133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007 hefur verið lagt fram og er til 1. umr. eins og áheyrendur hafa rækilega tekið eftir.

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar og fjárlög sýna í hnotskurn stefnu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma. Þar kemur fram hvernig tekna skuli aflað, áætlun um tekjur, hvernig tekjuöflun ríkissjóðs er skipt niður á þegnana, á atvinnulífið, á velferðarkerfið, á neyslu, fjárfestingar o.s.frv. Í umræðunni um fjárlögin og meðferð þeirra birtist með skýrum hætti munurinn á stefnu stjórnmálaflokkanna í þjóðfélagsmálum eins og við höfum heyrt í morgun.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að íslenskt samfélag einkennist af jöfnuði, frelsi, fjölbreytni og ríkri samkennd. Framtíðarsýn okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er sú að allir eigi að fá að njóta sín á eigin forsendum í samfélagi þar sem samhjálp, virðing og velferð ríki. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill hverfa frá núverandi stefnu stjórnvalda, áherslu þeirra á auðhyggjusamfélagið þar sem efnahagslegur mælikvarði er lagður á allt og alla.

Það er í hugmyndafræði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að nýta beri skattkerfið til tekjuöflunar en ekki síður sem jöfnunartæki í samfélaginu. Fréttir sem við fáum daglega af gríðarlegri auðsöfnun fárra einstaklinga og aukinni misskiptingu í samfélaginu ganga fram af þjóðinni og eru að kljúfa hana í fylkingar. Það er því mikilvægara nú en nokkurn tíma áður að jafna kjörin með þeim tækjum sem við höfum í gegnum ríkisfjármálin, með sköttum og velferðarkerfinu þannig að við berum byrðarnar eftir því hvað bökin eru breið og þeir sem þurfa á samfélagslegri aðstoð að halda fái notið þess þannig að við byggjum samfélag af fullri reisn.

Misskiptingin sem við nú upplifum er einmitt á ábyrgð sitjandi ríkisstjórnar sem notar mælistiku peninga á lífsgæði og hefur búið til þá skynvillu að sum störf séu margfalt verðmætari en önnur og laun fyrir þau gríðarlega verðmætu störf megi ekki skerða með neinum hætti. Hálaunamönnum er gefinn afsláttur af samneyslunni með því að afnema hátekjuskatt. Þetta er síðasta árið sem sérstakur hátekjuskattur er innheimtur. Hann fellur niður um næstu áramót. Sömuleiðis kemur að fullu til framkvæmda á næsta ári, eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði grein fyrir, skattalækkun ríkisstjórnarinnar, tekjuskattslækkun sem kemur fyrst og fremst hátekjufólki til góða.

Þetta sést líka í atvinnustefnunni því að stjórnvöld, þó að þau reki ekki sjálf með beinum hætti framleiðsluatvinnutengda starfsemi, þá reka þau gríðarlega mikilvæga þjónustustarfsemi. Stefna núverandi stjórnvalda leiðir þjóðfélag okkar mjög hratt inn á braut aukinnar einhæfni, einhæfni í atvinnulífi með ofuráherslum á risavaxnar töfralausnir sem passa sjaldan í okkar fámenna og dreifbýla landi.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á að náttúra, velferð og menning eigi að fá jafnt vægi og efnahagsleg rök. Lausn á vandamálum jarðarinnar verður aðeins fundin með því að jafnt tillit sé tekið til félagslegra, efnahagslegra, lífrænna og menningarlegra þátta. Sé slíkt haft að leiðarljósi og unnið eftir þeirri sýn mun sveit og borg blómgast á eigin forsendum. Þar mun verða fjölbreytt mannlíf, fjölbreytt atvinnulíf og fjölbreytt og vistvæn náttúra.

