133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:29]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt það þarf að standa vörð um atvinnuréttindi fólksins í sjávarbyggðum. Það er ekki hægt að skamma sjómenn úr Grímsey sem nýlega voru að selja 42% af kvóta sem þar var fyrir að hafa gert það. Þeir hafa rétt til þess samkvæmt lögunum. En þar með er stór hluti af atvinnuuppbyggingu Grímseyinga farinn, menn sitja uppi með það. Ég er ekki að skamma Samherjamenn fyrir að gera út og gera út af krafti en ég hef oft bent á það í ræðu að menn kunna að nota sér lögin. Þeir hafa gert það af mikilli snilld. Ég er ekkert að skamma þá fyrir það en það er okkar sem erum á Alþingi að fara í gegnum lög og reglur og gera þau þannig úr garði að við virðum þau gildi sem við viljum viðhalda. Ég trúi því ekki að hv. þm. Birkir Jón Jónsson sé ekki sammála mér um að vilja viðhalda byggð sem víðast hvar í landinu og efla stöðu sjávarbyggðanna.