borð hreina og klára vitleysu þegar þeir halda því fram hér hver á eftir öðrum að ójöfnuður hafi ekki aukist. Ég vil að þessir ágætu hv. þingmenn kynni sér þessa hluti. Og það er ekki einungis ég sem er að segja þetta eða prófessor uppi í háskóla heldur er þetta komið á blaði frá fráfarandi fjármálaráðherra landsins sem núna er forsætisráðherra landsins. Hvers vegna í ósköpunum eru menn að neita staðreyndum? Ég vil spyrja formann fjárlaganefndar: Er þetta ekki bara það sem Framsóknarflokkurinn hefur stefnt að leynt og ljóst? Mér finnst þetta vera eitthvað sem menn geti ekki bara talað um eins og það sé ekki til. Þetta eru staðreyndir sem blasa við, ójöfnuðurinn hefur aukist gríðarlega í stjórnartíð Framsóknarflokksins og það sem meira er, hann hefur alltaf farið dýpra og dýpra ofan í vasa þeirra sem hafa lægstu launin og létt skattbyrðinni af þeim sem hafa hæstu launin. Nú er það svo að þeir sem hafa hæstu tekjurnar greiða sama hlutfall í skatt og öryrkjar og aldraðir. Þetta er Ísland Framsóknarflokksins.