Lögmál um framboð og eftirspurn skýrir ekki eitt sér óendanlegan fjölbreytileika í tilveru okkar. Það er hárrétt að í efnahagslegu tilliti hefur Íslendingum að mörgu leyti gengið í haginn á síðustu árum og uppgangur verið talsverður og jafnvel mikill á sumum sviðum. En misskipting og vaxandi bil hefur orðið á milli fátækra og ríkra. Það bil stækkar hlutfallslega og það er áhyggjuefni. Af því höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þungar áhyggjur. Við höfum áhyggjur af aukinni fákeppni og einokun á mikilvægum sviðum í atvinnulífi, í velferðarþjónustu og almannaþjónustu.

Áður en ég sný mér að frumvarpinu sem við höfum hér til umfjöllunar vildi ég víkja að aðstæðum fjárlaganefndar og einstakra þingmanna til að vinna að þessum málum. Aðstæður fjárlaganefndar og einstakra þingmanna til að meta á sjálfstæðan hátt forsendur útgjalda og tekjuhlið frumvarpsins hafa versnað stórum á undanförnum árum. Í ljósi þess hversu áætlanagerð af hálfu fjármálaráðherra hefur reynst óábyggileg og oft fálmkennd og hve erfitt hefur reynst að fá upplýsingar er brýnna nú en nokkru sinni fyrr að styrkja stöðu þingsins og nefnda þess hvað ríkisfjármál og efnahagsmál varðar. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað lagt til á Alþingi stofnun sérstakrar efnahagsskrifstofu þingsins sem geti lagt sjálfstætt mat á stöðu og þróun efnahagsmála og fjármála og verið þingmönnum og nefndum þingsins til ráðuneytis um mat og tillögugerð í þeim efnum.

Ein rökin fyrir því á sínum tíma að leggja niður Þjóðhagsstofnun voru þau að komnir væru fram svo margir aðilar í þjóðfélaginu, greiningardeildir banka og fleiri, sem tækju saman upplýsingar í samfélaginu, efnahags- og fjármálalegar upplýsingar, með betri og fjölbreyttari hætti en áður og því væri ekki þörf á Þjóðhagsstofnun. Reyndin var hins vegar sú að Þjóðhagsstofnun var lögð niður vegna þess að hún makkaði ekki rétt með stjórnvöldum. Þegar fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komu hingað árið 2005 gerðu þeir hins vegar alvarlegar athugasemdir við þau gögn sem þeir fengju frá opinberum stjórnvöldum hér á landi hvað varðaði efnahags- og fjármál bæði þjóðarbúskapsins og ríkisins. Þá bregður svo við að ríkisstjórnin bregst við þessum beiðnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samþykkti 15 millj. kr. á þessu ári og 15 milljónir á síðasta ári til að ráða sérstaka starfsmenn við Hagstofuna til þess að vinna betur skýrslurnar fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það var meira og merkilegra en að vinna þyrfti sjálfstætt fyrir þingið eins og Þjóðhagsstofnun gerði. Þegar við svo sjáum að undir forsætisráðuneytinu eru einnig 50 milljónir til sérstakra efnahagsrannsókna þá spyr maður sig hvort ekki hefði verið rétt að setja þessa peninga í það að stofna efnahagsstofu Alþingis sem gæti starfað óháð fjármálaráðuneytinu, ríkisvaldinu, en fyrir alþingismenn, því að hvað varðar upplýsingar sem þingmenn þurfa að afla sér um þessi mál þá verða þeir að treysta á slíkar upplýsingar t.d. frá fjármálaráðuneytinu.

