133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:24]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru staðreyndir sem sjálfur fjármálaráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra hafa komið með inn í þingið, að ójöfnuður hefur aukist í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og menn geta ekki komist hjá því að viðurkenna það með því að þvæla fram og aftur um einhverja prósentutölu um hækkanir á hinum og þessum liðum. Þetta eru blákaldar staðreyndir. Það sem verra er fyrir þessa flokka, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, er að þeir hafa reynt að leyna þessu, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur verið að gera. Hann hefur leynt þessu með því að tala um hækkun og lækkun.

En það er annar ójöfnuður sem ég tel að hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem landsbyggðarþingmaður ætti að fjalla um. Það er sá ójöfnuður sem blasir við á kjörum landsmanna eftir því hvar þeir búa í landinu og það er hægt að sjá það í Fréttablaðinu nú þessa dagana þar sem verið er að gera úttekt á því að laun okkar sem búum úti á landsbyggðinni eru umtalsvert lægri en kjör þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og þau hafa versnað í stjórnartíð Framsóknarflokksins.