133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:57]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki oft sem stóriðjan mætir afgangi hjá Vinstri grænum í umræðum sem þessari. En ég held að það endurspegli þá miklu vörn sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð er komin í vegna ræðu Steingríms J. Sigfússonar fyrr í sumar um að þessi framkvæmd skuli standa sem minnismerki um heimsku manna, það ætti sem sagt ekkert að hefja neina starfsemi þar. Þetta er eitthvað sem hv. þm. Jón Bjarnason þarf að standa skil á.

Hv. þingmaður ræddi mikið um útgjöld og mörg þörf og góð mál. Spurning mín til hv. þingmanns er: Hvernig ætlar hv. þingmaður að fjármagna þetta? Staðreyndin er sú að við þurfum öflugt atvinnulíf til að standa undir mennta-, heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Það höfum við verið að gera, ríkisstjórnin, allt frá árinu 1995. Hv. þingmaður talar eins og hér sé einhver hægri stjórn við völd, en ég nefndi það í ræðu minni áðan að við höfum aukið framlög ríkisins til heilbrigðismála um 27,5 milljarða að raungildi eða um 49%. Við höfum aukið framlög til almannatrygginga um 23 milljarða frá 1998 eða um 45% og við höfum hækkað framlög til háskólastigsins um 80%. Þetta er raunaukning. Hvernig getur hv. þingmaður Vinstri grænna komið hér upp og sagt að ríkisstjórnin sé að skerða velferðarkerfið og menntakerfið? Það eru staðlausir stafir af hálfu hv. þingmanns auk þess sem Vinstri grænir hafa ekki trúverðugleika í þeim efnum að byggja upp og standa vörð um atvinnulífið. Vinstri grænir vilja setja höft á íslenskt atvinnulíf og sagan sannar að slíkt mun ekki auka tekjur þjóðarbúsins. Þvert á móti munu tekjurnar skerðast og þá þurfa menn að skera niður í mennta-, heilbrigðis- og velferðarmálum.