Hvernig hafa svo þessar upplýsingar fjármálaráðuneytisins reynst? Fyrir þetta ár, árið 2006, var gert ráð fyrir að viðskiptahalli þjóðarinnar yrði u.þ.b. 128 milljarðar kr. og þótti mörgum mjög hátt, 11–13% af áætlaðri þjóðarframleiðslu. Hvað reynist hann hins vegar nú ætla að verða? Hann virðist ætla að verða yfir 209 milljarðar kr. eða 18,6–18,7% af þjóðarframleiðslu. Þetta var litlu skárra árið 2005 því að þá hafði verið áætlað að viðskiptahallinn yrði um 100 milljarðar kr. en reyndist 161 milljarður eða nærri 60 milljörðum hærri en ráð var fyrir gert. Þetta sýnir í hnotskurn annars vegar veikleika efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og hins vegar hversu óábyggileg vinna hennar er og þar af leiðandi líka grunnforsendur fjárlagafrumvarpsins.

Nú stöndum við uppi með stýrivexti frá Seðlabankanum upp á 14%. Í almenna bankakerfinu stöndum við uppi með almenna vexti upp á yfir 20%, 20–23%. Ekki eru sjáanleg nein teikn á næstunni sem boða grundvallarbreytingu hér á. Hvernig ætlum við þá að reka hér þjóðfélag, atvinnulíf og samfélag með svona háum vöxtum, með svona miklum viðskiptahalla sem safnast ár frá ári, með verðbólgu sem er mun hærri eða nærri tvöfalt hærri en ráð var fyrir gert á þessu ári í forsendum fjárlagafrumvarpsins? Hún var líka miklu hærri á síðasta ári en ráð var fyrir gert. Þetta er ríkisstjórn sem er búin að sitja allt of lengi, er komin á annan áratug og ætti að vera búin að átta sig á því hvernig menn gera slíkar áætlanir eða hvaða ramma menn setja.

Það eru hins vegar allir sammála um hver ástæðan er. Grundvallarástæðan fyrir þessu er hin hömlulausa stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar, stóriðjustefna sem hefur leitt til slíks ójafnræðis í íslensku samfélagi, í íslensku efnahagslífi, að við vitum ekki enn hvenær við réttum okkur við af því sem nú er í gangi, af Kárahnjúkavirkjun og Reyðaráli, af stækkun álversins í Straumsvík, af Hellisheiðarvirkjun. Það var ekki gert ráð fyrir öllum þessum framkvæmdum, a.m.k. ekki framkvæmdunum við Grundartanga og Hellisheiðarvirkjun, í undirbúningi fyrir fjárlagagerð á síðasta ári. Og svo þegar fara á að grípa til efnahagsaðgerða á þessu ári, til hvers er þá gripið? Jú, það er gripið til þess að skera niður vegaframkvæmdir, fresta vegaframkvæmdum, fresta þessum litlu vegarspottum sem höfðu verið ákveðnir á Vestfjörðum, á Norðausturlandi. Þar var ríkisstjórnin nógu stór til að ákveða að þeim skyldi fresta. Þó svo að aðeins væri um frestun að ræða voru þetta þau sterku sálrænu skilaboð til íbúa á þessum landsvæðum að þeir skyldu fyrstir allra taka á sig stóriðjuþensluna, niðurskurðinn, frestunina, samdráttinn sem þyrfti að beita til þess að ná einhverju jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Jafnvægi? Hver var svo þessi frestun? Hún var upp á 1,3 milljarða kr. eða eitthvað svoleiðis í þjóðarbúskap upp á 1.000 milljarða kr. Þá var stærðin ekki meiri hjá ríkisstjórninni en svo að ráðast skyldi á Vestfirðinga, á íbúa Norðausturlands og tilkynna þeim að þeir yrðu fyrstir til að taka á sig stóriðjuþensluna. Svo koma menn býsna reifir hér við framlagningu fjárlagafrumvarps og segja: Jæja, þessi frestun var svo góð og tókst svo vel að nú höfum við ákveðið að ráðast aftur í þær framkvæmdir sem frestað var í sumar.

