133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:31]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir J. Jónsson fór hér mikinn og um víðan völl. Eitt fannst mér þó gott hjá hv. þingmanni, talsmanni Framsóknarflokksins, að hann gekkst orðalaust við allri stóriðjustefnu Framsóknarflokksins. Hann gekkst orðalaust við þeirri stefnu sem Framsóknarflokkurinn hefur rekið, þeirri virkjanastefnu, stóriðjustefnunni sem hann hefur staðið fyrir og mun væntanlega áfram standa fyrir. Mér finnst þetta heiðarlegt en sumir þingmenn flokksins, meira að segja hæstv. iðnaðarráðherra, segja að Framsóknarflokkurinn hafi látið af stóriðjustefnu 2003 og ég veit ekki hvað verður næst upp á teningnum hjá hæstv. iðnaðarráðherra. En hv. þm. Birkir Jón Jónsson gengst heiðarlega við þessu, að Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) er stóriðjuflokkur, hefur verið það og (Forseti hringir.) mun væntanlega verða það áfram. Það er gott að standa fast á meiningu sinni.