Það er ágætt, en samt er reisnin í vegamálum ekki meiri en svo að það er aukið við á næsta ári um 4–5 milljarða, sem hæstv. ráðherra minntist hér á að mig minnir. Loforð sem þessi ríkisstjórn þarf ekkert endilega að standa við ef hún kemst til valda, því ef dæma á af reynslunni fyrir fjórum árum kom líka þessi stóra og mikla vegáætlun, vegáætlun sem var skorin strax niður á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar. Vegáætlunin sem nú er í gildi hefur verið skorin niður um milli 6–7 milljarða kr. Gera menn sér grein fyrir því, til viðbótar þeirri frestun sem kom í fram í sumar til þess að slá á stóriðjuþensluna? Þó að stórum hluta eða meginhluta þess sem slegið var af á tímabilinu sé nú lofað í næsta fjárlagafrumvarpi þá er nú aftur skorið niður, því að það var líka búið að lofa sérstökum peningum af sölu Símans til vegaframkvæmda. Ég man ekki töluna nákvæmlega, ætli hún hafi ekki verið nálægt 4,5 milljörðum eða þar um bil. En það er einmitt í kringum þá upphæð sem aftur er skorin niður af þeirri samanlögðu vegáætlun sem við töldum okkur hafa á næsta ári. Þessi kosningablekkingarleikur í kringum vegamál og fjárveitingar til vegamála er forkastanlegur, frú forseti, og það að einmitt íbúar þessara landshluta skuli verða valdir úr til þess að verða fórnarlömb í þessum blekkingarleik. Það munar sko ekkert um það í efnahagslífi þjóðarinnar að standa við vegáætlunina, standa við brýnar vegaframkvæmdir sem íbúar vítt og breitt um landið, líka á höfuðborgarsvæðinu, voru búnir að bíða eftir og töldu sig vera með í hendi. Í yfir 1.000 milljarða þjóðarbúskap þótti muna um að fresta vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og Norðausturlandi um rúman milljarð króna og segja svo: Ja, við skoðum þetta aftur í vetur. Og nú koma loforðin.

Frú forseti. Þeir þættir aðrir sem ég vildi minnast á til viðbótar eru t.d. ferðamálin. Ferðaþjónustan er ein öflugasta atvinnugreinin hér á landi og þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður á síðustu fjórum árum í stóriðjuþenslunni, í ruðningsáhrifum stóriðjuþenslunnar þá hefur hún þó staðið það af sér og er sú atvinnugrein sem vex hraðast og skilar mestu í þjóðarbúið og hæstum og mestum þjóðhagslegum ábata, atvinnugrein sem við verðum að fara að byggja grunnstoðir undir í auknum mæli og miklu meira mæli. Þá láta menn sig muna um að skera niður markaðsstarf til ferðamála um 120 millj. kr. Sú upphæð sem þar var inni var reyndar lækkuð á síðasta ári. Þá láta menn sig muna um að skera niður þá upphæð sem var inni til markaðsstarfs ferðamála.

Við sem þekkjum til úti um land vitum að það er einmitt til ferðaþjónustunnar sem við þurfum að koma með grunnstuðning. Þetta er ung atvinnugrein. Hún á lítinn höfuðstóll, hún er ekki með alda höfuðstól að baki eins og sjávarútvegurinn eða landbúnaðurinn, að ég tali nú ekki um alla meðgjöfina sem stóriðjan fær. Nei, hún þarf stuðning. Hefði ekki átt að byggja upp upplýsingamiðstöðvar vítt og breitt um landið, heilsársupplýsingamiðstöðvar sem starfa með ferðaþjónustunni? Nei, menn láta sig muna um að skera niður þessar 100–120 millj. kr. sem voru þó inni í markaðsmálum ferðaþjónustu.

Frú forseti. Tími minn er búinn í þessari umferð en það eru fleiri þættir sem ég vil koma að hér síðar, bæði stóriðjan og áhrif hennar og einnig velferðarmálin, en það kemur þá í seinni ræðu, frú forseti, og óska eftir að forseti setji mig aftur á mælendaskrá.